Iðkendur verðlaunaðir á lokahófi Júdódeildar Tindastóls

Frá lokahófi Júdódeildar Tindastóls. Mynd: Einar Örn Hreinsson.
Frá lokahófi Júdódeildar Tindastóls. Mynd: Einar Örn Hreinsson.

Iðkendur og aðstandendur Júdódeildar Tindastóls komu saman og gerðu sér glaðan dag í gær, sem markaði lok skipulegs starfs deildarinnar þetta starfsárið.

Boðið var upp á grillaðar pylsur með „öllu“ sem runnu ljúft niður. Svo vel vildi til að trampólín var á staðnum sem var mjög vinsælt auk þess sem farið var í leiki.

Eignabikarar voru veittir fyrir efnilegustu júdókonuna og efnilegasta júdómanninn ásamt besta júdómanni Tindastóls. Að þessu sinni hlutu Ása María Sigurðardóttir og Arnór Freyr Fjólmundsson bikara fyrir að vera efnilegust og Þorgrímur Svavar Runólfsson hlaut bikar sem besti júdómaður Tindastóls fyrir starfsárið 2017/2018.

Júdódeildin vill þakka iðkendum, foreldrum og öðrum, sem komið hafa að starfinu með einum eða öðrum hætti, fyrir veturinn og vonast til að sjá sem flesta þegar æfingar hefjast aftur í haust.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir sem teknar voru við tækifærið.