Lög Ungmennafélagsins Tindastóls

1. grein. Heiti félagsins:

Félagið heitir Ungmennafélagið Tindastóll, skammstafað U.M.F.T. Heimili þess og varnarþing er á Sauðárkróki.

2. grein. Tilgangur félagsins:

Tilgangur félagsins er að standa fyrir iðkun íþrótta á Sauðárkróki meðal félagsmanna sinna og efla íþróttastarf á Sauðárkróki.

3. grein. Merki félagsins og búningur:

Merki félagsins er hvítt T í jafnarma þríhyrningi í bláum og rauðum grunni. Notkun merkisins er óheimil nema með skriflegu leyfi aðalstjórnar félagsins.

Yfirlit yfir skrifleg leyfi fyrir notkun á merki félagsins skal vera aðgengilegt á heimasíðu Tindastóls. Ef óheimil notkun á sér stað rennur ágóði sem hlýst af notkun og markaðssetningu merkis félagsins beint til aðalstjórnar Tindastóls.

Keppnisbúningur félagsins er vínrauður að lit. Varabúningar skulu vera í samræmi við félagsliti ef kostur er. Sé þess ekki kostur skal deild leita samþykkis Aðalstjórnar. 

4. grein. Innganga og úrsögn:

Allir iðkendur stjórnarfólk og þjálfarar eru sjálfkrafa félagsmenn í U.M.F. Tindastól. Einnig geta allir orðið félagar, sem lagt hafa fram skriflega inntökubeiðni, með upplýsingum um fullt nafn, kennitölu og heimilisfang. Þegar þessi skilyrði hafa verið uppfyllt er umsækjandi fullgildur félagi. Jafnframt verða allir þeir sem opinberlega keppa undir merki félagsins sjálfkrafa félagar. Úrsögn úr félaginu skal tilkynna skriflega til aðalstjórnar. Aðalstjórn félagsins heldur skrá yfir alla meðlimi félagsins með aðstoð deilda, svo séð verði á hverjum tíma hverjir eru fullgildir félagar.

5. grein. Félagsgjöld:

Félagar skulu greiða árgjald til félagsins. Skal það ákveðið á aðalfundi ár hvert. Árgjald rennur til aðalstjórnar félagsins.

6. grein. Deildir:

Iðkendum hverrar íþróttagreinar er heimilt að mynda deildir innan félagsins. Hver íþróttadeild skal hafa sérstaka stjórn og aðskilin fjárhag. Skal hver deild sjá um sig sjálf fjárhagslega og hafa tekjur að ágóða móta og kappleikja í viðkomandi grein, svo og af öðrum fjáröflunum, sem hún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn. Stjórn hverrar deildar annast rekstur hennar.

Að öðru leyti lúta deildirnar sameiginlegri aðalstjórn félagsins, sem fer með æðsta vald í málum þess milli aðalfunda.

Ákvörðun um stofnun nýrrar deildar innan félagsins verður aðeins tekin á aðalfundi.

7. grein. Aðalstjórn:

Aðalstjórn félagsins skipa 5 menn; formaður, ritari, gjaldkeri, varaformaður og meðstjórnandi. Leitast skal við að a.m.k. einn stjórnarmaður fyrri stjórnar verði í nýrri stjórn sem kosin er á hverjum aðalfundi til eins árs í senn.  Formaður skal kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum. Formaður stjórnar fundum eða skipar aðra félagsmenn til þess. Ritari heldur gjörðabók félagsins og ritar fundargerðir. Gjaldkeri innheimtir tekjur og greiðir gjöld félagsins. Gjaldkeri heldur reikninga félagsins.

Reikningsár félagsins er almanaksárið 1. janúar til 31. desember.

8. grein. Aðalfundur:

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess og hefur einn vald til að breyta lögum þess.  Aðalfundur félagsins skal haldinn á tímabilinu frá 15. febrúar til 15. apríl ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með minnst 14 daga fyrirvara og er hann lögmætur, sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:

  1. Formaður setur fundinn
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  3. Skýrsla stjórnar
  4. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
  5. Lagabreytingar
  6. Ákvörðun árgjalda
  7. Kosning formanns, fjögurra manna í stjórn, þriggja varamanna í stjórn og tveggja skoðunarmanna
  8. Önnur mál

 Aðalfundur úrskurðar um meint brot á félagslögum og ákvarðar viðurlög.

Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi að undanskyldum þeim málum sem fjallað er um í 16. og 17. grein.

Aukaaðalfund skal boða með sama hætti og reglulegan aðalfund. Reglur um aðalfund gilda, eftir því sem við á, um aukaaðalfund. Þó skulu lagabreytingar, stjórnarkjör og stofnun nýrra deilda, aðeins fara fram á reglulegum aðalfundi.

9. grein. Félagsfundir:

Félagsfund skal boða ef a.m.k. 20 félagsmenn krefjast þess eða þegar aðalstjórn ákveður.

10. grein. Heimild stjórnar:

Heimilt er stjórn að skipa í nefndir milli aðalfunda er þurfa þykir. Allir félagar í U.M.F.Í. hafa málfrelsi og tillögurétt á félagsfundum.

11. grein. Verkefni stjórnar:

Aðalstjórn skal vinna að því að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess út á við. Hún skal einnig samræma starfsemi félagsins inn á við og hafa eftirlit með starfsemi deildanna. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess í öllum veigamiklum málum. Hún skal þó jafnan hafa samráð við stjórnir deildanna um mál er þær varðar sérstaklega.

12. grein. Stjórnir deilda:

Hver deild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn, sem skipuð er þremur mönnum hið fæsta. Skulu þeir kosnir á aðalfundum deildanna, en hver deild skal halda aðalfund árlega. Reglur um fundarboðun, lögmæti fundar og dagskrá, sem gilda um aðalfund félagsins, gilda einnig um aðalfundi deildanna, eftir því sem við á. Að loknum aðalfundi hverrar deildar og eigi síður en 15. febrúar ár hvert, skulu stjórnir deildanna skila aðalstjórn skýrslu sinni um starsemi viðkomandi deildar, ásamt endurskoðuðum og samþykktum reikningum deildarinnar.

Aðalstjórn skal taka helstu atriði úr skýrslum deildanna upp í skýrslu sína á aðalfundi félagsins.

Vanræki íþróttadeild að halda aðalfund á lögákveðnum tíma, skal aðalstjórn félagsins boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

Einstakar deildir skili rekstraruppgjöri til aðalstjórnar á fjögurra mánaða fresti 30. apríl, 31. ágúst og 31. desember ár hvert.

13. grein. Formannafundir:

Eigi sjaldnar en þrisvar á ári skal aðalstjórn félagsins halda fundi með formönnum deildanna, þar sem þeir gera stjórninni grein fyrir starfsemi deildanna. Á fundum þessum skal einnig ákveða skiptingu styrkja og annarra tekna aðalsjóðs félagsins milli deildanna og samræma starfsemi þeirra. Komi upp ágreiningur milli einstakra deilda, sker aðalstjórn úr.

14. grein. Eignir félagsins:

Allar eignir félagsins, hvort sem þær eru í umsjá aðalstjórnar eða einstakra deilda, er sameign félagsins. Hætti íþróttadeild starfsemi, skal stjórn hennar afhenda aðalstjórn allar eignir hennar svo og fundargerðarbækur og hverskonar gögn, sem varða starsemi hennar. Verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu ávallt vera í vörslu aðalstjórnar.

15. grein. Skuldsetning félagsins:

Óheimilt er að skuldsetja félagið eða einstakar deildir þess nema með samþykki meirihluta aðalstjórnar. Stofni einstakar deildir fjárhagslega skuldbindingu án þessa samþykkis verða þær á ábyrgð þeirra sem til þeirra stofna og félaginu óviðkomandi. 

Fjárhagsáætlun deilda skal skila inn til aðalstjórnar innan þriggja mánaða frá því að ný stjórn tekur við.

16. grein. Heiðursveitingar:

Heiðursfélagsmerki U.M.F. Tindastóls. Aðalfundur hefur heimild til að kjósa heiðursfélaga að tillögu stjórnar, en umræður um uppástungu að heiðursfélaga skulu ekki leyfðar. Við þá samþykkt þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Heiðursfélögum skal við hátíðlega athöfn afhent heiðursmerki U.M.F. Tindastóls úr gulli, sem er æðsta heiðursmerki ungmennafélagsins. Viðtakandi verður að hafa unnið mikið og samfellt starf fyrir U.M.F. Tindastól.

Starfsmerki U.M.F. Tindastóls má veita fyrir frábært átak eða afrek í félagstörfum, skipulagstörfum, framkvæmdastjórn eða á íþróttasviðinu. Til grundvalla þarf ekki að liggja langt samfellt starf.

Gestamerki U.M.F. Tindastóls má veita aðilum utan félagsins, sem í verki hafa sýnt því sérstakan sóma og velvild.

17. grein. Lagabreytingar:

Engu má breyta í lögum þessum nema á aðalfundi og þá með 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur Aðalstjórnar til lagabreytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá Aðalstjórn félagsins eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund félagsins. Tillögur félagsmanna um lagabreytingar skulu berast Aðalstjórn félagsins eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund og skulu þær liggja frammi á skrifstofu félagsins til fundardags.  Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum, sem síðar koma fram, ef 2/3 greiddra atkvæða samþykkja. Greini lög þessi á við sambandslög U.M.F.Í eru sambandslögin réttari meðan félagið er í U.M.F.Í.

18. grein. Gildistaka:

Lög þessi öðlast þegar gildi og falla jafnframt úr gildi öll eldri lög félagsins.

19. grein. Framkoma félagsmanna og áhorfenda

Allir félagsmenn og áhorfendur skulu sýna fyrirmyndar framkomu innan sem utan vallar. Komi það upp að félagsmaður eða áhorfandi viðhafi óviðeigandi orðbragð eða hegðun skal biðja viðkomandi að láta af sinni háttsemi ellegar mun skipuleggjandi og/eða starfsmaður viðburðar vísa viðkomandi af íþróttasvæðinu eða í tafarlaust bann.

20. grein. Ráðning starfsmanns, þjálfara eða leikmanns

Þegar kemur að ráðningu starfsmanns, þjálfara eða leikmanns skulu deildir fara eftir vinnureglum Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS).

Samþykkt á aðalfundi 27. mars 2019.

Lög á pdf formi