Stelpurnar töpuðu fyrsta heimaleik vetrarins

Það voru ekki bara strákarnir úr Njarðvík sem spiluðu á Króknum í gærkvöldi. Stelpurnar tóku við eftir að strákarnir luku leik og gekk þeim heldur betur en strákunum og unnu lið Tindastóls, 59-68.

Lið Tindastóls fór vel af stað og eftir fimm mínútna leik var staðan 12-5. Þá skelltu gestirnir í lás og gerðu næstu 16 stig leiksins, komust í 12-21. Eftir þetta var á brattan að sækja fyrir heimastúlkur en þær náðu að klóra í bakkann, minnkuðu muninn í 29-32, en Njarðvíkingar gerðu síðustu sex stig fyrri hálfleiks og leiddu 29-38 í hléi.

Tindastóll vann sig aftur inn í leikinn í þriðja leikhluta og um hann miðjan minnkaði Bríet Lilja muninn í þrjú stig, 39-42, með 3ja stiga skoti. Nikitta Gartrell dró vagninn fyrir gestina og sá til þess að gestirnir héldu forystunni. Staðan var 46-56 þegar síðasti leikhluti hófst. Lítið var skorað fyrstu mínúturnar en Bríet Lilja gaf Stólunum von, minnkaði muninn í 50-56 og síðan var hart barist. Tashawna Higgins minnkaði muninn í fimm stig þegar fimm mínútur voru eftir, 55-60, en nær komust stelpurnar ekki og tap því staðreynd.

Skotnýting liðanna innan teigs var ekki góð í leiknum en ágæt utan 3ja stiga línunnar. Þannig gerðu Tindastólsstúlkurnar níu 3ja stiga körfur eða hátt í helming stiganna sem þær gerðu í leiknum. Njarðvíkingar reyndust hins vegar sterkari en lið þeirra býr að meiri reynslu og lék í efstu deild í fyrra.

Besti leikmaðurinn í gær var Tashawna Higgins, spilandi þjálfari Tindastóls, en hún var með 21 stig,  13 fráköst og stal fimm boltum. Þá var Bríet Lilja Sigurðardóttir með 15 stig. Í liði gestanna var Nikita Gartrell með 23 stig og 19 fráköst og þá gerði Erna Hákonardóttir 15 stig, öll úr 3ja stiga skotum.

Stig Tindastóls: Higgins 21, Bríet Lilja 15, Linda Þórdís 9, Valdís Ósk 6, Kristín Halla 5 og Þóranna Ósk 3.