Stelpurnar komnar heim eftir langa helgi

Stelpurnar í m.fl. kvenna lögðu upp í langferð í gærmorgun þegar leið lá á Laugarvatn til að spila á móti Laugdælum. Laugdælir voru aðeins með helming leikmanna sinna en redduðu því á fagmannlegan hátt og fengu nokkrar stelpur úr nágrenninu til að spila með liðinu svo að ekki þyrfti að fresta leiknum. 
Leikurinn var ójafn frá upphafi og voru Tindastólsstúlkur mun sterkari allan tímann. Allar stelpurnar komu við sögu í leiknum og stóðu sig allar með prýði. Leikurinn endaði 38-107 og skiptist stigaskorið þannig að Bríet var stigahæst með 24 stig, Kolbrún með 18, Linda 14, Ísabella 12, Þóranna 11, Jóna María 9, Valdís, Tash og Erna allar með 4, Hafdís með 3 og Sunna 2.
Eftir leik var farið aðeins í Smáralindina, út að borða og endað í bíó - allar hressar og kátar. 
Í dag tók hins vegar alvaran við, leikur á móti Breiðablik kl.13.30. Breiðablik eru ákveðnar í því að fara upp um deild og voru búnar, frá síðasta leik liðanna, að bæta við sig erlendum leikmanni. Okkar stelpur mættu fullar sjálfstrausts í leikinn og byrjuðu hann af krafti. 
Leikurinn var hnífjafn fyrstu mínúturnar og skiptust liðin á að skora. Aðallega voru það erlendu leikmenn liðanna sem voru að setja boltann niður en aðrir leikmenn að leggja annað til leiksins. Í hálfleik var staðan 36-41 fyrir okkar stelpum, Tash með 23 stig, Bríet 7, Linda 6, Þóranna 4 og Kolbrún 1. 
Seinni hálfleikurinn var jafn leiðinlegur og sá fyrri var skemmtilegur eins og einn leikmaðurinn orðaði það. Linda meiddist í þriðja leikhluta og Blikastúlkur mættu mun ákveðnari til leiks en í fyrri hálfleik. Skotin hjá okkar stelpum voru ekki að detta og margt annað sem spilaði inn í. Breiðablik vann seinni hálfleikinn 53-19 og voru lokatölur leiksins 89-60. Má nefna að Butler, kaninn hjá Breiðablik, var með 68 framlagsstig (43 stig, 22 fráköst, 6 blokk) og Tashawna var með 42 framlagsstig (35 stig, 14 fráköst). Bríet lauk leiknum með 11 stig, Linda 6 stig og 9 fráköst, Þóranna 5, Erna 2 og Kolbrún 1. 
Nú eiga stelpurnar ekki lengur möguleika á toppsæti deildarinnar en þær geta endað leiktíðina í 3.sæti, leggi þær Þór Ak að velli eftir tvær vikur hér heima. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á síðasta leik tímabilsins enda eru stelpurnar búnar að standa sig virkilega vel í vetur og er hrein unun að horfa á þær spila og sjá framfarirnar hjá þeim síðan í haust. 
Áfram Tindastóll!!