Samantekt af sumrinu (Myndband)

Lengsta undirbúningstímabil heims er líklega í knattspyrnunni á Íslandi.    Eftir fimm mánaða keppnistímabil kemur stutt frí og síðan hefst undirbúningurinn fyrir það næsta í nóvember.   Að loknu tímabili 2011 var ljóst að samstarf Tindastóls/Hvatar yrði ekki haldið áfram og því var það Tindastóll sem tók keflið og það verkefni að leika í 1.deild.

Fyrsta verkefnið var að ganga frá ráðningu Halldórs Jóns Sigurðssonar ( Donna ) sem þjálfara og síðan þurfti að móta leikmannahópinn og ganga frá samningamálum leikmanna.  Ljóst var að Gísli Eyland markmaður til fjölda ára myndi hætta og einnig að Bjarki Már Árnason ætlaði sér ekki að spila með Tindastóli.

Undirbúningstímabilið hófst af fullri alvöru í byrjun janúar með æfingaleikjum sem voru spilaðir á stór-Reykjavíkursvæðinu.  Sú ákvörðun var tekin að taka ekki þátt í Soccerade-mótinu sem fer fram í Boganum á Akureyri og er fyrir lið af Norður-og Austurlandi.  Ástæðan var einfaldlega sú að langflestir í leikmannahópnum eru búsettir fyrir sunnan þar sem þeir sækja t.d. Háskóla á veturna.  Einnig eru þar leikmenn sem enn eru á framhaldsskólastigi sem frekar sækja skóla á höfuðborgarsvæðinu vegna þess aðstöðuleysis sem þeim er boðið á veturna á Sauðárkróki.   Aðstaðan í Skagafirði sem telur íbúa yfir 4000 talsins er frá fornöld og algjörlega óásættanleg fyrir félag í 1.deild.

Lengjubikarinn hófst um miðjan febrúar og spilaði liðið í A-riðli með stórum liðum eins og Stjörnunni og ÍBV.  Gengi liðsins var frekar slappt og endaði liðið í neðsta sæti riðilsins með 1.stig og markatöluna -25.  Eftir þetta mót þá fóru sparkspekingar á stjá og liðinu var í öllum fjölmiðlum spáð neðsta sæti í 1.deild og átti ekki að eiga möguleika á að vinna leik.  Kannski helst að liðið ætti að getað unnið Hött,  hina nýliðina í deildinni.  

Spá fotbolta.net má sjá hér

Tindastóll styrkti sig eftir Lengjubikarinn og til liðsins komu fjórir Englendingar og einn Haítibúi.  Margra mánaða vinna lá að baki því að fá þessa menn til landsins og töldu þeir sem stóðu að því að um að sterka leikmenn væri að ræða, þó svo að aldrei sé hægt að vita fyrir víst hvaða sendingu liðið fær.

Leikmannahópur Tindastóls var nú klár fyrir átök íslandsmótsins en í honum voru: Arnar Magnús Róbertsson fæddur 1990 og sonur Maríu Sifjar. Arnar Skúli Atlason (1991) búsettur í Fellstúni og sonur hjónanna Atla Hjartarsonar og Hafdísar Skúladóttur. Loftur Páll Eiríksson (1992) þeirra Eiríks og Stefaníu frá Beingarði, Edvard Börkur Óttharsson (1992) sonur Ótthars og Siggu. Björn Anton Guðmundsson (1993) sonur Kristjönu og Guðmundar smiðs. Fannar Örn Kolbeinsson (1992) úr Varmahlíð og sonur Kolla og Lindu. Ingvi Hrannar Ómarsson kennari í Árskóla og sonur Ómars og Maríu. Aðalsteinn Arnarson (1986), Árni Arnarson (1992) og Atli Arnarson (1993) bræður og synir Ödda & Möggu. Árni Einar Adolfsson (1987) sonur Mæju Sævars. Benjamín Vilbergsson (1992) frábær leikmaður sem kemur frá Blönduósi. Arnar Sigurðsson (1981) Skagfirðingur og margfaldur Íslandsmeistari í Tennis. Fannar Freyr Gíslason (1991) sonur Gísla og Lýdíu og Pálmi Þór Valgeirsson (1988) sonur Valgeirs Kára og Guðbjörgu. Hópurinn samanstóð af gríðarlega mörgum heimastrákum og fá lið í deildinni sem innihéldu jafnmarga uppalda stráka. Við þetta bættist síðan eins og fyrr segir fimm erlendir leikmenn.

Einnig má ekki gleyma því að Tindastóll sendi til leiks lið Drangeyjar sem samanstóð af leikmönnum sem þurftu aðeins meiri leikreynslu til þess að takast á við 1.deildina. Þessi hópur Drangeyjar samanstóð af 29 leikmönnum sem voru flestir úr Skagafirði en einnig voru nokkrir sterkir leikmenn frá Blönduósi og Húnavatnssýrslunni.

Íslandsmótið hófst 12.maí 2012 þegar liðið fór á Ásvelli og mátti lúta í gras fyrir Haukum sem spáð var að færi upp í Pepsideild. Leikurinn var vel leikinn af hálfu Tindastóls og var liðið að spila betur en menn bjuggust við í fyrsta leik. Bikarleikur kom síðan í kjölfarið þar sem andstæðingarnir voru Dalvík/Reynir. Færa þurfti leikinn inn í Bogann útaf vorhretrinu sem kemur ávallt um miðjan maí og setti velli á landsbyggðinni á kaf í snjó.  Bikarleikurinn tapaðist og er orðið ansi langt síðan Tindastóll hefur komist eitthvað áfram í bikarkeppninni.

Fyrsti heimaleikurinn var gegn Víking Ólafsvík og tapaðist sá leikur 1-0. Fyrsti sigurinn kom síðan á Ísafirði í bráðfjörugum leik sem endaði 5-2 fyrir okkur. Theo Furness skoraði þrennu í þeim leik.

Júnímánuður skilaði liðinu 5 stigum.  Sigur gegn Víking Reykjavík og tvö jafntefli gegn Leikni og KA.  Byrjunin var meira en ásættanleg og ljóst að liðið var mikið betra en menn héldu.  

Júlímánuður gekk í garð og Tindastólsliðið rétt fyrir neðan miðja deild en í þéttum pakka þar sem deildin var óvenju jöfn.  Mánuðurinn byrjaði vel en Hattarmenn komu í heimsókn og var þeim slátrað á Sauðárkróksvelli. 6-2 urðu lokatölurnar og áhugi kominn á landsvísu á liðinu.  Næstir í heimsókn voru Þróttarar en með þeim í för voru útsendarar og þjálfarar annars hvers liðs í Pepsi-deildinni.  Leikurinn vannst 3-1 þar sem Ben Everson, Max Touloute og Fannar Örn skoruðu mörkin.  Félagaskiptaglugginn hafði opnað tveim dögum fyrir þennan leik og peningamaskínan frá Akranesi og á höfuðborgarsvæðinu fór af stað og bauð þeim Theo Furness og Ben Everson gull og græna skóga ef þeir kæmu suður.  Stóra samningsmálið fór síðan þannig að Theo fór á Skagann og Ben Everson til Breiðabliks.  Tindastóll hafði ekki bolmagn til að bjóða þessum leikmönnum það sem þeim var boðið og því fór sem fór.  Útsendarar Tindastóls fóru strax á stúfana og voru ekki lengi að ná hingað til landsins þrem leikmönnum. Steven Beattie kom hingað ásamt Colin Helmrich og “floppinu” Conor Killeen. Conor spilaði einungis 45 mín. fyrir Tindastól og fór síðan aftur til síns heima.  Hinir tveir stóðu sig mjög vel með liðinu og smullu vel inn í hópinn. 

Smá hikst var á liðinu eftir þetta þar sem stór skörð voru höggvin í einstaklega frábæran leikmannahóp Tindastóls.  Næstu þrír leikir töpuðust áður en sigur kom gegn ÍR í gríðarlega mikilvægum leik en þar skoraði Steven Beattie og Colin Helmrich sín fyrstu mörk.  Hin mörkin í þessum leik skoruðu Max Touloute og Atli Arnarson.  Næstu tveir leikir skiluðu liðinu einu stigi og liðið komið skuggalega nálægt fallsvæðinu þó svo að stutt væri líka í efri hluta deildarinnar.

Sigur gegn Fjölni á heimavelli í lok ágúst sleit liðið frá fallsvæðinu og liðið komið með 21 stig.  Menn töluðu um að einn sigur eða jafntefli þyrfti til að halda sér uppi. Það reyndist rétt því Hattarmenn féllu þetta árið með 21 stig, en aldrei hefur lið áður fallið með jafn mörg stig.

Liðið spilaði síðan marg frestaðan leik gegn Þór í lok ágúst en þar tapaði liðið 4-0. Síðan kom að leik gegn Leikni sem var gríðarlega mikilvægur. Leiknismenn voru í fallsæti og hefðu komist óþægilega nálægt okkur með sigri.  Leikurinn vannst

2-1 þar sem Steven Beattie skoraði bæði mörk okkar manna.  Liðið komið með 24 stig á þessum tímapunkti og sæti í deildinni nánast gulltryggt.  Næsti leikur var útileikur gegn Hetti og með stígi yrði sæti í 1.deild að ári okkar.  Strákarnir spiluðu glimarandi leik og unnu 3-2 þar sem Colin, Atli og Benni skoruðu mörk okkar manna.  27 stig í hús og hefur Tindastóll aldrei áður náð í jafn mörg stig í 1.deild.  Metið var 23 stig árið 1988 en þá voru spilaðir 18 leikir svo samanburðurinn kannski ekki alveg sanngjarn.

Eftir þetta fóru tveir af útlendingunum af landi brott en þeir þurftu í skóla og var það vitað fyrir tímabilið að þeir færu um þetta leyti. Síðustu tveir leikirnir voru því spennulausir og voru t.d. aðeins ellefu leikmenn leikhæfir fyrir leikinn gegn toppliði Þórs í næstsíðasta leik.  Leikurinn endaði 1-0 fyrir Þór þar sem okkar menn voru síst lakara lið á vellinum.  Lokaleikurinn var síðan heldur leiðinlegur endir á annars góðu tímabili en þar slátruðu Þróttarar okkar mönnum 6-0. Liðið endaði í 8.sæti deildarinnar og er það frábær árangur.  Besti árangur Tindastóls er hinsvegar 6.sæti 1.deildar.  Erfitt er að bera saman árangur liðsins þá við þann í dag þar sem fleiri leikir eru spilaðir á nýloknu tímabili.  Fjögur lið enduðu fyrir neðan Tindastól í ár á meðan að fjögur lið enduðu fyrir neðan liðið þegar það náði 6.sætinu á sínum tíma.

Lokahóf knattspyrnudeildar Tindastóls var síðan um kvöldið í Miðgarði þar sem Edvard Börkur Óttharsson var kosinn besti leikmaður liðsins en frammistaða hans í vörninni var frábær.  Strákurinn spilaði með grímu síðustu tvo mánuði mótsins þar sem hann kinnbeinsbrotnaði á móti Víkíng Ólafsvík, en lét það ekki á sig fá og uppskar laun erfiðisins.

Tölfræði tímabilsins var ágæt.  Liðið skoraði 34 mörk en einungis þrjú lið skoruðu meira.  Liðið fékk hinsvegar á sig 42 mörk sem er næst mest í deildinni. Leikir Tindastóls voru frábær skemmtun í sumar, nóg af mörkum í leik liðsins og oftast flottur bolti.  Markahæsti leikmaður liðsins þetta árið var Ben Everson með 7 mörk í aðeins 10 leikjum.  Næstur var Theo Furness með 6 mörk í 9 leikjum. Max skoraði 6 mörk einnig og Steven Beattie með fjögur.  Colin var einnig mjög lunkinn í markaskorun en hann skoraði 3 mörk í 9 leikjum.  Markahæsti íslendingurinn var yngsti sonur Ödda læknis hann Atli, en hann skoraði 3 mörk í 22 leikjum.  Atli var einnig leikjahæsti leikmaður liðsins í sumar og spilaði alla leiki liðsins.  Næstir komu Böddi, Eddi og Árni Arnars. með 20 leiki.

Eins og fyrr segir þá er frábæru tímabili lokið hjá flottum og frábærum strákum sem við eigum í fótboltanum.  Þeir eru góðar fyrirmyndir sem nauðsynlegt er að hafa í hverju Sveitarfélagi.  Nú fer fljótlega undirbúningur að hefjast fyrir næsta tímabil og verður gaman að sjá liðið reyna sig á öðru ári í deildinni.  Einhver sérfræðingurinn sagði að annað tímabilið væri ávallt erfiðara en það fyrsta og verður því gaman að sjá hvort strákarnir nái að sanna að þetta tímabil var engin heppni og bæti sig enn frekar.

Takk fyrir skemmtilegt tímabil

Stefán Arnar Ómarsson

Formaður meistaraflokksráðs karla.

 

Hægt er að sjá 20.mín myndband af tímabilinu í hnotskurn með því að smella á hér