Tilkynning Aðalstjórnar vegna fundar knattspyrnudeildar

Aðalstjórn Tindastóls hvetur knattspyrnuáhugafólk til þess að mæta á opinn fund hjá Knattspyrnudeild Tindastóls á morgun fimmtudag 9. janúar kl. 20:00 í Húsi Frítímans að Sæmundargötu 7 á Sauðárkróki.

Þar sem enn hefur ekki tekist að mynda stjórn er fólk hvatt til þess að mæta og ræða framtíð knattspyrnu hjá Tindastól með jákvæðum hug. Það er undir íbúum Skagafjarðar komið hvernig við mótum framtíð knattspyrnu Tindastóls. Búið er að boða til framhaldsaðalfundar knattspyrnudeildarinnar 16. janúar þar sem efni fundarins er kosning nýrrar stjórnar. Mjög mikilvægt er að fá fólk til starfa í stjórn þar sem mörg mikilvæg verkefni bíða hennar eins og t.d. undirbúningur Landsbankamóts og Króksmóts ásamt fleiri verkefnum. Ljóst er að það þarf að breyta menningunni í kringum knattspyrnudeild Tindastóls þannig að upplifun fólks af stjórnarstörfum fyrir félagið verði jákvæð. Gagnrýni á rétt á sér ef hún er uppbyggileg. Þegar fólk sér eða vill að eitthvað sé gert, þá er alltaf hægt að bjóða fram aðstoð sína og er það farsællast til árangurs. Framtíð knattspyrnudeildarinnar getur verið björt ef við hjálpumst að og allir leggja eitthvað að mörkum.