Skíðasvæðið í Tindastól

sam_8315Skíðasvæðið er í vestanverðum Tindastól í dal sem heitir Ytridalur.

Nær sá dalur suður að Þröskuldi og norður að Lambárbotnum. Neðsti hluti hlíðarinnar heitir Lambárbreiður. Þar er fremur snjóþungt enda svæðið í vari fyrir norðanátt.

Svæðið er í 15 km fjarlægð frá Sauðárkróki. Lyftan byrjar í 445m hæð yfir sjó og liggur upp í 690 m hæð. Fyrstu 300 metrarnir eru hentugir fyrir byrjendur og þá sem ekki treysta sér í mikinn bratta, svo auðvelt er fyrir alla fjölskylduna að koma til okkar á skíði. Göngubraut er troðin alla daga sem opið er á svæðinu.

Troðinn er 4-5 km hringur í fjölbreyttu landslagi sunnan við lyftuna en einnig er hægt að fara styttri hring á tiltölulega sléttu svæði. Skíðalandsmót Íslands 2005 var haldið hér og þótti takast vel til. 

Snjóbrettafólk við bjóðum þeim að leika sér í giljum sem eru þarna á svæðinu að ógleymdum Lambárbotnunum sjálfum sem eru nánast lóðréttir og rennslið er um 3km 

Lyftan er diskalyfta af Leitner gerð og var vígð 5. feb. 2000 Lyftan er mjög fullkomin, og er hægt að stilla ganghraða hennar eftir aðstæðum í hvert sinn, hraðast ber hún mann á toppinn á 5,2 mín. Lyftan afkastar mest um 900 manns á klukkustund. 

Í skíðaleigunni okkar er hægt að leigja svigskíði, gönguskíði og bretti. Í boði eru ýmsar stærðir þannig að bæði ungir og aldnir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. 

Troðari félagsins er af Leitner LH 500 gerð og fengum við hann nýjan hingað til lands. Hann hefur reynst okkur mjög vel. Stór verkfæraskemma er einnig á svæðinu. 

Skíðadeildin er með vefmyndavél og veðurstöð á skíðasvæðinu Þessi búnaður er beintengdur við heimasíðu deildarinnar og uppfærast veðurupplýsingar á 15 - 30 mín. fresti allan sólarhringinn, en myndin uppfærist á 15 - 30 mín fresti milli 10 og 17. 

Skíðaskáli deildarinnar á sér langa sögu Hann hefur þjónað Skagfirðingum í tugi ára, 
fyrst sem flugstöðvarbygging við Sauðárkróksflugvöll, síðar sem skíðaskáli á gamla svæðinu og nú á hinu nýrra. Þar er boðið upp á kaffi, kakó og frábært bakkelsi, Ekki er hægt að gista í þessum skála, og oft er þröng á þingi þegar margir eru á svæðinu, en alltaf glatt á hjalla, og gott að hressa sig við eftir átökin við snjóinn. Þegar stórir hópar koma í heimsókn, er yfirleitt útbúin aðstaða í skemmunni og hefur það mælst vel fyrir. 

Framundan er áframhaldandi uppbygging á svæðinu. Settur hefur verið upp búnaður til snjóframleiðslu og áfromað er að byggja skíðaskála og loks lyftu á toppinn. 

Við bjóðum alla hjartanlega velkomna til okkar í Tindastól.

Heimasíða skíðasvæðisins: https://skitindastoll.is/