Ósigraðir í Evrópu

Það var sannarlega stór stund í sögu körfuknattleiksdeildar Tindastóls í kvöld þegar karlalið félagsins lék í Evrópukeppni í fyrsta sinn og stóð sig frábærlega, sigraði heimamenn í Pärnu í Eistlandi 69-62.  

Það var Sigtryggur Arnar Björnsson sem skoraði fyrstu körfu Tindastóls við mikinn fögnuð rúmlega 50 áhorfenda sem fylgdu Tindastólsliðnu til Pärnu. Körfurnar létu þó á sér standa í fyrri hálfleik og urðu stigin 26 áður en gengið var til búningsklefa en vörnin sem var frábær hélt gestunum í 35 stigum. 

Í seinni hálfleik hélt sama vörnin áfram og sóknin fór að skila fleiri körfum og það var svo snemma í fjórða leikhluta sem liðið komst í fyrsta skipti yfir 50-49. Leikurinn var svo í járnum nánast til loka en þegar 39 sekúndur voru eftir náðu þeir 6 stiga forskoti og ætlaði allt að ærast í stúkunni og að lokum vannst eins og fyrr segir 69-62 sigur. Tindastóll er því með 100% sigurhlutfall í Evrópukeppni og fyrsta íslenska karlaliðið til að vinna Evrópuleik í tæp 17 ár. Pärnu liðinu var spáð sigri í riðlinum, var í efsta styrkleikaflokki hjá FIBA en Tindastóll í þeim þriðja sem gerir sigurinn enn sætari. 

Adomas Drungilas var stigahæstur með 18 stig og tók að auki 8 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson var með 14 stig, Þórir Þorbjarnarson 9, Davis Geks 8, Pétur Rúnar Birgisson 7, Callum Lawson 6, Stephen Domingo 6 og Ragnar Ágútsson 1.  

Eins og fyrr segir er um 50 manna hópur sem fylgir liðinu í Pärnu og er óhætt að segja að þeir hafi staðið sig vel í dag og yfirgnæft stuðningsmenn heimamanna sem voru yfir 1000 og með 11 trommur. 

Á morgun leikur liðið svo seinni leik sinn í þessari forkeppni gegn liði Trepca frá Kosovo klukkan 16 að íslenskum tíma. Sigur í þeim leik þýðir að Tindastóll er kominn í riðlakeppni FIBA Europe Cup en tap getur líka gefið sæti ef önnur úrslit verða hagstæð. 

Leik morgundagsins er hægt að horfa á heimasíðu keppninnar.
https://www.fiba.basketball/europecup/23-24/game/0410/Tindastóll-BC-Trepca