Bessi og Domi skrifa undir samninga

Um helgina skrifuðu kapparnir Eysteinn Bessi Sigmarsson og Juan Carlos Dominguez Requena undir tveggja ára samning við Knattspyrnudeild Tindastóls.

Bessi er fæddur árið 1997 og spilar sem sóknarmaður. Hann er uppalinn hjá Stólunum en hefur undanfarin tvö tímabil spilað með Samherjum þar sem hann lék 29 leiki og skoraði 12 mörk. Hann lék 12 leiki með Drangey árið 2017 og skoraði þar 4 mörk, 5 leiki með Kormák/Hvöt árið 2018 og skoraði þar eitt mark, og árin 2016, 2018 og 2019 lék hann 17 leiki með Tindastól en náði ekki að setja boltann í netið fyrir Stólana en í sumar verður örugglega breyting þar á. 

Juan Carlos Dominguez Requena eða Domi eins og hann er jafnan kallaður er fæddur árið 1995 , kemur frá Spáni og leikur sem varnarmaður. Hann kom hingað til lands árið 2018 og spilaði fyrst með Kormák/Hvöt. Hann gekk síðan til liðs við Tindastóls árið 2019 og lék fjóra leiki með Stólunum áður en hann fór aftur til Kormáks/Hvatar sama ár. Í fyrra gekk hann síðan til liðs við Tindastól á ný. Hann hefur leikið 32 leiki fyrir Kormák/Hvöt og 18 leiki fyrir Tindastól. Domi hefur komið sér vel fyrir á Króknum, kominn með konu og börn og því er óhætt að kalla hann heimamann.