Valsmenn teknir á beinið

MYND: HJALTI ÁRNA
MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsmenn skutust suður í dag og léku við lið Vals í annarri umferð Dominos-deildarinnar. Stólarnir tóku snemma forystuna og unnu að lokum auðveldan sigur en það var í þriðja leikhluta sem strákarnir léku öldungis prýðilega og skildu Valsarana eftir í spólrykinu. Lokatölur 73-93.

Heimamenn á Hlíðarenda byrjuðu leikinn betur en um miðjan fyrsta leikhluta, í stöðunni 12-10, þá spýttu Stólarnir í lófana og gerðu tólf stig í röð. Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, brást við með því að taka leikhlé og hans menn komu vel stemmdir úr því og gerðu næstu níu stig leiksins. Svona var gangur fyrri hálfleiks; Stólarnir tóku rispur en náðu aldrei að rikkja almennilega framúr baráttuglöðum Völsurum sem pressuðu vel og náðu að halda í við gestina þó þeirr næðu aldrei að jafna eða komast yfir. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 21-24 og í hálfleik 42-49.

Heldur hægðist á stigaskorinu í þriðja leikhluta og Tindastólsmenn náðu að poppa upp góðri vörn. Valsmenn reyndu ítrekað frekar hæpin skot sem klikkuðu oftar en ekki. Sóknarleikur Tindastóls gekk lítið betur framan af leikhlutanum en síðustu þrjár mínúturnar small allt saman. Sérstaklega var Brynjar Þór að spila vel, var að sjálfsögðu eitraður utan 3ja stiga línunnar og þá spilaði hann félaga sína frábærlega uppi hvað eftir annað og endaði leikinn með ellefu stoðsendingar. Náðarhögg Valsmanna var skondin karfa sem King gerði um leið og flautan gall í lok þriðja leikhluta. Þá áttu Tindastólsmenn innkast þegar rétt rúm sekúnda var eftir. King var hent inn af bekknum og boltinn sendur undir körfu Vals þar sem kappinn greip boltann af harðfylgi, setti skotið niður og fékk víti að auki sem hann skilaði niður, rétt eins og sjö öðrum vítum sínum í leiknum. Staðan 52-69.

Stólarnir keyrðu síðan yfir heimamenn í upphafi fjórða leikhluta þar sem Dino Butorac fór á kostum. Lokatölur sem fyrr segir 73-93 fyrir Tindastól.

Stólarnir voru fínir í kvöld. Brilli var góður, setti 12 stig og gaf 11 stoðsendingar, og Urald King var stigahæstur á vellinum með 24 stig og átta fráköst. Danero hitti ekki neitt utan 3ja stiga línunnar þrátt fyrir sjö tilraunir en kappinn tók níu fráköst og gerði ellefu stig. Pétur var með tíu stig og átti ágætan leik og þá var Dino með 18 stig eftir að hafa fengið nokkur galopin skot í lokafjórðungnum – hann er að spila vel. Viðar og Hannes skiluðu góðum körfum og fóru vel með skotin sín þannig að Stólarnir voru að fá gott framlag frá sínum mönnum. Aleks Simeonov var stigahæstur Valsmanna með 21 stig, Miles Wright gerði 16 og Oddur Kristjáns 14.

Tölfræði af vef KKÍ >

Þá er rétt að minnast á að leikurinn var að sjálfsögðu í beinni útsendingu á TindastóllTV og þar eru gæðin í fyrirrúmi. Flott útsending með endurtekningum, góð lýsing og það er gaman að því að lýsendur á TTV geta vart talist hlutdrægir þó sannarlega séu þeir gegnheilir Tindastólsmenn. Fyrirtaks lýsingar – vel gert! 

Næsti leikur er hér heima gegn Haukum fimmtudaginn 18. október.