Tindastólsmenn með kröftugan sigur á Keflvíkingum

Helgi Viggós stöðvar Amin Stevens. MYND: ÓAB
Helgi Viggós stöðvar Amin Stevens. MYND: ÓAB

Það var að duga eða drepast fyrir Stólana í kvöld þegar þeir tóku á móti Keflvíkingum í þriðja leik liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar. Það var vel mætt í Síkið og meira að segja hávær hópur Keflvíkinga lét í sér heyra – í það minnsta framan af leik. Stólarnir tóku öll völd á vellinum í öðrum leikhluta og leiddu með 25 stigum í hálfelik. Þeir gáfu ekkert eftir í síðari hálfleik þrátt fyrir villuvandræði lykilmanna og lönduðu kröftugum sigri, 107-80.

Sem fyrr segir var stemningin mögnuð í Síkinu og áhorfendur vel með á nótunum. Tindastólsmenn mættu ákveðnir til leiks eftir töp í fyrstu tveimur leikjunum, baráttan og vörnin til fyrirmyndar, og augljóst að nú átti að stöðva Amin Stevens. Það tókst heldur betur því hann skilaði aðeins sex stigum í kvöld og var ekki svipur hjá sjón. Þá var greinilegt að endurkoma Chris Caird gefur Stólunum aukið sjálfstraust í sókninni og hann fór vel með skotin sín í fyrri hálfleik. Jafnræði var með liðunum lengi framan af fyrsta leikhluta en þristur frá Helga Margeirs og víti frá Pétri og Caird tryggðu sex stiga forystu, 25-19, áður en leikhlutanum lauk.

Annar leikhluti var frábær af hálfu Stólanna. Þeir spiluðu af miklum krafti og þegar þrjár mínútur voru liðnar var staðan orðin 40-23. Þá varð Keflvíkingurinn Daði Lár fyrir slæmum meiðslum eftir byltu og var leikurinn stöðvaður á meðan hugað var að meiðslum hans og kallað á sjúkrabíl. Skömmu eftir að leikurinn hófst að nýju fékk Viðar högg í andlitið og fór af velli um stundarsakir og síðan fékk Hester sína þriðju villu og var hvíldur í kjölfarið. Það mátti reikna með því að þá losnaði um Stevens og Keflvíkingar nýttu sér villuvandræði Hesters, en það var öðru nær. Caird og Pétur skelltu í þrista og það var sama hvað Keflvíkingarnir buðu upp á, Stólarnir yfirtrompuðu þá jafnóðum. Þetta var hreinasta unun á að horfa. Caird var sjóðheitur, Björgvin alveg óður og svo kryddaði Margeysirinn stöðuna með dýsætum þristi rétt fyrir hlé. Staðan 59-34!

Stuðningsmenn Stólanna voru að sjálfsögðu minnugir þess að sínir menn hefðu áður í vetur verið með unna leiki í hálflleik en svo snérist allt í höndunum á þeim í síðari hálfleik. Tindastólsmenn voru hinsvegar fljótir að bæla þann leiðinlega draug niður og byrjuðu þriðja leikhluta eins og sannir höfðingjar. Hester gerði fljótlega tvær körfur og Pétur setti niður tvo þrista og munurinn orðinn 29 stig. Það var nokkuð ljóst að strax eftir þrjár mínútur í síðari hálfleik var mesti móðurinn úr liði gestanna og fátt sem gladdi stuðningsmenn þeirra.  Björgvin gerði svo grín að gestunum seint í leikhlutanum með því að setja niður víti til hátíðarbrigða og kom muninum í 31 stig. Hann var stigahæstur Stólanna í kvöld, með 22 stig, en oft brutu Keflvíkingar mjög illa á kappanum í leiknum til að koma honum á vítalínuna. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 87-58 og fljótlega í fjórða leikhluta henti Friðrik Ingi inn handklæðinu og hvíldi lykilmenn sína það sem eftir lifði leiks og gerði Israel Martin slíkt hið sama í kjölfarið.

Liðsheild Tindastóls var frábær í kvöld, allir leikmenn voru að spila vel og fimm leikmenn gerðu meira en tíu stig. Í lið Keflvíkinga gerðu aðeins tveir leikmenn meira en tíu stig. Stólarnir gerðu 16 3ja stiga körfur og var nýtingin 40%. Nýting Keflvíkinga var svipuð en þeir skutu meira en helmingi færri skotum og er það til marks um það hversu vel Tindastólsvörnin steig út í skyttur gestanna. Þeir hreinlega sáu ekki körfuna.  Þrátt fyrir þennan stóra sigur var vítanýting Stólanna hörmuleg, eða 54% (13/24), og gæti reynst liðinu dýrkeypt ef framhald verður á.

Björgvin var sókndjarfur í kvöld og spilaði mikið. Hann skilaði 22 stigum á 34 mínútum. Caiird spilaði tæpar 20 mínútur og gerði 19 stig og þá var Pétur með 14 stig á rúmum 23 mínútum en hann krækti í sína fjórðu villu um miðjan þriðja leikhluta og þurfti ekki að taka meiri þátt í leiknum. Hester og Helgi Viggós spiluðu hörkuvörn á Stevens,  sem virkaði þreyttur, og endaði Hester með 13 stig og níu fráköst. Helgi Margeirs setti niður fjóra þrista í sjö tilraunum, Friðrik Stefáns átti frábæra spretti og skilaði aftur níu stigum. Hannes (7 stig) og Svabbi (6 stig) létu síðan til sín taka í lokafjórðungnum. Í liði Keflvíkinga voru Magnús Már (18 stig) og Reggie Dupree (14 stig) atkvæðamestir en Stevens reif niður 11 fráköst og gerði sem fyrr segir 6 stig.

Tölfræði af vef KKÍ >

Næsti leikur er nú strax á föstudaginn í Keflavík og ljóst að Tindastólsmenn verða að taka með sér fítonsandann, sem var í liðinu í kvöld, til að sigra Keflvíkinga á þeirra sterka heimavelli. Nú stóla Stólarnir á að stuðningsmenn liðsins fjölmenni í Sláturhúsið suður með sjó og hjálpi til við að tryggja oddaleik í Síkinu næstkomandi sunnudag. Áfram Tindastóll!