Þriðja sætið staðreynd eftir stórsigur á Stjörnunni

Tindastóll og Stjarnan mættust í lokaumferð Dominos-deildarinnar í Síkinu í kvöld. Stólarnir höfðu tapað í tvíframlengdum steinbít í Njarðvík á mánudagskvöldið en í sömu umferð höfðu Garðbæingar kjöldregið Keflvíkinga. Það var því mikilvægt fyrir Stólana að eiga góðan leik í kvöld og komast á sigurbraut fyrir úrslitakeppnina. Það gerðu þeir svo sannarlega eftir flotta frammistöðu í síðari hálfleik og niðurstaðan tuttugu stiga sigur. Lokatölur 87-67.

Stólarnir voru enn án Sigrtryggs Arnars sem lék fyrir viku í sigurleik gegn KR en hvíldi í Njarðvík. Það er loks búið að finna út hvað plagar kappann og hvíld er það sem læknar leggja til en í  viðtali í Mogganum í morgun sagðist Arnar ætla að gera allt til að geta tekið þátt í úrslitakeppninni. Það með talið er sennilega að bíta á alla þá jaxla sem fyrir finnast.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik. Hester byrjaði vel en það var þó Viðar sem var í miklum ham og setti þrjá þrista í fyrsta. Staðan að honum loknum var 19-16 en Stólarnir náðu góðum kafla í upphafi annars leikhluta og gaman var að sjá Friðrik Stefáns sækja á körfu gestanna með laglegum gegnumbrotum sem skiluðu fjórum stigum. Lið Tindastóls komst í 29-19 en Stjörnumenn voru eldsnöggir að bregðast við og jöfnuðu leikinn. Þristur frá Hannesi kom Stólunum aftur í gírinn og annar frá Pétri fylgdi í kjölfarið. Stjörnumenn héldu í við heimamenn en Hester kom Stólunum fjórum stigum yfir skömmu fyrir hlé, 40-36, en á síðustu sekúndu fyrri hálfleiks fékk Viðar olnboga frá Darrel Combs í síbrota nebbann sinn og kom ekki meira við sögu í leiknum. Nokkurt stopp varð á leiknum á meðan parketið var blóðhreinsað og hugað að Viðari.

Stjörnumenn héldu í við Tindastól framan af þriðja leikhluta en með tilkomu Helga Margeirs þá náðu Stólarnir meira forskoti. Tveir þristar og einn tvistur frá Helga komu Stólunum tíu stigum yfir, 55-45, og Hannes bætti við fjórum stigum til viðbótar eftir laglega körfu, meðfylgjandi vítaskot og annað til, eftir að tæknivíti var dæmt á Stjörnuna. Á þessum kafla náðu Stólarnir líka upp fínum varnarleik en staðan að loknum þriðja leikhluta var 63-52.

Helgi Rafn fór fyrir sínum mönnum í fjórða leikhluta á báðum endum vallarins. Hann barðist eins og ljón í vörninni og sýndi fína takta í sókninni. Chris Davenport, sem var ansi mistækur í leiknum, setti nokkur góð stig á töfluna í upphafi fjórða leikhluta og munurinn varð fljótlega 15 stig og næstu mínútur léku heimamenn á allsoddi á meðan hvorki gekk né rak hjá Garðbæingum. Hollý-hú frá Pétri kom muninum í 22 stig og körfur frá Hannesi og Axel breyttu stöðunni í 87-63 þegar tvær mínútur voru eftir og sigurinn í höfn. Gestirnir löguðu aðeins stöðuna áður en upp var staðið.

Jafnt stigaskor hjá Tindastólsmönnum

Leikurinn var ágæt skemmtun þó svo að ekki virtist mikið undir hjá liðunum og spennustigið því ekki hátt. Stjörnumenn voru öruggir inn í úrslitakeppnina og Stólarnir gátu ekki unnið deildarmeistaratitillinn en gátu endað í öðru, þriðja eða fjórða sæti deildarinnar. Þar sem öll sex efstu lið deildarinnar sigruðu í leikjum sínum þá varð engin breyting á stöðu liðanna í deildinni og ljóst að lið Tindastóls mætir Grindavík í úrslitakeppninni. Það verður nú eitthvað!

Það er auðvitað gömul tugga að segja að um liðssigur hafi verið að ræða í kvöld en það var engu að síður bara þannig. Pétur og Hannes voru stigahæstir með 13 stig hvor, Hester var með 12, Viðar 11 og Davenport, Helgi Margeirs og Helgi Viggós 8 hver. Stólarnir tóku 53 fráköst gegn 36 gestanna en í liði Stjörnunnar var Tómas Hilmarsson með 22 stig og Róbert Sigurðsson 16. Aðrir voru daufir en daprastir þó erlendir leikmenn liðsins sem skiluðu samtals sjö stigum.

Tölfræði af vef KKÍ >

Það var lið Hauka sem hampaði deildarmeistaratitlinum í kvöld eftir sigur gegn Valsmönnum og luku keppni með 34 stig. ÍR-ingar náðu öðru sætinu, enduðu með 32 stig líkt og Tindastóll, en Breiðhyltingarnir lentu þó í kröppum dansi í Keflavík, en eins og svo oft áður í vetur þá seigluðust þeir til sigurs. KR endaði í fjórða sæti með 30 stig. Bæði Njarðvík og Grindavík voru með 26 stig að móti loknu en Njarðvík hafði betur í innbyrðisviðureignum liðanna og endaði því í fimmta sæti en Grindavík í sjötta.

Eftir skemmtilega og spennandi deildarkeppni er rétt að óska Haukum til hamingju með titilinn.