Þórsarar sigraðir í Síkinu

Hannes Ingi og Urald King verjast Kinu Rochford í leiknum í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA
Hannes Ingi og Urald King verjast Kinu Rochford í leiknum í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA

Dominos-deildin í körfuknattleik hófst í kvöld og lið Tindastóls fékk Þór Þorlákshöfn í heimsókn en liðunum er spáð misjöfnu gengi í vetur. Stólarnir náðu frábærum kafla í fyrri hálfleik þar sem þeir bjuggu til heilbrigt forskot og það náðu gestirnir aldrei að brúa þó svo að þeir næðu að vinna sig inn í leikinn á ný. Lokatölur 85-68 í leik þar sem Urald King og Dino Butorac voru atkvæðamestir í liði Tindastóls.

Það var jafnræði með liðunum fyrstu fimm mínúturnar og Þórsarar litu ágætlega út með kanann Kinu Rochford og Gitautas Matulis í fínu stuði. Staðan var 10-11 fyrir Þór þegar fjórar og hálf mínúta var liðin af leiknum en þá kom magnaður kafli hjá liði Tindastóls þar sem vörn og sókn var eins og sköpuð af himnameistaranum. Kaflinn hófst að sjálfsögðu á þristi frá Brilla og hann virtist ekki bara hafa fundið fjölina sína heldur heilan fleka í Síkinu. Það virtist hreinlega allt fara niður hjá Stólunum næstu tíu mínúturnar á meðan Þórsarar voru gjörsamlega heillum horfnir. Staðan var 22-15 að loknum fyrsta leikhluta og það voru heimamenn sem gerðu 14 fyrstu stigin í öðrum leikhluta og staðan orðin 36-15 þegar Þórsurum tókst loks að finna körfuna. Dino Butorac, sem átti flottan leik í kvöld, kom Stólunum í 41-19 sem var mesta forystan  í leiknum en síðustu mínútur annars leikhluta rigguðu gestirnir upp varnarleikinn sinn og fóru að trufla sóknaraðgerðir Stólanna og uppskára nokkrar þægilegar körfur í kjölfarið. Staðan í hálfleik 44-33.

Körfubolti Stólanna síðustu mínútur fyrri hálfleiks voru ekki sannfærandi, hálfgerður kæruleysisbragur var yfir spilinu og margir boltar töpuðust. Þegar menn detta niður á þetta plan þá getur stundum verið flókið að trekkja sig í gang á ný og sóknarleikur Tindastóls í síðari hálfleik gekk á löngum köflum frekar treglega. Það vantar þó ekki gæðin í leikmennina og sem betur fer náðist upp fínn varnarleikur af og til. Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en um hann miðjan minnkaði Matulis muninn í sjö stig og þá tók Martin leikhlé. Það virtist stöðva lekann því Stólarnir breikkuðu bilið aðeins, en yfirleitt munaði 10-12 stigum á liðunum fram að fjórða leikhluta. Staðan var 64-53 að loknum þriðja leikhluta.

Þristur frá Dino snemma í fjórða leikhluta og körfur frá Urald og Danero í framhaldinu komu muninum í 18 stig, 73-55, og eftir það var alveg kristaltært hvort liðið tæki stigin tvö sem í boði voru og Tindastólsmenn sigldu sigrinum í höfn í rólegheitunum. 

Sem fyrr segir voru Urald King og Dino Butorac bestir í liði Tindastóls í kvöld. King var 25 stig og 13 fráköst en Dino var ekki langt frá þrefaldri tvennu; gerði 12 stig, átti ellefu stoðsendingar og tók níu fráköst. Danero var seigur í síðari hálfleik og gerði mörg mikilvæg stig af vítalínunni þegar Stólarnir voru að ströggla. Brynjar fór vel af stað en Þórsarar eyddu miklu púðri í að stöðva hann í síðari hálfleik en kappinn gerði þó 14 stig. Pétur var ólíkur sjálfum sér í kvöld og náði sér engan veginn á strik í sókninni. Hannes og Viðar áttu ágætar innkomur en Stólarnir fengu engu að síður fá stig af bekknum í kvöld.

Í liði Þórs var Kinu Rochford ansi seigur, 21 stig og 17 fráköst, þó svo að áhorfendur muni sennilega eiga andvökunætur yfir sérkennilegum vítastíl kappans. Matulis var með 15 stig og átta fráköst en síðan var Halldór Garðar með 12 stig og Davíð Arnar 10. Þá er það nokkuð mögnuð tölfræði að þær 30 mínútur sem Ragnar Braga var inná þá unnu Þórsarar leikinn með einu stigi. Annars var breiddin ekki mikil í liði Þórs, aðeins sex leikmenn komust á blað. Eins og oftast þegar Þórsarar hafa mætt í Síkið þá gáfu þeir Stólunum leik en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Tölfræði leiks á KKÍ.is >

Fyrir leik í kvöld var minning hinnar eitilhörðu stuðningskonu Tindastóls, Sillóar, heiðruð með mínútu þögn en hún lést í sumar. Í hálfleik var síðan Svavar Atli Birgisson heiðraður fyrir einstakt framlag til körfuboltans á Króknum. Var honum afhentur blómvöndur af því tilefni og Tindastóls-treyjan hans hengd upp í rjáfur í Síkinu. Svavar spilaði með Stólunum yfir 400 leiki en hann lagði skóna á hilluna á síðasta tímabili sökum anna í starfi – kannski er hann bara í pásu?