Tap hjá Stólastúlkum í fyrsta leik

Úr leik Fjölnis og Tindastóls. MYND: KARFAN.IS
Úr leik Fjölnis og Tindastóls. MYND: KARFAN.IS

Tindastólsstúlkur sóttu heim Fjölni í Grafarvogi sl. laugardag í 1. deild kvenna í körfubolta en Tindastóll hefur ekki teflt fram liði í meistaraflokki síðan tímabilið 2014-2015. Stelpurnar komu Fjölniskonum, sem spáð er sigri í deildinni, á óvart með hörkuleik framan af en reynslan og breiddin hjá heimakonum sagði til sín þegar á leið og þær grafvogsku unnu að lokum öruggan sigur. Lokatölur 106-75.

Því miður var engar upplýsingar um leikinn að hafa á heimasíðu KKÍ en ágæt umfjöllun er um leikinn á Karfan.is. Þar segir: „Fjölnisstúlkur virtust ekki vera undirbúnar fyrir Tindastól í fyrstu, enda töpuðu þær fjórum boltum á fyrstu 2 mínútum leiksins. Í stöðunni 3-12 eftir rúmar þrjár mínútur neyddist Halldór Karl Þórsson, þjálfari Fjölnis, til að brenna af leikhléi til að skerpa heimastúlkur. Það hefur dugað enda þurfti Arnoldas Kuncaitis, þjálfari Tindastóls, að taka sitt eigið leikhlé tæpri mínútu seinna í stöðunni 8-12. Tessondra Williams, bandarískur leikmaður Tindastóls, lenti fljótlega í villuvandræðum, var skipt út af og Grafarvogsliðið gekk þá á lagið. Við lok fyrsta leikhluta var staðan orðin 28-25, heimamönnum í vil.

Liðin voru mikið að skiptast á körfum í öðrum fjórðungnum en Tindastólsstelpurnar þurftu alltaf að vinna harðar fyrir sínum stigum á meðan að Fjölnir átti auðveldara með að skora. Í hálfleik var staðan orðin 53-47 fyrir Fjölni. Í seinni hálfleik fór dýpt bekkjarins hjá Fjölni að telja og Tindastóll fór að dragast aftur úr. Munurinn hélt áfram að aukast og svo fór að lokum að stelpurnar að norðan sprungu alveg á limminu. Lokastaðan varð því 106-75 fyrir Fjölni.“

Stigahæstar í liði Tindastóls voru Marín Lind Ágústsdóttir sem gerði 22 stig, Tess var með 20 stig en spilaði aðeins um 23 mínútur vegna villuvandræða og þá var Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir með flest framlagsstig eða 17. Í frásögn Körfunnar.is segir að hraðaupphlaup eftir tapaða bolta Tindastólsstúlkna og stig eftir sóknarfráköst hafi skilað Fjölnisstúlkum sigri í leiknum.

Á Karfan.is má finna ágætt viðtal við Marínu Lind >