Stólarnir yfirgáfu pizzupartýið

Allt búið hjá meistaraflokki Tindastóls í vetur.
Allt búið hjá meistaraflokki Tindastóls í vetur.

Leikmenn Tindastóls hafa sett sinn síðasta þrist á þessu körfuboltatímabilinu. Strákarnir fóru vel studdir í Sláturhús þeirra Keflvíkinga og eftir hörkuleik urðu þeir að bíta í það súra epli að vera sendir í sumarfrí. Lokatölur voru 83-73 og Stólarnir eðlilega svekktir með niðurstöðuna, enda var stefnt hátt í pizzupartýi Dominos-deildarinnar í vetur, en ekki fer alltaf allt eins og stefnt er að þó viljinn sé til staðar.

Það er kannski best að vera ekkert að svekkja sig um of á því að rifja upp gang mála ítarlega í leiknum sl. föstudagskvöld. Keflvíkingar höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn en leikurinn þó allan tímann æsispennandi og baráttan í fyrirrúmi. Líkt og í fyrstu tveimur leikjunum lentu Stólarnir í því að þurfa að elta Keflvíkingana sem náðu ellefu stiga forystu í fyrsta leikhluta. Stólarnir náðu að berja þann mun niður í þrjú stig, 25-22, áður en leikhlutinn var úti. Oft var jafnt í öðrum leikhluta en aldrei komust Stólarnir yfir og í hálfleik var staðan 44-41. Keflvíkingar voru yfirleitt um fimm stigum yfir í þriðja leikhluta en síðasta orðið í honum átti Reggie Dupree, sem setti niður þrist, og Keflvíkingar níu stigum yfir fyrir lokaátökin, 63-54.  Þristur frá Ágústi Orra í upphafi fjórða leikhluta kom muninum í tólf stig og sá munur hélst að mestu til leiksloka.

Varnarleikur beggja liða var til fyrirmyndar í leiknum en Stólunum gekk, eins og svo oft áður, illa að stöðva leynivopn heimamanna, Magnús Má, sem gerði 27 stig í leiknum. Þá var Amin Stevens, sem nánast skreið um Síkið í leik þrjú, hrikalega atkvæðamikill og skilaði 29 stigum og 23 fráköstum, þar af sjö sóknarfráköstum. Keflvíkingar tóku 17 fráköstum meira en Stólarnir í leiknum og svo gerðu Stólarnir aðeins níu körfur (18 stig) innan þriggja stiga línunnar á meðan Keflvíkingar gerðu 31 körfu (62 stig). Stólarnir voru sæmilega heitir utan 3ja stiga línunnar með 36% nýtingu (13/36) en heimamenn spöruðu púðrið þar, gerðu sex körfur í 22 skotum (27%). Í liði Tindastóls voru Hester (23 stig), Caird (15), Pétur (14) og Viðar (11) stigahæstir en aðeins sex leikmenn Stólanna gerðu stig í leiknum, líkt og Keflvíkingar. 

Tölfræði af vef KKÍ >

Nú getur fólk fabúlerað um hvernig liðinu í sjötta sæti tókst að slá út liðið sem endaði í þriðja sæti og ástæðurnar sjálfsagt margar og mismunandi mikilvægar. Kannski kom lið Keflvíkinga heitara til leiks í úrslitakeppnina á meðan lið Tindastóls tapaði síðustu tveimur leikjunum í deildarkeppninni naumlega og missti þannig af öðru sætinu, sem hefði boðið upp á rimmu við lið ÍR í úrslitakeppninni. Þá veikti það að sjálfsögðu Tindastólsliðið að vera án Chris Caird á mikilvægum tímapunkti á tímabilinu.

Heimavellir Tindastóls og Keflavíkur eru gríðarsterkir og ferðalögin í leikina lýjandi, draga jafnvel þessi mikilvægu sekúndubrot úr leikmönnum, sem öllu geta skipt í baráttuleikjum. Lykilleikurinn í þessu einvígi var sigur Keflvíkinga í Síkinu í tvíframlengdum fyrsta leik seríunnar. Þar voru Stólarnir ekki að spila vel framan af, virtust ekki alveg klárir í slaginn, en voru þó kannski óheppnir að stela ekki sigrinum í lok venjulegs leiktíma. Þar skoppaði boltinn með Keflvíkingum –líkt og hann gerði of oft í seríunni fyrir smekk okkar Tindastólsmanna.

Nú látum við okkur hlakka til næsta tímabils. Áfram Tindastóll!