Stólarnir náðu ekki að slökkva á Loga

Brandon Garrett treður með tilþrifum.  MYND: HJALTI ÁRNA
Brandon Garrett treður með tilþrifum. MYND: HJALTI ÁRNA

Ekki náðu Tindastólsmenn að hrista af sér KR-slenið þegar Njarðvíkingar mættu í Síkið í gærkvöldi. Gestirnir áttu hörkuleik og sérstaklega lék Logi Gunn við hvern sinn fingur og gerði Stólunum lífið leitt. Einhvern neista vantaði í lið heimamanna sem voru án Chris Caird og Axels auk þess sem Björgvin virtist vera í einhverju straffi hjá Martin og kom ekki við sögu. Lokatölur voru 93-100 fyrir Njarðvík og vonandi ná Stólarnir að rétta úr kútnum áður en lið ÍR kemur í heimsókn í Maltbikarnum á mánudag.

Leikurinn fór hraustlega af stað og liðin skoruðu nánast í hverri sókn og leikurinn hnífjafn, hraður og skemmtilegur. Leikmenn beggja liða voru því eðlilega að hitta vel og í liði Tindastóls var það Brandon Garrett sem var í ágætu stuði. Nú brá svo við að Antonio Hester var mættur til leiks á ný, talsvert fyrr en reiknað hafði verið með, og skiptu þeir Garrett erlendu mínútunum á milli sín. Hannes Ingi setti niður þrist og kom Stólunum í 32-29 skömmu fyrir lok fyrsta leikhluta en Maciek Baginski lagaði stöðuna fyrir Njarðvík með tveimur vítum áður en leikhlutinn var úti.

Njarðvíkingar náðu að halda uppi sama góða sóknarleiknum í öðrum leikhluta en bættu talsvert vörnina, öfugt við lið Tindastóls. Þeir náðu smám saman yfirhöndinni í leiknum en munurinn var þó aðeins tvö stig, 44-46, eftir að Hester henti í þrist þegar tæpar þrjár mínútur voru til leikhlés. Þá kom sterkur kafli hjá gestunum sem gerðu fjórar þriggja stiga körfur í röð, tvær frá Loga og tvær frá Terrel Vinson, á meðan Hester svaraði með einni körfu fyrir Stólana. Staðan því skyndilega orðin erfið fyrir heimamenn sem voru 46-58 undir í leikhléi og virtust ekki spila af þeirri leikgleði og krafti sem einkennt hefur liðið.

Stólarnir fóru illa af stað í þriðja leikhluta og eftir rétt rúmar þrjár mínútur var munurinn orðinn 20 stig, 50-70, en þá tók Martin leikhlé og reyndi að herða á varnarleiknum. Njarðvíkingar héldu hins vegar áfram að hitta vel og voru sterkir undir körfinni með þá Ragga Nat og Vinson í fínu stuði. Brekkan var því umtalsverð fyrir Stólana. Þeir náðu þó að koma sér betur inn í leikinn áður en þriðji leikhluti var út eftir að Sigtryggur Arnar minnkaði muninn í 69-80 af vítalínunni. Njarðvíkingar bættu við tveimur stigum úr vítum og Stólarnir áttu síðan lélega sókn sem endaði með tómu tjóni áður en leiktíminn rann út. Staðan 69-82.

Í byrjun fjórða leikhluta gerðust þau undur og stórmerki að Logi klikkaði á 3ja stiga skoti en hann var 7/10 í leiknum utan 3ja stiga línunnar en 3/3 innan hennar. Þetta á náttúrulega bara að vera bannað. Það voru enda margir fegnir þegar Logi fékk sína aðra tæknivillu þegar ríflega fimm mínútur voru til leiksloka og vonuðust flestir eftir góðum lokaspretti Stólanna þar sem Logi var útilokaður frá leiknum. Staðan 75-89 á þessum tíma og næstu sex stig voru Tindastólsmanna og þegar fjórar mínútur voru eftir stálu Stólarnir boltanum en í stað þess að minnka muninn enn frekar köstuðu þeir boltanum beint í hendurnar á Njarðvíkingum. Þá var eins og botninn dytti hálfpartinn úr væntanlegu björgunarafreki Tindastólsmanna og gestirnir nældu sér í sætan sigur af talsverðu öryggi.

Lið Tindastóls fann ekki varnargírinn í leiknum í gær. Sóknarleikurinn gekk yfirleitt ágætlega en slakur annar leikhluti reyndist liðinu þungur í skauti. Sigtryggur Arnar, Pétur, Garrett og Helgi Rafn áttu allir ágætan leik en samt var eins og þetta "eitthvað" vantaði. Garrett skilaði 28 stigum en þessi 206 sm sláni var aðeins skráður fyrir einu frákasti í leiknum sem er ansi magnað. Helgi reif aftur á móti niður tíu fráköst, Sigtryggur Arnar steig upp í síðari hálfleik eftir dapran fyrri hálfleik og endaði með 22 stig og þá gerði Pétur 15 stig. Hester var með 11 stig í sínum endurkomuleik. Í liði Njarðvíkur var Logi með 29 stig og Terrel Vinson 22 en í heildina var lið gestanna að spila vel, flestir þeirra sem við sögu komu ógnuðu utan 3ja stiga línunnar og teygðu því vel á vörn Stólanna. Þá náðu þeir oft að trufla sóknarleik Tindastóls með góðri vörn. Sigur Njarðvíkinga var því sanngjarn.

Tölfræði leiksins á vef KKÍ >

Síðasta umferð Dominos-deildarinnar fyrir áramót er leikin í næstu viku en þá mæta Stólarnir liði Stjörnunnar sem virðist vera að ná takti aftur eftir erfitt tímabil. Leikur liðanna verður í Garðabænum 14. desember. Fyrst fá Stólarnir hins vegar lið ÍR í heimsókn í Maltbikarnum næstkomandi mánudag og þá er fullt tilefni til að gefa allt í botn. Áfram Tindastóll!