Stólarnir í úrslit Maltbikarsins eftir draumaleik Arnars

Tindastóll og Haukar mættust í Laugardalshöllinni í kvöld í undanúrslitum Maltbikarsins. Stólarnir höfðu yfirhöndina mest allan leikinn og fögnuðu að lokum af krafti sætum sigri á toppliði Dominos-deildarinnar, Lokatölur voru 85-75 en atkvæðamestur í liði Tindastóls var Sigtryggur Arnar sem gerði 35 stig og tók 11 fráköst í sannkölluðum draumaleik. Andstæðingar Stólanna í Höllinni á laugardaginn verður lið KR.

Íleggja frá Hester og þristur frá Axel gáfu tóninn fyrir Stólana í byrjun leiks en Haukar, með Kára Jóns í fararbroddi, svöruðu fyrir Hafnfirðinga. Hester fékk reyndar væna byltu snemma leiks og Garrett kom inn og leisti hann af í skamma stund. Arnar gerði næstu sex stig leiksins og virtist strax líða vel á gólfinu í Höllinni. Stólarnir komust í 8-15 og spiluðu fínan bolta á báðum endum vallarins á meðan að Haukar virkuðu yfirspenntir og tóku mikið af 3ja stiga skotum sem fæst rötuðu niður. Staðan 13-21 að loknum fyrsta leikhluta.

Haukar komu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og hófu að saxa á forskot Stólanna. Um miðjan leikhlutann var munurinn kominn í þrjú stig, 25-28, en þá kom góður kafli frá okkar mönnum eftir að Arnar setti niður þrist og staðan 25-35. Foringi Hauka, Kári Jóns, minnkaði bilið af vítalínunni með síðustu körfum fyrri hálfleiks og staðan 31-37 í hléi. Stólunum tókst ágætlega að hægja á Kára í leiknum en hann var oft að taka ótímabær skot og nýting hans var ekki góð í leiknum (4/17). Þá hafði Paul Anthony Jones III ekki látið mikið til sín taka og skilaði aðeins tveimur stigum á fyrstu 20 mínútunum en hann átti eftir að stíga upp í síðari hálfleik.

Arnar hóf þriðja leikhluta á þristi en þá gerðu Haukar næstu átta stig og minnkuðu muninn í eitt stig. Hannes Ingi lagaði taugar Tindastólsmanna með þristi úr vinstra horninu og í kjölfarið náðu Stólarnir aftur tökum á leiknum. Arnar var allt í öllu á þeim kafla; skoraði, gaf stoðsendingar og stal boltum. Stólarnir náðu síðan tólf stiga forystu, 44-56, eftir að Helgi Margeirs var með sýnishorn af sínu skrásetta vörumerki – Djúpsprengju – fyrir Hafnfirðingum. Staðan 49-58 fyrir Tindastóls þegar fjórði leikhluti fór af stað.

Emil Barja virtist ætla að kveikja í stuðningsmönnum Hauka í Höllinni með þristi í byrjun fjórða en Arnar svaraði að bragði eins og ekkert væri sjálfsagðara og hann setti síðan tvö víti í næstu sókn. Haukar reyndu að krafsa sig inn í leikinn sem var nú orðinn talsvert hraðari. Þeir minnkuðu muninn í 56-63 en aftur setti Arnar þrist og nú voru Hafnfirðingar orðnir langþreyttir á kappanum og settu á hann nokkra yfirfrakka – en þeir voru flestir lekir. Haukarnir með Finn Magnússon í baráttuhug minnkuðu muninn á ný og nú niður í fjögur stig. Þá var ágætur tími fyrir Pétur að gera einu körfu sína í leiknum og í kjölfarið fylgdu troðsla og þristur frá Björgvini og staða Stólanna orðin vænleg. Síðustu mínúturnar náðu Hafnfirðingarnir ekki að ógna Stólunum að ráði, munurinn yfirleitt sjö til tíu stig, og á endanum kórónaði Brandon Garrett fína frammistöðu sína og Tindastóls í leiknum með vænni troðslu. Lokatölur 75-85.

Tindastóll í úrslit Bikarsins í annað skiptið í sögunni

Leikurinn var spennandi og skemmtilegur allan tímann en að sjálfsögðu sætari fyrir stuðningsmenn Tindastóls þar sem liðið var lengstum yfir í leiknum. Sigtryggur Arnar var sjóðheitur allan leikinn og þá kom Brandon Garrett vel inn í leikinn og skilaði 17 stigum. Varnarleikurinn var lengstum í fínu lagi hjá Stólunum og þar skiluðu allir góðu framlagi. Frákastahæstir Stólanna voru leikstjórnendurnir Arnar (11) og Pétur (8) en hann skilaði átta stoðsendingum. Auk Garrett áttu Helgi Margeirs og Björgvin Hafþór ágætar innkomur af bekknum og gerðu mikilvægar körfur en annars átti allt lið Tindastóls í raun frábæran leik.

Það er því ljóst að Tindastóll mætir liði KR í úrslitaleiknum en Vesturbæingar sigruðu lið Breiðabliks í fyrri undanúrslitaleik dagsins með 19 stiga mun. Lið KR hefur farið töluvert auðveldari leið í úrslitin en lið Tindastóls sem hefur mætt úrvalsdeildarliðum í öllum umferðum. Stólarnir slógu á leið sinni í úrslitin út lið Þórs Þorlákshafnar, Vals, ÍR og nú í kvöld Hauka á meðan KR sló út lið Kormáks á Hvammstanga, Vestra Ísafirði, Njarðvíkur og loks Blika í kvöld. Þetta er í annað skiptið sem Tindastóll kemst í úrslitaleik Bikarsins en lið KR hafa verið fastagestir á þeim vettvangi í gegnum árin og hafa meðal annars hampað bikarnum síðustu tvö árin. Úrslitaleikurinn fer fram næstkomandi laugardag í Laugardalshöllinni og hefst kl. 13:30. 

Tölfræði leiks á vef KKÍ >