Stólarnir hnykluðu vöðvana í Hellinum

Allir í Síkið á föstudagskvöldið. Áfram Tindastóll! MYND: HJALTI ÁRNA
Allir í Síkið á föstudagskvöldið. Áfram Tindastóll! MYND: HJALTI ÁRNA

ÍR og Tindastóll mættust í þriðja skiptið í einvígi sínu í undanúrslitum Dominos-deildarinnar í Breiðholtinu í kvöld. Hvort lið hafði unnið einn leik en að þessu sinni voru það Tindastólsmenn sem voru ákveðnari og spiluðu betur en lið ÍR. Það var þó ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Stólarnir slitu sig frá heimamönnum og með Hester og Sigtrygg Arnar í banastuði náðu strákarnir aftur yfirhöndinni í rimmu liðanna. Lokatölur í leiknum voru 69-84 en liðin mætast í fjórða leiknum hér heima í Síkinu næstkomandi föstudagskvöld.

 Stólarnir fóru vel af stað í kvöld og komust í 2-9 eftir þriggja mínútna leik. Það voru Hester, Arnar og Pétur sem fóru fyrir sínum mönnum í sókninni í fyrsta leikhluta en hjá ÍR-ingum var beðið eftir því að Ryan Taylor léti til sín taka. Hann var hins vegar hálf taktlaus og utanveltu og komst alls ekki í takt við leikinn. ÍR-ingar náðu engu að síður forystunni rétt undir lok leikhlutans og leiddu 24-23 að honum loknum. Stólarnir stigu upp í vörninni í öðrum leikhluta og héldu Breiðhyltinum í ellefu stigum. Pétur kom Stólunum í 24-28 með 3ja stiga körfu og önnur slík fylgdi í kjölfarið frá Björgvini. Þegar fjórar mínútur voru til leikhlés lét Axel til sín taka og setti þrist og munurinn tíu stig, 26-36, en Hákon Örn svaraði í sömu mynt og þá var að sjálfsögðu kominn tími fyrir Arnar að sökkva þristi. Matthías Orri lagaði stöðuna fyrir ÍR fyrir hlé en þá var staðan 35-41.

Stólarnir komust níu stigum yfir snemma í þriðja leikhluta, 37-46, eftir þrist frá Viðari en þá náðu heimamenn ágætum kafla á meðan Stólunum gekk illa í sóknarleiknum. Danero Thomas jafnaði leikinn 46-46 og kom ÍR yfir 49-46 með laglegum þristum. Stólarnir leituðu þá til Hester sem klikkaði hvergi í kvöld – nema á vítalínunni – og hann kom Stólunum aftur á bragðið. Undir lok þriðja leikhluta kviknaði sömuleiðis á Arnari sem lék nú við hvern sinn fingur. Stólarnir voru yfir, 53-55, að loknum þriðja leikhluta og þeir voru fljótir að finna taktinn í þeim fjórða og gerðu tíu fyrstu stigin. Þar á meðal var glæsitroðsla frá Björgvini eftir að hann hafði stolið boltanum af Matta eftir innkast. Nú reykspóluðu Stólarnir um allan völl og sjálfstraustið og leikgleðin geislaði af mannskapnum. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu en Stólarnir svöruðu alltaf að bragði. Um miðjan fjórða leikhluta var munurinn orðinn um 15 stig og að þessu sinni voru heimamenn aldrei nálægt því að koma sér inn í leikinn. 

Hester með 31 stig og 14 fráköst

Stólarnir sýndu góðan karakter í kvöld og svöruðu frábærlega fyrir svekkjandi tap í öðrum leik liðanna í Síkinu. Nú voru það ÍR-ingar sem fengu aldrei frið með boltann og Tindastólsmenn sem hentu sér á allt lauslegt í Hertz-Hellinum. Að þessu sinni ákvað Israel Martin að keyra meira á bestu leikmönnum liðsins en hingað til í úrslitakeppninni og það skilaði sér í heilsteyptari leik gegn baráttuglöðum ÍR-ingum. Hester skilaði 31 stigi og átti einn sinn besta leik fyrir Stólana. Hann tók 14 fráköst en setti aðeins niður níu af 17 vítaskotum. Sigtryggur Arnar var með 24  stig og nokkrar körfurnar hans voru flippruglaðar. Pétur var traustur með 14 stig og aldrei þessu vant ekkert af vítalínunni – af því að hann fékk ekkert víti. Aðrir leikmenn voru kannski ekki áberandi í stigaskori en Axel, Björgvin, Viðar og Helgi Rafn voru að spila fantavel. 

Í liði ÍR var Danero Thomas bestur en hann gerði 24 stig og þrátt fyrir að Ryan Taylor væri ekki að spila vel þá skilaði hann 13 stigum og tók 12 fráköst. Matthías Orri var með 18 stig en aðrir leikmenn ÍR náðu ekki að fylgja eftir stórgóðum leik sínum í Síkinu.

Tölfræði af vef KKÍ >

Fjórði leikur liðanna verður sem fyrr segir í Síkinu á föstudaginn. Þá eiga Tindastólsmenn kost á að tryggja sig inn í úrslitin en þá þurfa strákarnir að stíga sama stríðsdansinn í vörninni og þeir gerðu í kvöld. Leikir liðanna hafa hingað til unnist á útivelli, og Stólarnir raunar strögglað í öllum heimaleikjum sínum í úrslitakeppninni í vor, en vonandi verður ekkert framhald á því. 

Koma svo – áfram Tindastóll!