Stólarnir enda í þriðja sæti og mæta Keflvíkingum í úrslitakeppninni

Nú þurfa Stólarnir að vera snöggir að hrista af sér vonbrigðin eftir tvo tapleiki í röð og mæta dýrv…
Nú þurfa Stólarnir að vera snöggir að hrista af sér vonbrigðin eftir tvo tapleiki í röð og mæta dýrvitlausir til leiks gegn Keflvíkingum í úrslitakeppninni. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls fékk annað tækifæri til að tryggja sér annað sætið í Dominos-deildinni í lokaumferðinni í kvöld. Mótherjarnir voru Haukar og var leikið í Hafnarfirði og útlitið var ágætt þegar síðasti leikhlutinn hófst en þá köstuðu Stólarnir sigrinum frá sér með slæmum leik og á endanum fögnuðu Haukar þriðja sigri sínum í röð. Lokatölur 77-74.

Jafnræði var með liðunum í upphafi en Stólarnir voru fjórum stigum yfir, 14-18, að loknum fyrsta leikhluta. Haukarnir, sem lengi hafa reynst Stólunum erfiðir, voru fljótir að jafna í öðrum leikhluta og leikurinn hnífjafn fram að hléi, en Hester sá til þess að Stólarnir fóru með tveggja stiga forystu inn í hálfleik. Staðan 34-36.

Snemma í þriðja leikhluta átti Tindastólsmenn góðan kafla, ekki síst fyrir tilstilli  Helga Viggós sem gerði þá sjö stig á skömmum tíma og staðan 40-50.  Munurinn á liðunum yfirleitt átta til tólf stig til enda þriðja leikhluta, en þá var staðan 50-60.  Þá dundi ógæfan yfir og Haukar gerðu þrettán fyrstu stig fjórða leikhluta. Björgvin minnkaði muninn en næstu fjögur stig komu frá Cedrick Bowen og síðan náðu Haukar tíu stiga forystu, 74-64, þegar fjórar mínútur voru eftir – höfðu þá gert 24 stig gegn fjórum Stólanna á sex mínútum. Strákarnir gáfust þó ekki upp og náðu að þétta vörnina og minnka muninn í tvö stig, 76-74, þegar ein og hálf mínúta var eftir, en fleiri körfur gerðu þeir ekki í kvöld og aðeins Emil Barja sem bætti við einu stigi úr víti fyrir heimamenn.

Á sama tíma og flautað var til leiksloka í Hafnarfirði skriðu Stjörnumenn fram úr deildarmeisturum KR í Vesturbænum og kræktum nokkrum mínútum síðar í sigur sem tryggði þeim annað sætið á kostnað Tindastólsmanna. Fyrir vikið mætir Stjarnan spræku liði ÍR í úrslitakeppninni, en Stólarnir fá að eiga við Keflvíkinga og eiga að sjálfsögðu heimaleikjaréttinn. Úrslitakeppnin hefst 16. mars en enn á eftir að raða niður leikjunum.

Hester gerði nítján stig í kvöld og var stigahæstur Stólanna en þétt á eftir honum komu Helgi Viggós og Pétur Birgis með 17 stig hvor. Helgi var frákastahæstur Stólanna með níu stykki en Pétur skilaði sjö stoðsendingum og endaði því með flestar stoðsendingar í deildarkeppninni. Chris Caird var enn ekki mættur til leiks í liði Tindastóls. Bestur í liði heimamanna var fyrrum KR-ingurinn, Cedrick Bowen, en hann gerði 19 stig á rétt rúmum 20 mínútum. Aðrir leikmenn Hauka fóru ekki yfir tíu stigin.

Tölfræði af vef KKÍ >