Sterkur sigur í erfiðum leik fyrir austan

Tindastóll og Höttur mættust á Egilsstöðum í gærkvöldi í 19. umferð Dominos-deildarinnar í körfubolta. Hattarmenn urðu að sigra til að halda fárveikri von sinni um að halda sæti sínu í deildinni á lífi en Stólarnir berjast sem fyrr á toppi deildarinnar. Leikurinn einkenndist af góðum varnarleik beggja liða en þó sérstaklega Tindastóls sem gerðu heimamönnum afar erfitt fyrir. Stólarnir nýttu hinsvegar illa sín færi en Pétur átti enn einu sinni toppleik og fór fyrir sínum mönnum í góðum sigri. Lokatölur 68–80.

Til að gera langa sögu stutta þá byrjuðu Tindastólsmenn leikinn betur. Viðar gerði fyrstu körfu leiksins (3) og þegar um fjórar mínútur voru liðnar leiddu Stólarnir 5–10 eftir íleggju frá Davenport. Þristur frá Hreinsa Birgis kveikti líf í liði Hattar og þeir minnkuðu muninn í 13–15 fyrir lok fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á um að hafa forystuna í byrjun annars leikhluta en leikurinn var ekki fagur á að horfa í fyrri hálfleik og lítið skorað. Heimamenn reyndu að halda hraðanum niðri með því að spila langar sóknir og gátu kannski ekki annað því sterk vörn Stólanna kom í veg fyrir að þeir ættu greiða leið að körfunni. Tindastólsmenn náðu síðan smá forskoti á síðustu mínútunum og leiddu með fimm stigum í hálfleik, staðan 29-34.

Munurinn var yfirleitt þrjú til sex stig framan af þriðja leikhluta. Pétur hóf leik á að setja niður einn af fimm þristum sínum í leiknum en næstu þrjár mínútur voru það bara heimamenn sem klóruðu aðeins í bakkann. Þeir minnkuðu muninn í 36-39 en Pétur svaraði áhlaupi Hattar með þristi og það var nánast saga síðari hálfleiks. Síðari hluta þriðja leikhluta voru Stólarnir sterkari aðilinn og náðu að búa til um tíu stiga forskot og leiddu, 43-54, þegar fjórði leikhluti hófst. Hattarmönnum gekk illa að brúa bilið og munurinn á liðunum yfirleitt sjö til tólf stig því Stólarnir svöruðu alltaf hverju áhlaupi heimamanna með nettum sprettum. Heimamenn reyndu undir lokin að hægja á leiknum og brutu grimmt á Stólunum um leið og þeir fengu boltann til að koma þeim á vítalínuna og fá tækifæri til að minnka muninn. Elvar Ingi Hjartarson setti því niður fjögur víti af öryggi á lokamínútunni og gulltryggði sigur Tindastóls.

Sóknarleikurinn var ekki til útflutnings að þessu sinni en leikurinn opnaðist talsvert í fjórða leikhluta þegar heimamenn þurftu að vinna upp forskot Tindastóls. Í liði Stólanna var Pétur öflugastur með 24 stig og sex fráköst. Björgvin sýndi líka góða takta og skilaði 12 stigum og sex fráköstum en Björgvin og Pétur voru einu leikmenn Stólanna sem gerðu meira en 10 stig í leiknum. Hannes og Axel, sem skoruðu grimmt í Þorlákshöfn á mánudaginn, virtust hafa gleymt að taka fjalirnar með sér þaðan. Hester var óvenju aðsópslítill í sókn Stólanna með aðeins 10 stig en hann hirti 11 fráköst en tapaði fimm boltum. Davenport gerði níu stig og Friðrik sjö en aðrir minna.

Hittni liðanna var ekkert til að hrópa húrra fyrir en liðin tóku álíka mörg fráköst, áttu jafn margar stoðsendingar en það var helst að Stólarnir næðu að stela fleiri boltum. Nú kemur landsleikjahlé og næsti leikur Tindastóls verður hér í Síkinu þann 1. mars en þá mæta Íslandsmeistarar KR Maltbikarmeisturum Tindastóls. Lið Tindastóls er nú í öðru sæti með 28 stig líkt og ÍR sem standa vel. Lið Hauka og KR eiga hins vegar bæði tvo leiki til góða og þar með talið innbyrðis viðureign sem fer fram um helgina.

Tölfræði af vef KKÍ >