Hester ökklabrotinn og gæti verið frá í þrjá mánuði

Hester í ham! MYND: HJALTI ÁRNA
Hester í ham! MYND: HJALTI ÁRNA

Eins og flestir stuðningsmenn körfuboltaliðs Tindastóls vita þá varð Antonio Hester, erlendur leikmaður Stólanna, fyrir slæmum meiðslum í sigurleiknum gegn liði Keflavíkur í gærkvöldi. Kappinn gat ekki stigið í fótinn eftir að hann virtist snúa sig en nú er komið í ljós að meiðslin voru alvarlegri en fyrst var talið því Hester er ökklabrotinn.

Í tilkynningu á Facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir: „Eftir að hafa gengið í gegnum margar skoðanir í dag hjá læknum er komin niðurstaði í málið. Hester er ökklabrotinn og er ekkert hægt að horfa fram hjá því, læknar gefa þessu 2-3 mánuði að Hester nái sér að fullu.“

Það segir síðan í tilkynningunni sem Stefán formaður Jónsson kvittar undir að vissulega sé þetta mikið högg fyrir félagið enda Hester einn besti maður liðsins „... en eins og oft hefur verið sagt áður að það hefur aldrei blásið það mikið að það lægi ekki aftur.“

Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Þórs frá Þorlákshöfn þann 16. nóvember en leikmannaglugginn lokar degi áður samkvæmt heimildum Feykis. Það er því ljóst að hyggist Stólarnir næla sér í leikmann til að fylla skarð Hesters þá þurfa menn að hafa hraðar hendur.

Allir stuðningsmenn Stólanna óska Hesters góðs og snöggs bata.