Draugagangur í Síkinu

Frábær stemning í Síkinu í kvöld en KR-ingar skrúfuðu þó niður í stuðningsmönnum Stólanna á lokamínú…
Frábær stemning í Síkinu í kvöld en KR-ingar skrúfuðu þó niður í stuðningsmönnum Stólanna á lokamínútunum. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og KR buðu upp á geggjaðan körfuboltaleik í Síkinu í kvöld þar sem liðin áttust við í 12. umferð Dominos-deildarinnar.  Tindastólsmenn spiluðu frábærlega í fyrri hálfleik með Pétur Birgis í ofurstuði og voru hreinlega búnir að jarða Vesturbæingana. En þeir risu upp í síðari hálfleik, héldu haus og með Jón Arnór óstöðvandi komust þeir með mikilli seiglu inn í leikinn. Síðustu fjórar mínúturnar sprungu Stólarnir á limminu og KR gerði á þeim kafla 21 stig gegn fimm stigum Tindastóls og unnu leikinn 87-94!

Síkið var orðið yfirfullut löngu fyrir leik í kvöld og stemningin alveg frábær. Fyrsta stundarfjórðung leiksins kveiktu leikmenn Tindastóls rækilega í stuðningsmönnum sínum, það fór nánast allt niður og sérstaklega var Pétur funheitur. Hann gerði 19 stig í fyrsta leikhluta á meðan Jón Arnór virtist varla vita hvort hann var að koma eða fara. Hann átti eftir að finna fjalirnar sínar. Jafnt var, 8-8, eftir þrjár mínútur en næstu fimm mínútur gerðu Stólarnir 21 stig en KR fjögur. Staðan var 35-14 eftir fyrsta leikhluta og Pétur með fimm þrista í fimm tilraunum!

Áfram héldu Stólarnir í öðrum leikhluta og mestur varð munurinn á liðunum 28 stig þegar rúmar fjórtán mínútur voru liðnar. Þá loksins náðu gestirnir að klóra í bakkann en þegar flautað var til hálfleiks var engu að síður 19 stiga munur á liðunum, staðan 55-36, og margir héldu kannski að það væri ekkert framhaldslíf fyrir KR í síðari hálfleik.

Lið KR er hinsvegar gríðarlega vel skipað og með snilling eins og Jón Arnór í sínum herbúðum þá eru þeim flestir vegir færir. Hann var með sjö stig eftir fyrri hálfleik en gerði 26 stig í síðari hálfleik. Hann var munurinn á liðunum í kvöld. Pétur hafði gert 24 stig í fyrri hálfleik en hann var hafður í gjörgæslu í síðari hálfleik og bætti bara við tveimur stigum. Það hægðist talsvert á leiknum í þriðja leikhluta eftir að Jón Arnór gerði sjö fyrstu stigin á fyrstu mínútunni. Nú leituðu Stólarnir að Hester undir körfu KR og hann skilaði niður körfum af miklu harðfylgi. Hann gerði níu stig í röð og staðan 64-43 og allt í þessu fína hjá Stólunum sem fóru nú talsvert á vítalínuna en nýttu skotin illa. Smá saman söxuðu KR-ingar á forskotið, villur týndust á lykilmenn beggja liða og þegar þriðja leikhluta lauk var Pétur kominn neð fjórar villur og munurinn tíu stig. Staðan 72-62 og KR-ingar komnir inn í leikinn.

Fjórði leikhluti var æsispennandi og spennustigið í Síkinu við hættumörk. Stólarnir virtust þó ætla að sigla sigrinum heim því munurinn á liðunum var yfirleitt átta til tólf stig. Þreytubragur var þó kominn á lið Tindastóls og hvað eftir annað fékk Björgvin boltann í stað Péturs í upphafi sókna og KR-ingar brutu á honum. Það er ekkert leyndarmál að Björgvin kann betur við að troða boltanum í körfuna en taka víti og þau fóru mörg í súginn í fjórða leikhluta. Betra hefði verið að Pétur fengi boltann og gestirnir hefðu brotið á honum þar sem hann er góður á línunni. Þetta virtist þó ekki ætla að skipta máli því þegar þrjár og hálf mínúta var til leiksloka var munurinn tíu stig,, 83-73, og bæði Bowen og Pavel komnir með fimm villur. Það virtist þó færa Stólunum falskt öryggi því síðustu þrjár mínútur leiksins var sóknarleikur Tindastóls ráðleysislegur og KR-ingar gengu á lagið. Jón Arnór tók leikinn í sínar KR-hendur og gerði 14 stig þessar síðustu mínútur og tók um leið tappann úr Síkinu. Blurp!

Hrikalega var þetta sorglegur endir á geggjuðum körfuboltaleik. Fyrir leikmenn og stuðningsmenn Stólanna. Það er ekki annað hægt en að taka ofan fyrir KR-ingum sem snéru töpuðum leik í magnaðan sigur. Og hvernig fóru Stólarnir að því að missa leikinn svona úr höndunum á sér?  Þeir köstuðu sigrinum frá sér á þremur mínútum. Nú er ekkert annað að gera en stíga í lappirnar og mæta grimmir í næsta leik sem er gegn Þór á Akureyri.

Í liði Tindastóls í kvöld var Pétur stórkostlegur í fyrri hálfleik en þá lék allt liðið á allsoddi. Viðar var mættur aftur á parketið og menn börðust eins og ljón um alla bolta með Helga Rafn í fararbroddi. Hester var síðan bestur í liði Tindastóls í síðari hálfleik en þá hættu skotin að detta fyrir utan. Caird gekk illa að finna færi og hann endaði með einn þrist (í blálokin) í níu tilraunum og var skarð fyrir skildi. Hester endaði með 28 stig og ellefu fráköst og Pétur gerði 26 stig og tók sömuleiðis ellefu fráköst.

Breiddin í liði KR er mikil en þeir voru þó gjörsamlega yfirspilaðir fyrsta stundarfjórðung leiksins. Þegar Jón Arnór fann síðan fjandans fjalirnar sínar þá voru hlutirnir fljótir að gerast. Hann gerði 33 stig, Bowen var með 17 og Brynjar Þór 14.