Sterkur sigur á Stjörnunni í fyrsta heimaleik vetrarins

Kanalausar körfuknattleikskempur Tindastóls tóku á móti KR-bönunum í Stjörnunni í 2. umferð Dominos-deildarinnar í kvöld. Úr varð hörkuleikur þar sem hart var barist en það voru heimamenn sem náðu undirtökunum strax í byrjun og héldu Garðbæingum fyrir aftan sig allt til enda. Lokatölur urðu 79-68 fyrir Tindastól og að sjálfsögðu var hörkustemning og góð mæting í Síkinu.

Það var að sjálfsögðu broskallinn Darrel Lewis sem fór fyrir Stólunum og hann gerði fyrstu sjö stig leiksins. Varnarleikurinn var í fyrirrúmi í leik Tindastóls. Pieti Poikola, þjálfari liðsins, rúllaði mannskapnum af miklum móð og það var sama hver kom inn á, menn börðust af krafti í vörninni og virtist stundum sem Stjörnumenn vissu vart hvort þeir voru að koma eða fara. Það reyndar skipti varla máli fyrir Justin nokkurn Shouse sem virðist nú geta skorað sama hvað. Hann og Coleman voru yfirburðamenn í liði gestanna auk þess sem Tómas Tómasson átti ágætan leik. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20-14.

Jafnræði var með liðunum framan af öðrum leikhluta en Helgi Rafn kom Stólunum tíu stigum yfir, 29-19, þegar hann stal boltanum í vörninni og geystist upp völlinn í nokkrum kraftskrefum og tróð svo eins og honum einum er lagið. Staðan var 34-27 þegar þrjár og hálf mínúta var til hálfleiks en síðustu sjö stigin voru hins vegar Stólanna; fyrst setti Pétur þrist, þá Flake með stökkskot og loks Lewis með tvö af vítalínunni. Staðan í hálfleik 41-27.

Það mátti reikna með því að gestirnir kæmu einbeittari til leiks í síðari hálfleik en það voru Stólarnir sem bættu í, Lewis og Arnþór settu niður þrista og svo kom Flake heimamönnum 20 stigum yfir, 51-31. Þá var eins og Stólarnir slökuðu á klónni og Stjörnumenn fóru að vinna sig aftur inn í leikinn. Gestirnir gerðu næstu níu stig en 3ja stiga karfa frá Hannesi Inga kveikti aftur í liði Tindastóls. Staðan 56-45 fyrir lokaátökin.

Þegar tvær mínútur rúmar voru liðnar af fjórða leikhluta var Stjarnan búin að minnka muninn í sex stig. Þá náðu Stólarnir að berja aftur saman varnarleikinn og fyrr eða síðar hlaut eitthvað að fara í gang í sókninni. Staðan var 60-54 og sex og hálf mínúta eftir af leiknum. Þetta eitthvað var að sjálfsögðu Helgi Margeirs sem settu niður tvo þrista og sá seinni svo fáránlegur að allt ætlaði af göflunum að ganga í Síkinu. Arnþór fylgdi þessu svo eftir með einum þristi til viðbótar og geim óver – staðan 69-54.  Gestirnir gáfust að sjálfsögðu ekki upp en nú voru þeir farnir að elta leikinn og skammt eftir, þeir voru aldrei nálægt því að koma til baka og það voru því Tindastólsmenn sem fögnuðu sætum sigri.

Tindastólsmenn spiluðu lengstum frábæra vörn í leiknum og það var sannarlega jákvætt að sjá gott framlag frá flestum leikmönnum liðsins í sókninni. Tíu leikmenn komust á lista yfir skorara en þar fór fremstur Darrel Lewis með 23 stig. Þá var Svabbi með 11, Flake 10 en hann hirti 8 fráköst líkt og þeir Helgi Rafn og Pálmi Geir sem kom sterkur inn. Þá er ljóst að það er fengur í Arnþóri Frey en hann þarf sennilega að komast í aðeins betri kynni við einhverja fjölina í Síkinu.

Shouse og Coleman voru báðir með 22 stig fyrir Stjörnuna og spiluðu nánast allar mínúturnar. Breiddin virkaði ekki mikil í liði gestanna og eðlilega virkuðu þeir þreyttir þegar líða fór á og ekki bætti úr skák að styttra var síðan þeir spiluðu fyrsta leik sinn, erfiðan leik gegn KR.

En hvað um það. Byrjunin lofar góðu hjá Stólunum sem eru þó að venjast því að spila nýtt kerfi undir stjórn Poikola. Það virðast hins vegar allir til í slaginn og nú bíða stuðningsmenn spenntir eftir að Jerome Hill fái leikheimild og verði vonandi til í slaginn næstkomandi fimmtudag þegar Stólarnir mæta liði Þórs í Þorlákshöfn og hefni þá vonandi ófaranna í Lengjubikarnum.

Stig Tindastóls: Lewis 23, Svabbi 11, Flake 10, Helgi Margeirs 8, Pálmi Geir 8, Arnþór 6, Pétur 5, Helgi Viggós 4, Hannes 3 og Viðar 1.