Pétur og Helgi Rafn með stjörnuleik í mögnuðum bardaga í Síkinu

Tindastóll og Keflavík mættust öðru sinni í úrslitakeppninni í körfuknattleik í Síkinu í kvöld. Stólarnir unnu fyrsta leikinn suður með sjó og eftir heilmikinn bardaga tryggðu þeir annan sigurinn í kvöld og eru komnir í kjörstöðu í viðureigninni því nú eru Keflvíkingar komnir með bakið upp að vegg og verða að vinna þrjá leiki til að komast áfram. Lokatölurnar í kvöld voru 96-80 og var Pétur Birgis, að öðrum ólöstuðum, maður leiksins.

Leikurinn fór vel af stað og staðan 8-8 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Helgi Viggós var grimmur undir körfunni og lét Hill ekki fá neitt ókeypis. Var slagurinn þeirra á milli magnaður og hvorugur gaf eftir. Gestirnir komust í 8-10 en þá gerðu Stólarnir næstu átta stigin og skömmu fyrir lok leikhlutans setti Pétur þrist, staðan 21-12 og Tindastólsmenn komnir með undirtökin. Maggi Gunn klóraði í bakkann og staðan 21-14 að loknum fyrsta leikhluta.

Áfram hélt baráttan í öðrum leikhluta. Ingvi Rafn setti niður þrist og kom Stólunum ellefu stigum yfir, 31-20, og sá munur hélst næstu mínúturnar. Það var þó ljóst að Keflvíkingar ætluðu að selja sig dýrt, enda gríðarlega mikilvægt fyrir þá að ná í sigur í Síkinu og forðast það að lenda 2-0 undir í rimmunni. Þeir náðu upp hörkuvörn undir lok leikhlutans og gerðu átta síðustu stigin fyrir hlé. Staðan 41-38 í leikhléi og troðfullt Síkið gjörsamlega að fara á límingunum.

Lewis hafði ekkert gengið í fyrri hálfleik, var aðeins með tvö stig, en hann hóf leik í síðari hálfleik með laglegri körfu og þá var sú gleðimaskína komin í gang.  Það voru engu að síður gestirnir sem voru ákveðnari, náðu áframhaldi á góða vörn sína og hentu í nokkra þrista til að hressa upp á móralinn og reyna að búa til smá Keflavík í Keflavík í Síkinu. Þeir komust í 49-52 en eftir eitt víti niður frá Lewis og fjórða þrist kvöldsins frá Pétri hrökk díselvélin í vörn Stólanna í gírinn og áður en gestirnir fengu rönd við reyst höfðu Tindastólsmenn gert ellefu stig í röð. Þar innifalin var mórölsk monstertroðsla frá Viðari sem hafði stolið boltanum af Vali Vals og brunað upp völlinn með boltann. Þvílíkt og annað eins! Staðan orðin 60-52 og nú geisluðu Stólarnir af sjálfstrausti og þeir héldu áfram að gera gestunum lífið leitt. Staðan 69-54 að loknum þriðja leikhluta.

Nú var ljóst að það var talsverð brekka í þessu hjá Keflvíkingum en það er ekkert leyndarmál að ef eitthvað lið er fljótt að ná vopnum sínum, þá eru það þeir. Stólarnir gátu því ekki leyft sér að pústa eitthvað í vörninni og aðeins þetta gamla góða -áfram gakk- í boði. Það kom líka á daginn að það þurfti ekkert láta neinn vita eitthvað sérstaklega af þessu, því hasarinn hélt áfram. Gestirnir gerðu sín áhlaup en Stólarnir náðu alltaf að svara fyrir sig. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum munaði enn 15 stigum. 78-63, og þegar þrjár mínútur voru eftir þá dúkkaði Viðar aftur upp með aðra risatroðslu (fyrir strákana í Körfuboltakvöldinu) eftir að Pétur hafði stolið boltanum og sent á hann. Þá var nú loftið að mestu úr gestunum sem voru dottnir í þann gírinn að brjóta á Stólunum til að koma þeim á vítalínuna, en það dugði skammt.  Lokatölur 96-80 og mikil gleði í Síkinu.

Pétur var skuggalega góður í kvöld, gerði margar mikilvægar körfur og stjórnaði leik Tindastóls með glæsibrag. Þar fyrir utan spilar hann vörnina einstaklega vel. Þá var Helgi Viggós gjörsamlega magnaður enda nánast úthvíldur eftir fyrsta leikinn þar sem hann spilaði lítið. Nú reif hann niður 13 fráköst og þar af sjö í sókninni! Þá skilaði hann ellefu stigum og sjö stoðsendingum – takk fyrir túkall! Lewis endaði stigahæstur með 25 stig og átta fráköst og þá börðust Gurley og Dempsey eins og ljón. Viðar endaði með níu stig og átta fráköst og vinnusemin engu lík.

Jerome Hill átti fínan leik fyrir gestina, endaði með 22 stig og 11 fráköst, en það voru síðan aðeins Valur Vals, Magnús Már og Maggi Gunn sem náðu að stíga upp með honum. Tindastólsmenn völtuðu yfir Keflvíkinga í frákastabransanum (53/36) og þar af voru 23 sóknarfráköst, sem var auðvitað blóðugt fyrir gestina. Eina áhyggjuefni Stólanna í kvöld var að aðeins sjö leikmenn komust á stigatöfluna. Sem fyrr segir var mikill hasar í leiknum og hart barist. Menn fengu talsverða pústra og oft lá við að uppúr syði. Dómararnir, sem leyfðu talsvert harðan leik eins og oft vill verða í úrslitakeppninni, höfðu hinsvegar frábært tök á leiknum og slepptu að mestu tæknivítasúpunni sem þeir hefðu getað boðið uppá ískalda. Vel gert.

Næsti leikur verður í Keflavík á miðvikudaginn og ef Keflvíkingum tekst að sigra þá verður fjórði leikurinn hér í Síkinu mánudaginn 28. mars.

Stig Tindastóls: Lewis 25, Pétur 19, Gurley 15, Dempsey 12, Helgi Viggós 11, Viðar 9 og Ingvi 5.

Stig Keflavíkur: Hill 22, Magnús Már 14, Valur 13, Maggi Gunn 13, Ágúst 5, Guðmundur 5, Dupree 4, Andri 2 og Davíð 2.