Lewis leiddist þófið

Tindastóll lék síðasta heimaleik sinn í deildarkeppni Dominos-deildarinnar þessa vertíðina í gærkvöldi. Það voru Grindvíkingar sem komu í heimsókn og gáfu þeir Stólunum ekkert eftir í spennandi en frekar skrítnum körfuboltaleik þar sem heimamenn virtist skorta alla einbeitingu á löngum köflum. Jafnt var þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en þá nennti Darrel Lewis þessu ströggli ekki lengur og kláraði leikinn með stæl. Lokatölur 88-79 fyrir Tindastól.

Lið Tindastóls átti frábæran leik gegn KR síðastliðinn fimmtudag en í gærkvöldi virtust menn ekki vera komnir niður á jörðina eftir sigurinn á Íslandsmeisturunum úr Vesturbænum. Grindvíkingar léku megnið af leiknum kanalausir en náðu upp flottri baráttu og í hvert sinn sem svo virtist sem Stólarnir væru að ná góðu forskoti þá komu gestirnir til baka – reyndar oftar en ekki vegna óagaðs leiks Tindastólsmanna sem voru hvað eftir annað að reyna einhverjar kúnstir. Þar fyrir utan klikkuðu leikmenn Stólanna ítrekað á sniðskotum sem áttu að gefa auðveldar körfur.

Lið Tindastóls fór vel af stað með Viðar sjóðheitan. Hann setti snemma leiks niður tvo þrista í röð og kom Stólunum í 11-2. Aðrir leikmenn voru að hitta illa en hraðinn í leiknum var gríðarlegur og mikið um mistök. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 23-20. Costa reyndi að skipta inn ferskum leikmönnum en það var nokkuð sama hver kom inn, skotin geiguðu og það jafnvel þegar menn ætluðu að leggja boltann í körfuna. Gurley kom þó ákveðinn til leiks og setti niður nokkrar gegnumbrotskörfur. Jón Axel Guðmundsson kom Grindvíkingum yfir. 31-32, en Viðar svaraði með þristi og Stólarnir höfðu forystu í leikhléi, 38-33, eftir ákaflega villtan annan leikhluta þar sem varnarleikur liðanna var í öndvegi.

Í þriðja leikhluta var mikið skorað og leikurinn áfram hraður. Stólarnir náðu níu stiga forystu snemma, 42-33, en Grindvíkingar voru snöggir að svara fyrir sig og tveimur mínútum síðar var staðan 44-42. Gestirnir komust síðan í 48-51 en aftur var það Viðar sem svaraði og síðan gerði Gurley tíu stig í röð fyrir Stólana. Helgi Margeirs setti síðan niður einn skilduþrist undir lok leikhlutans og staðan 65-59.

Helgi Viggós jók muninn í átta stig í byrjun fjórða leikhluta en þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum komust Grindvíkingar enn yfir, 68-69. Næstu tvær mínútur var allt í járnum en þegar þrjár mínútur voru eftir, og staðan 73-71, þá var Lewis, sem hafði lítið gengið í sóknarleik Stólanna, búinn að fá nóg af þessu veseni og tók leikinn yfir og gerði níu stig í röð. Grindvíkingar áttu þó stóran þátt í falli sínu því í kjölfar þess að brjóta á Lewis fengu þeir tæknivíti fyrir mótmæli. Lewis gerði því fimm stig í þeirri sókn, staðan 80-73, og Stólarnir kláruðu síðan leikinn af öryggi.

Viðar var bestur í liði Tindastóls í gærkvöldi, spilaði fína vörn og nýtti sín skot frábærlega. Gurley og Lewis áttu ágæta spretti sem og Pétur og Dempsey. Helgi Viggós var gríðarsterkur í vörninni og hirti 16 fráköst í leiknum en var kannski heldur óheppinn með skotin sín. Hjá gestunum voru Ómar Sævarsson (18 stig/17 fráköst) og Jón Axel Guðmundsson (20 stig/9 fráköst) bestir.

Síðasti leikur Tindastóls er á Selfossi gegn vængbrotnu liði FSu nú á fimmtudaginn. Úrslitakeppnin hefst síðan 17. mars og eins og staðan er nú er líklegast að andstæðingar Tindastóls verði annað hvort lið Keflavíkur eða Stjörnunnar.

Stig Tindastóls: Gurley 20, Lewis 19, Viðar 16, Dempsey 14, Pétur 12, Helgi Viggós 3, Helgi Margeirs 3 og Svabbi 1.