Gurley startaði Stólunum í geggjuðum sigri á KR

Hann var alveg geggjuð skemmtun leikur Tindastóls og Íslandsmeistara KR í Síkinu í kvöld. Bæði lið hafa verið á fljúgandi siglingu í síðustu leikjum og það mátti búast við hörkuviðureign og áhorfendur voru sannarlega ekki sviknir um hana. Eftir erfiða byrjun unnu heimamenn sig inn í leikinn og spiluðu annan og þriðja leikhluta frábærlega. Stuðningsmenn Tindastóls voru heldur betur með á nótunum og hvöttu sína menn óspart áfram gegn urrandi baráttuglöðum KR-ingum. Lokatölur 91-85 fyrir Tindastól.

Stemningin var fín fyrir leik og áhorfendur mættir tímanlega í Síkið. Reynsluþrungið byrjunarlið KR með Pavel, Helga, Darra, Brynjar og Craion sló nokkuð á stemninguna því þeir fóru á hrikalegum kostum í fyrsta leikhluta. Það var hrein snilld að sjá boltann ganga á milli manna með leifturhraða og alltaf var einhver dauðafrír og setti niður opið skot. KR komst í 2-8 og síðan í 5-22 og þá fór að fara um heimamenn á pöllunum. Byrjunarlið Tindastóls, skipað Lewis, Dempsey, Pétri, Helga Viggós og Viðari, var ekki á táberginu í vörninni á meðan að vörn KR lokaði nánast öllum leiðum. Costa skipti Dempsey útaf og Anthony Gurley kom inná og hann var fljótur að finna fjölina sína. Hann setti niður tvær 3ja stiga körfur í hvelli og staðan 13-27 að loknum fyrsta leikhluta.

Stólarnir komu snælduvitlausir til leiks í öðrum leikhluta. Pétur stalst inn í fyrstu sendingu KR og lagði boltann í körfuna. Nú voru það gestirnir sem voru í tómu tjóni og barátta Stólanna sló þá gjörsamlega út af laginu. Gurley skaut og skaut og allt flaug í körfuna. Staðan orðin 26-29 eftir tæplega þriggja mínútna leik. Stuðningsmannasveitin Grettir vaknaði nú til lífsins og sömuleiðis Darrel Lewis. KR-ingar voru þó enn skrefinu á undan heimamönnum en fimm stig á skömmum tíma frá Lewis komu Stólunum yfir 40-39. Craion svaraði fyrir KR en víti frá Dempsey jafnaði leikinn og það fór svo vel á því að Gurley átti síðasta orðið í fyrri hálfleik en hann gerði alls 18 stig fyrir hlé. Staðan 43-41 fyrir Tindastól.

Tindastólsliðið hélt áfram að spila af grimmd í þriðja leikhluta á meðan að gestirnir hófu að væla í dómurunum – oft með ágætum árangri. En sveiflan var með Stólunum og varnar- og sóknarleikur liðsins var glimrandi. Þeir náðu fljótlega sjö stiga forystu og nú fóru fleiri kappar að skila stigum á töfluna. Tólf stigum munaði á liðunum að loknum þriðja leikhluta. Staðan 66-54.

Fannar var lítið sáttur við sína menn og sendi þá inn í fjórða leikhlutann alveg dýrvitlausa. Snorri Hrafnkelsson kom inn fyrir Craion og hann gerði Stólunum lífið leitt í upphafi. Helgi Magg minnkaði muninn í fimm stig eftir eina og hálfa mínútu en nafni hans Margeirsson svaraði með ofurskutlu eins og honum er lagið. Helgi Magg ætlaði greinilega ekki að nenna að tapa í Síkinu og setti niður þrist til að minnka muninn aftur í fimm stig en hann setti niður fimm þrista í sjö tilraunum. Stólarnir létu áhlaup gestanna ekki slá sig út af laginu og Gurley svaraði með þristi en hann var með fimm slíka í sex tilraunum! Staðan 76-66.  Þegar þrjár mínútur voru eftir fengu KR-ingar opið skotleyfi og Brynjar Björn fór að drita á körfuna úr öllum mögulegum og ómögulegum færum. Fyrstu tvö skotin fóru niður en þetta hafði lítið að segja því Stólarnir svöruðu fyrir sig og smá saman týndust mínúturnar á klukkuna og sigur Tindastóls mjakaðist nær. Þegar mínúta var eftir munaði enn níu stigum og sigur Tindastóls nokkuð öruggur þegar upp var staðið.

Lið Tindastóls lék frábærlega í leiknum ef frá eru taldar fyrstu átta mínúturnar. Það voru allir að skila sínu en að þessu sinni var það Anthony Gurley sem steig upp þegar allt stefndi í slæma útreið af hendi Íslandsmeistaranna. Gurley endaði með 26 stig á rétt rúmum 22 mínútum. Lewis átti í vandræðum í byrjun en hann fann taktinn þegar leið á og endaði með 21 stig. Þá átti Pétur frábæran leik, gerði 13 stig, þar af nokkrar mikilvægar körfur, og skilaði sex stoðsendingum. Dempsey átti erfitt uppdráttar gegn Craion og félögum undir körfunni en átti þó eina ofurtroðslu sem kveikti í kofanum. Helgi Viggós hirti níu fráköst í rosalegum slag við Craion þar sem ekkert var gefið eftir.

KR-ingar áttu að sjálfsögðu stóran þátt í því að gera leikinn að þeirri skemmtun sem hann var, enda eru þeir ekkert sérstaklega góðir í að tapa. Það vantaði því ekki viljann þó hlutirnir hafi ekki gengið upp hjá þeim í kvöld. Craion var að venju erfiður viðureignar og Helgi var frábær í fyrri hálfleik. KR-ingar sakna eflaust Ægis Þórs Steinarssonar sem yfirgaf liðið í vikunni. Þá náði Pavel sér ekki á strik í kvöld en Pétur spilaði góða vörn á hann.

Tindastóll var með 46% nýtingu í 3ja stiga skotum (12/26) en KR 38% (12/32). Lið KR frákastaði örlítið betur en Stólarnir (32/35) en þeir voru með töluvert fleiri tapaða bolta (11/16) og átti Pavel þar af sex. Næsti leikur Tindastóls er hér heima núna á sunnudaginn en þá kemur lið Grindavíkur í heimsókn en þeir eru að berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni og eru því sýnd veiði en ekki gefin.

Stig Tindastóls: Gurley 26, Lewis 21, Pétur 13, Dempsey 11, Helgi Viggós 6, Svabbi 6, Viðar 4, Helgi Margeirs 3 og Ingvi 1.

Stig KR: Craion 21, Helgi Magg 18, Brynjar 13, Darri 11, Björn 8, Þórir 4, Snorri 4, Pavel 4 og Vilhjálmur 2