Frí sætaferð í boði Kaupfélags Skagfirðinga á sunnudaginn

Stemningin fyrir körfunni á Króknum er í efstu hæðum þessa dagana og ekki urðu úrslitin í gærkvöldi til að draga eitthvað úr – þvert á móti. Þriðji leikur Tindastóls og KR verður á sunnudaginn í DHL-höllinni í Vesturbænum og af því tilefni býður Kaupfélag Skagfirðinga upp á fría sætaferð á leikinn.

„Við hvetjum alla til að nýta sér tækifærið,“ segir Stefán Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls og bætir við: „Hvað er málið? Það er til nóg af rútum. Er nokkuð annað að gera en að drífa sig á leikinn?!“

Farið verður með Suðurleiðum frá íþróttahúsinu á Sauðárkróki kl. 13:30 á sunnudaginn. Fólk er beðið um að skrá sig í tíma með því að senda póst á netfangið barmahlid5@gmail.com

Búum til Síki fyrir sunnan. Áfram Tindastóll!