- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Hér fyrir neðan birtist kynning á uppruna og hugmyndafræði júdóíþróttarinnar. Um er að ræða tvær greinar. Sú fyrri kallast Ágrip af sögu Júdó og sú seinni Markmið og leiðir.
Greinin Markmið og leiðir fjallar um þau lögmál og þá hugmyndafræði sem júdó byggir á og er eftir Úlf Ragnarsson lækni (1923 - 2008) og er hér birt með góðfúslegu leyfi júdó- og heiðurshjónanna Önnu Hjaltadóttur og Össurar Torfasonar, fyrrverandi þjálfara hjá Júdófélaginu Kjarna á Héraði. Áður birtist greinin um 1970 en ekki er vitað í hvaða riti.
Á undan grein Úlfs, til kynningar fyrir þá sem þekkja ekki til júdóíþróttarinnar, kemur greinin Ágrip af sögu júdó. Þessa grein tók Össur Torfason saman og birtist hún fyrst árið 1987 í Hlyn, blaði Grunnskólans á Hallormsstað. Hún er hér birt með lítils háttar breytingum en grein Úlfs kemur svo á eftir í rökréttu framhaldi.
Júdóið er komið til okkar vesturlandabúa frá Asíu. Nánar tiltekið frá Japan. Sá bakgrunnur sem júdóið er byggt á er ævaforn japönsk glíma sem hét KUMI-UCHI. Til forna var sú glíma að meira og minna leyti frekar óhefluð og ruddaleg áflog. Þeir sem stunduðu þessa glímu voru hinir gömlu Samurai-hermenn lénsherranna. Þessi glíma var stunduð að talið er allt frá fyrri hluta 15. aldar og fram að lokum lénstímabilsins um 1850.
Með tímanum hönnuðu Samuraiarnir tækni til þess að bæta þessa glímu sína og ennfremur til að byggja upp þrek og víðtækari bardaga- og varnartækni. Þessi þróun leiddi af sér þá glímu sem nú er þekkt sem JUJITSU, bókstaflega þýtt, „hin mjúka“ eða „undanlátsama“ list eða aðferð. Þeim hafði nefnilega lærst að sterkasta aðferðin væri að víkja sér undan ofureflinu og láta það fram hjá sér fara.
Árið 1868 opnaðist Japan fyrir vestrænum áhirfum og um sama leyti lýkur lénstímabilinu skyndilega. Sama skeður með Samurai-stéttina, hún hvarf á örfáum árum. Hin forna KUMI-UCHI glíma, sem nú hét orðið JUJITSU, hefði líklega alveg horfið í myrkur gleymskunnar hefði ekki komið til barátta eins manns. Hann hét Jigoro Kano, fæddur 1860. Átján ára gamall hóf hann að kynna sér allar þær greinar sem enn voru við lýði og kenndar í hinum ýmsu JUJITSU skólum víðsvegar um Japan. Um 1880 hafði hann lokið því að þróa sína eigin glímu út úr þessum gömlu JUJITSU kerfum. Hann hafnaði öllum þeim aðferðum sem hann taldi hættulegar eða áhrifslausar. Árið 1882 stofnar Jigoro Kano sinn eigin skóla sem hann nefndi Kodokan. Þar hóf hann að kenna sína nýju glímu sem hann nefndi JUDO. Þetta nafn valdi hann vegna þess að það bar með sér anda hinnar gömlu JUJITSU glímu. JU bendir til upprunans í JUJITSU en DO merkir „aðferð“ eða „agi“.
Árið 1886 var háður tímamótakappleikur. Þar mættust JUDO menn og JUJITSU menn. Af 15 kappglímum unnu JUDO menn 13 en 2 urðu jafntefli. Upp frá því vann júdóíþróttin stöðugt á.
Um 1930 var júdó orðin mjög vinsæl keppnisíþrótt víða um heim. Árið 1948 var farið að halda árleg meistaramót, 1951 var stofnað Alþjóðlega Júdóbandalagið og árið 1956 var háð fyrsta heimsmeistaramótið í júdó, það fór fram í Tókíó á Ólympíuleikunum.
Til Íslands kom Júdó 1957 fyrir milligöngu Sigurðar H. Jóhannssonar. Júdósamband Íslands var stofnað þann 28. janúar 1973. Áður hafði verið starfandi júdónefnd á vegum ÍSÍ.
Í dag eru starfandi mörg júdófélög innan JSÍ. Eitt yngst þeirra er Júdódeild Tindastóls, sem var endurvakin árið 2014 eftir um tíu ára hlé og var formlega samþykkt sem deild innan Tindastóls á aðalfundi 2. mars 2016.
Júdóþjálfun krefst bæði sjálfsaga og ástundunar ef nokkur árangur á að nást. Þetta gildir að sjálfsögðu einnig um allar aðrar íþróttir. Öll kastbrögð í júdó eru byggð upp á þrem megin þáttum: 1. Að taka andstæðinginn úr jafnvægi. 2. Að koma sér í aðstöðu til að geta fellt hann. 3. Að fella hann.
Til þess að samhæfa þessi þrjú grundvallaratriði þarf önnur þrjú, það er, mýkt, hraða og afl. Þessir eiginleikar fást við samþjálfun líkama og hugar.
Aðal mismunurinn á Kodokan JUDO og hinu eldra JUJITSU er í því fólginn að „list hefur þróast upp í lögmál“.
Í skýringum þeim sem stofnandi vor skildi eftir sig og kenndar eru í Kodokan skólum nú á dögum er þetta að finna: JUDO, er lögmálið um hámarksnýtingu hugar og líkama.
JUJITSU er einfaldlega beiting þessa algilda lögmáls við árásar- og varnaraðferðir. Í JUDO námi er mikilvægast að þjálfa líkamann og rækta hugann með iðkun árásar- og varnaraðferða sem veita vald á lögmálinu. Þannig stuðlar maður að sinni eigin fullkomnun og vinnur að velferð heimsins hvoru tveggja í senn. þetta er innra markmið JUDO námsins.
Prófessor Kano dró saman í tvær meginsetningar þá kenningu sem nú hefur verið nefnd: „hámarksnýting með lágmarksáreynslu“ og „gagnkvæm velferð og ávinningur“.
Í bók sem Dr. Kano ritaði gerði hann grein fyrir megin inntaki JUDO á víðtækan hátt með því að taka dæmi um hvernig lögmálið JU kemur fram í hinum ytri heimi. Hvað merkir hin „milda aðferð“ eða það að „láta undan“ raunverulega?
Til að svara þeirri spurningu skulum við hugsa okkur að afl manna væri mælt í einingum. Segjum svo að maðurinn andspænis mér ráði yfir 10 einingum en afl mitt, sem er minna en hans, sé metið á 7 einingar. Ef hann nær að ýta við mér með fullu afli á ég það víst að bíða ósigur, jafnvel þó ég beiti öllu mínu afli gegn honum. En ef ég nú í stað þess að veita honum mótspyrnu læt undan sókn hans með því að draga mig til baka sem því svarar sem hann ætlaði að ýta mér, og gæti þess um leið að halda fullu jafnvægi, þá yrði það til þess að hann hallaðist áfram og kæmist þannig úr jafnvægi.
Í þessari nýju aðstöðu gæti staða hans orðið svo veik, ekki vegna skorts á líkamsorku heldur vegna óhentugrar aðstöðu, að á því augnabliki samsvaraði orka hans aðeins 3 einingum í stað 10 sem hann venjulega ræður yfir. En ég aftur á móti held fullu jafnvægi og þar með mínum 7 einingum óskertum. Þar með er ég á því augnabliki í betri aðstöðu og get sigrað mótherjann með því að beita helmingi orku minnar, þ.e. helmingi 7 eininga eða 3 1/2 einingu, gegn þeim 3 sem honum eru tiltækilegar. Þetta veldur því að helmingur orku minnar verður afgangs til annarra nota. Væri ég sterkari en andstæðingur minn, gæti ég vitanlega ýtt honum aftur á bak.
En stundum nær mótherjinn taki um úlnliðinn á þér. Hvernig geturðu þá losað þig án þess að beita eigin orku gegn orku hans? Svipað má segja þegar manni er haldið með því að gripið er um axlir hans aftan frá af árásaraðila. Af þessu er ljóst að reglan um að láta undan gildir ekki um allar aðferðir sem notaðar eru í JUJITSU keppni. Er þá nokkur regla sem nær yfir allar aðferðirnar? Já, slík regla er til. Það er reglan um hámarksnýtingu hugar og líkama. JUJITSU er ekkert annað en beiting þessarar sígildu reglu við aðferðir til sóknar og varnar. Segja má að með því að leggja víðtækan skilning í JU gildi reglan einnig um það þegar gripið er til beinna sóknaraðgerða á því augnabliki sem best hentar. Orðasambandið „hámarksnýting“ kemur í sjálfu sér ekki nýstárlega fyrir. Samt var það fyrst eftir mörg ár, sem notuð voru til könnunar og þjálfunar í JUDO, að Dr. Kano komst að hinni algildu niðurstöðu varðandi þetta grunnlögmál tilverunnar.
Honum varð þetta ljóst gegnum iðkun aðferðar sem austræn hugvísindi nefna „GYO“ og er þjálfun í sjálfsfórn og sjálfsafneitun. Það gildir um þá sem nema JUDO að því lengra sem þjálfun þeirra miðar því dýpri verður skilningur þeirra á hinni raunverulegu merkingu orðsins.
Stofnandi vor skýrir hina dýpri merkingu á eftirfarandi hátt:
Reglan um hámarksnýtingu hugar og líkama er grundvallarlögmálið undir allri tækni JUDO íþróttarinnar. En það nær yfir fleira. Sama lögmáli má beita þannig að líkaminn verði sterkur, heilbrigður og hæfur til starfs. Þá er um líkamsrækt að ræða. Því má einnig beita í þágu greindar og siðgæðis. Þá er um hugrækt að ræða. Einnig í sambandi við framfarir í fæðuvali, klæðnaði, húsaskipan, félagslífi og viðskiptum má beita þessu algilda lögmáli. Þá er um ræktun mannlífs að ræða. Ég nefndi þetta algilda lögmál „JUDO“. Þannig merkir JUDO í víðtækari skilningi nám sem felur í sér þjálfun hugar og líkama þannig að maðurinn hafi stjórn á lífinu og málefnum þess.
Einn þátt JUDO er hægt að læra að þekkja og þjálfa með ítarlegri athugun og ástundun sóknar- og varnaraðferða. Áður en ég stofnaði Kodokan, var þessum þætti JUDO aðeins gaumur gefinn og iðkaður í Japan undir nafninu JUJITSU eða TAIJUTSU, listin að stjórna líkamanum, eða YAWARA, listin að beita lagi. En sú hugsun greip mig að það að læra að þekkja hið algilda lögmál og verulegur skilningur á lögmálinu veitir manni ekki aðeins möguleika á notkun þess í öllu lífinu, heldur kemur samtímis að miklu gagni innan JUJITSU.
Í stuttu máli, stofnandinn sannfærðist um það gegnum nána athugun mismunandi aðferða til sóknar og varnar, að þær byggjast allar á hinu algilda lögmáli, þannig, að hvert sem takmarkið er, er unnt að beita aðferð hámarksnýtingar hugar og líkama til þess að ná fullum árangri.
Þegar raunverulegur skilningur er fenginn er hægt að hagnýta þekkingu á lögmáli þessu í öllum tilvikum lífsins. Þannig opnast manninum möguleiki á að lifa háþróuðu lífi þar sem áskapaðir hæfileikar hans njóta sín til fulls.
Nú víkjum við málinu að seinni grunnsetningunni „gagnkvæm velferð og ávinningur“. Þessa setningu skýrir stofnandi vor á eftirfarandi hátt:
Þegar lögmáli hámarksnýtingar hugar og líkama er beitt við hagræðingu og fullkomnun þjóðfélagsmála eða það er notað til samræmingar starfsemi hugar og líkama á vettvangi þeirra vísinda sem fjalla um sóknar- og varnaraðferðir, er frumskilyrði að regla og samræmi ríki meðal iðkendanna. Þessu takmarki verður aðeins náð með gagnkvæmri aðstoð og innbyrðis samkomulagi sem leiðir til gagnkvæmrar velferðar og ávinnings.
Æðsta markmið JUDO er þess vegna að vekja til vitundar í mannshuganum þann anda sem elur í sér virðingu fyrir lögmálunum um „hámarksnýtingu og gagnkvæma velferð og ávinning“, svo vel, að hann ástundi þau og komi því til leiðar að maðurinn, bæði sem einstaklingur og félagsheild, geti náð hinu hæsta þróunarstigi jafnhliða því að hann efli líkamsheilsu sína og nemi þá list að kunna að sækja á og veita viðnám.
Þegar ég lít á JUDO frá tvíhyggjusjónarmiði kemur „gagnkvæm velferð og ávinningur“ fyrir sem lokatilgangur, en hámarksnýting virðist aðferðin til þess að ná honum. Líti ég á málið frá einhyggjusjónarmiði verður mér ljóst að tilgangurinn gagnkvæm velferð og ávinningur þarf að vera samrunninn aðferðinni, nefnilega hámarksnýtingu hugar og líkama, og fellur þannig undir megin kenninguna um að allt lýtur einu grunnlögmáli.
Hæpið mun vera að búast við því að menn nái valdi á því sem felst í setningunni „gagnkvæm velferð og ávinningur“ með því einu að nema og þjálfa JUDO íþróttina. Sumir líta svo á að JUDO sé aðeins keppnislist og að takmarkið sé að sigra með því að fella andstæðing sinn. Þannig séð virðist þessi kenning óraunhæf og langsótt.
Þrátt fyrir það er gagnkvæm velferð og ávinningur einmitt sú setning sem vitnar um „ríki hins æðri raunveruleika“ sem felst í Kodakan JUDO. Það er háleitt vitundarástand sem þeir einir öðlast sem, eftir að hafa náð fullri leikni í list og anda keppninnar, hafa látið að baki sér hugmyndir um sigur og ósigur.
Þar eð JUDO hefur þróast í framhaldi af JUJITSU, sem var ein þeirra hernaðarlistgreina sem stundaðar voru í Japan fyrr á tímum og eru nú ástundaðar kappsamlega sem íþrótt sem hefur það að markmiði að fella mótherjann, þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir hugarástandi hinna miklu meistara í skylmingarlist og öðrum hernaðarlistum fyrr á öldum þegar við hugleiðum hið æðsta markmið JUDO.
Fræðileg skýring slíks hugarástands er afar erfið af sömu ástæðu og það er ómögulegt að greina frá leyndardómum ZEN í rituðu orði.
Miyamoto-Musashi (1582-1645) stórmeistari í skylmingarlist sagði í bók sinni „GORIN-NO-SHO“: Allar hernaðarlistir, þar á meðal skylmingarlist og spjótlist, eiga sína leyndardóma, en að baki þeirra allra er lögmálið um einingu allra fyrirbrigða sem óskiljanlegt er í orðum.
Vissulega er reglan um gagnkvæma velferð og ávinning, sem Meistari vor heldur fram, andleg hliðstæða þess sem stórmeistarar hinna fornu hernaðarlista höfðu að leiðarljósi. Í Austurlöndum eru slíkir andar oft nefndir táknrænum nöfnum eins og t.d. „JU-GO-ICHI-NYO“ mýkt og harka í órofatengslum eins líkama, þótt andstæður virðist eða „TEN-NIN-GOITSU“ Guð og maður sameinaðir í einum. En hafið það hugfast að „GYO“, sem felur í sér stranga verklega hugræna þjálfun, á sín djúpu ítök í eðli þeirra allra.
Að baki lögmálsins um gagnkvæma velferð og ávinning býr víðfeðmur djúpur andi hins innra samræmis, en samkvæmt því getur fólk lifað og notið lífsins fyrir gagnkvæma hjálp og samkomulag.
Dr. Kano sagði að innsta markmið Kodokan JUDO væri að fullkomna sjálfan sig og vinna með því að velferð og ávinningi mannskynsins. Þessi sjálfsfullkomnun byggist á einlægri sannleiksleit og takmarkinu verður aðeins náð með stöðugri viðleitni og trúmennsku í þjónustu listarinnar. Hástigið í andlegu lífi einstaklings birtist í því að sérhyggja mannsins eyðist og hann skynjar grundvallareiningu hans sjálfs og annarra manna. Til dæmis var rithöfundarnafn Dr. Kano „KIICHI-SAI“ sem merkir „Bústaður Einingarinnar“. Confucius, hinn mikli lærdómsmaður og einn hinna fjögurra miklu trúarbragðahöfunda heims, sagði: „Þegar ég var sjötugur gat ég gert allt sem hjarta mitt lysti án þess að breyta ranglega“.
Hugarástandið sem felst í reglunni um gagnkvæma velferð og ávinning ber því vitni að siðferðisþroskinn hefur náð því hámarki sem aðeins næst af slíkum afburðamanni sem Dr. Kano var. Meistari vor Kano skiptir hlutverki JUDO í tvo starfsþætti, sjáfsfullkomnun og framlag í þágu velferðar og ávinnings fyrir mannkynið. Þessi skipting er aðeins notuð til hagræðis, því að þetta eru tveir þættir sömu hugsjónar, nefnilega gagnkvæm velferð og ávinningur. Að gera hugsjón að jarðneskum veruleika er takmarkið með ástundun JUDO.
Meistari vor leiðbeindi nemendum sínum að þessu marki með því að vitna til almenns siðferðis. Til dæmis leggur hann ríkt á við nemendur sína að nota aldrei í æfingasal neinar þær aðferðir sem gætu meitt mótherjann því að slíkt ofbeldi gagnvart öðrum stríðir gegn anda gagnkvæmrar velferðar og ávinnings. Ennfremur kennir hann að þeir ættu í ytra lífi að ástunda gagnkvæma hjálp og samkomulag til þess að eiga sem eðlilegust samskipti við aðra.
Þetta gerði hann vegna þess, að sem almenningsfræðari forðaðist hann torskildar rökræður um hinn heimspekilega grundvöll JUDO, en sagði nemendum sínum til um daglega hegðun og fylgdi framför þeirra eftir þrep fyrir þrep til andlegrar hæðar. Samt er alltaf aðalatriðið að komast til skilnings í því hvað í því felst að vera JUDO-ka.
Í því er heimur samræmis, heimur friðar og heimur kærleika – það er ótímabundið vitundarástand þar sem sjálfið og alheimurinn lifa saman í líkama þar sem einstaklingur og mannkynið mynda eina heild.
Svo kennir Buddha. – Þetta er möndullinn sem öll austræn sálvísindi snúast um og einnig burðarásinn í hinum háleitu kenningum Kristindómsins. – Í þessu er fólgið grundvallarlögmál mannlegrar framþróunar.