Silfur og brons á Íslandsmóti yngri flokka í Júdó

Keppendur á Íslandsmóti JSÍ yngri flokka 2019. Frá vinstri: Veigar Þór Sigurðarson, Haukur Rafn Sigu…
Keppendur á Íslandsmóti JSÍ yngri flokka 2019. Frá vinstri: Veigar Þór Sigurðarson, Haukur Rafn Sigurðsson og Þorgrímur Svavar Runólfsson. Mynd: Einar Örn Hreinsson.

Íslandsmót yngri flokka í Júdó var haldið í Laugabóli í Reykjavík í dag. Tindastóll átti þrjá fulltrúa á mótinu af rúmlega hundrað keppendum.

Íslandsmót Júdósambands Íslands er venjulega fjölmennasta mót ársins og markar lok keppnistímabilsins á Íslandi. Rúmlega hundrað keppendur mættu til leiks í dag og keppt var í þyngdar- og aldursflokkum.

Fulltrúar Júdódeildar Tindastóls á mótinu voru að þessu sinni Haukur Rafn Sigurðsson sem keppti í U15-55, Veigar Þór Sigurðarson sem keppti í U15+90 og Þorgrímur Svavar Runólfsson sem keppti í U18+90.

Eftir vigtun hófst keppni U13 og U15 aldursflokka klukkan 10:00 þar sem þeir Haukur Rafn og Veigar Þór voru skráðir til leiks.

Haukur Rafn keppti í fimm manna riðli og lenti í fjórða sæti eftir að hafa unnið eina glímu og tapað þremur, þar af tveimur sem voru hörkuspennandi og hefðu getað lent á hvorn veginn sem var. Hann má vera sáttur með sína frammistöðu og sýndi að hann er ekkert lamb að leika sér við á keppnisgólfinu.

Veigar Þór keppti í þriggja manna riðli og varð að láta þriðja sætið sér að góðu verða eftir að hafa tapað báðum sínum viðureignum. Það er þó gaman að sjá hversu áræðinn hann er og greinilegt að góð ástundun á æfingum í vetur hefur skilað honum verulegum framförum.

Keppni í U18 flokknum hófst klukkan 12:00 og þar freistaði Þorgrímur Svavar þess að klekkja á andstæðingum sínum. Hann keppti í þriggja manna riðli og mætti ákveðinn til leiks. Honum gekk þó ekki sem skyldi í fyrri viðureign sinni og varð að láta í minni pokann eftir mikla baráttu. Seinni glíman var hins vegar hans eftir að hann náði góðu fastataki á andstæðingi sínum sem átti ekki möguleika á að losa sig.

Í heild má segja að keppendur Júdódeildar Tindastóls hafi verið félagi sínu til sóma og geta þeir allir borið höfuðið hátt og verið stoltir af sinni frammistöðu.

Eftir mót var farið í keilu í Egilshöll þar sem leikið var eftir reglum Júdódeildarinnar sem hafa þróast með árunum og fela í sér armbeygjurefsingar við ýmis tilefni.

Eftir fjöruga keilukeppni og þó nokkuð magn af armbeygjum skildu leiðir og urðu sumir eftir í höfuðborginni en aðrir héldu áleiðis norður yfir heiðar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Einar Örn Hreinsson tók á mótinu.