Júdóhelgi í Skagafirði

Frá yngri æfingu á sunnudag. Mynd Fredrik Wibäck.
Frá yngri æfingu á sunnudag. Mynd Fredrik Wibäck.

Helgina 11. til 13. ágúst síðastliðinn tók Júdódeild Tindastóls á móti gestum frá Linköping og Stokkhólmi í Svíþjóð, Júdódeild Ármanns í Reykjavík og júdófélögum á Norðurlandi.

Um var að ræða framhald af heimsókn Júdódeildar Ármanns og Júdódeildar Tindastóls til júdófélagsins Linköping Judo í Svíþjóð frá því í fyrrasumar. Að þessu sinni voru það Svíarnir sem komu til Íslands og auk júdófólks frá Linköping bættust við iðkendur úr júdófélaginu IK Södra Judo frá Stokkhólmi. Samtals tuttugu krakkar og fjórtán fullorðnir.

Svíarnir komu flestir til landsins á fimmtudaginn og fyrsti dagskrárliðurinn var júdóæfing hjá Ármanni í Reykjavík um kvöldið. Morguninn eftir lagði hersingin af stað til Varmahlíðar og stoppaði á leiðinni á Húsafelli í Borgarfirði.

Við komuna til Varmahlíðar var boðið upp á hressingu í mötuneyti grunnskólans en tvær skólastofur skólans voru einnig notaðar sem svefnstaður fyrir þá gesti sem ekki kusu uppábúin hótelherbergi. Einnig dvöldu ellefu gestir inni á heimilum iðkenda Júdódeildar Tindastóls þessa helgi.

Fyrsta júdóæfing helgarinnar hófst klukkan 18 í íþróttahúsinu í Varmahlíð en þar hafði verið útbúinn júdóvöllur með júdódýnum Júdódeildar Tindastóls auk lánsdýna frá Pardusi á Blönduósi. Eftir æfinguna var boðið upp á grillað skagfirskt lambakjöt, sem fór vel ofan í mannskapinn.

Eftir morgunæfingu á laugardaginn var boðið upp á hádegisverð í grunnskólanum og síðan haldið til Reykja á Reykjaströnd. Þar stóð til boða að fara í gönguferð upp í Reykjadalinn eða út í Drangey. Flestir nýttu sér tækifærið og skelltu sér út í Drangey sem var mikil upplifun fyrir Svíana. Eftir dýfu í Grettislaug og magafylli af grilluðum pylsum var svo gefinn frjáls tími.

Á sunnudaginn var fyrst æfing yngri iðkenda frá klukkan 10 til 11 og eftir það æfði eldri hópurinn til 12:30 á meðan þau yngri skemmtu sér í sundi. Að lokum var öllum boðið upp á hádegismat áður en hópurinn tvístraðist. Svíarnir og Ármenningarnir héldu til Reykjavíkur þar sem lokadagskrárliðurinn var æfing á mánudagskvöldið hjá Ármanni en fyrir Norðlendingana var dagskráin tæmd.

Eflaust hafa flestir lært sitthvað í júdóíþróttinni þessa helgina og skemmt sér vel bæði innan vallar sem utan. Þar skemmdi ekki fyrir sú frábæra aðstaða sem er í boði í Varmahlíð og einstaklega gott veður sem lék um fjörðinn þar sem náttúran skartaði sínu fegursta.

Stjórn Júdódeildar Tindastóls vill að lokum koma þakklæti á framfæri til allra þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem lögðu hönd á plóg og gerðu þetta allt saman mögulegt.