- Félagið
- Fótbolti
- Körfubolti
- Sund
- Frjálsar
- Skíði
- Júdó
- Bogfimi
- Badminton
Stelpurnar hófu keppnistímabilið sitt sunnudaginn 23. mars með heimaleik í Boganum á Akureyri við Völsung í deildarbikarkeppni KSÍ. Leikurinn var í jafnvægi fyrstu 10 mínúturnar eða þangað til Guðrún Jenný skoraði fyrsta mark leiksins fyrir okkur. Eftir markið tóku okkar stelpur völdin á vellinum og spiluðu skínandi góðan fótbolta það skilaði öðru marki á 30. mínútu þegar Rakel Svala var sloppin ein í gegn, plataði markvörðin sem sá ekkert í stöðunni en að krækja í skotfót Rakelar um leið og hún ætlaði að renna knettinum í mark Völsunga. Víti og rautt spjald á Helgu markvörð Völsunga. Ólína Einarsdóttir steig á punktinn og skoraði annað mark okkar örugglega úr vítinu.
Eftir þetta mark tóku Völsungar kipp og héldu okkar stelpum við uppteknum við að verjast fram að hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks byrjuðu manni færri Völsungar af krafti og pressuðu okkar stelpur nokkuð stíft, þriðja mark okkar stelpna kom því aðeins gegn gangi leiksin á 52. mín þegar Bryndís Rún fylgdi eftir skoti Hugrúna Páls og renndi boltanum örugglega fram hjá staðgengli markvarðar Völsugs.
Staðan orðin vænleg 3-0 og manni fleiri. Það verðu þó að hrósa Völsungsstelpum fyrir mikla baráttu og mikið þrek því eftir þetta mark áttu þær leikinn algjörlega, vörn stólanna stóð sig þo með prýði með Bryndísi Rut í markinu fyrir aftan sig sem varði nokkrum sinnum mjög vel. Völsungsstelpur náðu þó að koma knettinum einu sinni fram hjá Bryndísi og þar var að verki Harpa Ásgeirsdóttir á 73. mínútu.
Eftir það pressuðu Völsungar stíft en okkar stelpur stóðust áhlaupið.
Fyrsti opinberi leikur sumarsins og sigur staðreynd 3-1 og 3 stig í hús. Í þessum riðli deildarbikarsins spila ásamt þessum liðum Fjarðabyggð, Höttur og Sindri. Sama dag áttust við lið Hattar og Sindra og þar fóru Hattarstelpur með sigur 2-1. Það verða því 3 hörkuleikir í viðbóð hjá okkar stelpum á næstunni.
Í gær léku svo stelpurnar okkar sinn annan leik í mótinu og nú á útivelli í Boganum. Mótherjinn og heimaliðið var Fjarðabyggð. Það kom fljótt í ljós að þeim þótti undarlegt að þurfa að keyra rúmlega tveimur klukkustundum lengur en útiliðið til að spila heimaleik sérstaklega í ljósi þess að þær eiga heimavöll í keppnisstærð innanhús heima í héraði. En það er KSÍ sem ræður og raðar þessu niður. Það sem vakti athygli okkar fólks var þó það að Fjarðabyggð hafði hringt í KSÍ til að fá skýringar á þessu og þá var þeim tilkynnt það að Tindastóll hefði neitað að keyra svona langt í útileiki. Við vorum hins vegar aldrei spurð en það er þó staðreynd að við sóttumst eftir því að fá að spila frekar í riðli með liðum af suðvestur helmingi landsins en austari og það var vegna þess að við eigum nokkrar stelpur í Reykjavík sem eru í námi og því hefði það hentað okkur betur að fara i þá áttina frekar en hina. KSÍ samþykkti ekki þá beiðni og tókum við henni eins og hverju öðru KSÍ biti.
En að leiknum sjálfum, þessi leikur var nánast endurtekning á leiknum við Völsung. Okkar stelpur byrjuðu rólega til að þreifa á andstæðingunum. Eftir nokkrar mínútur fundu þær svo taktinn og stjórnuðu leiknum. Fyrsta mark leiksins kom á 8. mínútu og var þar að verki Hugrún Pálsdóttir eftir frábært upphlaup hjá stelpunum.
Tindastólsstelpurnar ógnuðu eftir þetta Fjarðabyggðarmarkinu nokkrum sinnum en voru klaufar að gera ekki betur í fínum sóknarupphlaupum þar sem Laufey Harðar var í aðalhlutverki.
Annað markið kom svo á 37. mínútu eftir að Laufey og Rakel sprengdu vörn Fjarðabyggðar upp á gátt og boltinn kom á fjær þar sem áðurnefnd Hugrún lúrði og skoraði örugglega. Tindastóll kominn í vænlega stöðu í hálfleik.
Það virðist þó vera stelpunum framandi að hafa góða stöðu í hálfleik því annan leikinn í röð kemur liðið með hálfum hug inn a völlinn í seinni hálfleik. Fjarðabyggð tók öll völd í leiknum og pressuðu okkar stelpur vel. Þær uppskáru mark strax á 49. mínútu eftir að okkar stelpur höfðu verið í sókn en misst boltann og skiluðu sér svo allt of hægt til baka. Þarna var búið að slá þær utan undir og maður hefði haldið að það myndi duga en nei nei, Fjarðabyggð hélt áfram að stríða okkur og þær stýrðu leiknum áfram og Tindastólsliðið ekki líkt því liði sem spilaði fyrri hálfleikinn.
Kjaftshöggið kom svo á 73. mínútu þegar austanstelpurnar skoruðu og jöfnuðu leikinn en við það vaknaði risinn og okkar stelpur tóku yfir leikinn aftur og spiluðu eins í fyrri hálfleik. Og þá var ekki að sökum að spyrja það skila marki strax 10 mínútum síðar eða á 84. mínútu og þar var að verki Hildur Hrönn.
Eftir markið sigldu stelpurnar leiknum í höfn og annar sigur staðreynd í jafnmörgum leikjum. Eftir að hafa nafngreint sumar kemst ég ekki hjá því að hrósa Guðrúnu Jenný fyrir mikla yfirferð í leiknum en hún spilaði sem fremsti maður okkar stelpna en sást oft í leiknum langt niður á okkar vallarhelmingi til að berjast í Fjarðarbyggðarstelpunum. Vörnin átti ágætan dag ásamt Bryndísi, miðjan og kantarnir spiluðu fantavel í fyrri hálfleik en hurfu í seinni hálfleik. En virkilega góður karakter í liðinu að koma til baka og skora eftir mikla lægð í seinni hálfleik.
Athygli vakti Dúfa aðstoðarþjálfari Tindastólsliðsins fyrir góðan móral en hún á það til stelpan ;-)