Lokun allra skíðalyfta á Íslandi

Því miður tilkynnist hér með að allar skíðalyftur og brekkur frá þeim loka frá og með deginum í dag og mun sú lokun vara meðan á samkomubanni stendur. Eftirfarandi orðsending var sent á öll skíðasvæði á íslandi fyrr í dag: Frá sóttvarnalækni - til áréttingar varðandi íþróttir fullorðinna: Sóttvarnalæknir áréttar að í auglýsingum heilbrigðisráðherra um samkomubann og um takmarkanir á skólastarfi er fjallað um að nálægð einstaklinga verði ekki minni en tveir metrar ef því er við komið. Einnig er ljóst að með vísan í leiðbeiningar um almennar sóttvarnaráðstafanir t.d. varðandi hreinlæti og smitleiðir að sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir. Þetta gildir til dæmis um bolta, dýnur, rimla, handlóð, skíðalyftur og ýmsan annan búnað til íþróttaiðkunar. Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa. Við hjá Samtökum skíðasvæða á Íslandi ætlum að virða þessi tilmæli og loka hluta svæðanna eða öllu sem snýr að skíðalyftum, en höfum áfram opnar skíðagöngubrautir en með tilmælum um að ekki sé neitt hópastarf eða samsöfnun á fólki á þeim svæðum heldur eingöngu til æfinga einstaklingsbundið þar sem 2 metra reglan um návígi er viðhöfð. Ef ekki verður farið eftir þeim tilmælum munum við einnig þurfa að loka þeim svæðum. Þetta er áfall jafnt fyrir okkur sem reka skíðasvæðin sem og viðskiptavini okkar en við vonumst til að allir sýni þessu skilning og þolinmæði. Formaður Samtaka skíðasvæða á Íslandi Hlynur Kristinsson


Athugasemdir