Keflvíkingar komnir með Stólana í gólfið

Stuðningsmannaliðið Grettir hvetur Stólana í blíðu og stríðu. MYND: ÓAB
Stuðningsmannaliðið Grettir hvetur Stólana í blíðu og stríðu. MYND: ÓAB

Annar leikur Keflavíkur og Tindastóls fór fram í Sláturhúsinu suður með sjó í kvöld og var um hörkuleik að ræða. Heimamenn náðu yfirhöndinni í öðrum leikhluta en Stólarnir gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í tvö stig þegar 40 sekúndur voru eftir. Það dugði hins vegar ekki til því Keflvíkingar kláruðu leikinn af vítalínunni og sigruðu 86-80. Þeir leiða því einvígið 2-0 og geta því skóflað Stólunum í sumarfrí nú á miðvikudaginn þegar liðin mætast þriðja sinni og að þessu sinni í Síkinu.

Bæði lið fóru vel af stað í kvöld og Hester gerði átta fyrstu stig Stólanna. Keflvíkingar náðu smá forskoti þegar á leið en þristur frá Helga Margeirs og tvö víti frá Pétri komu Stólunum yfir, 20-21. Amin Stevens átti þó síðasta orðið, troðslu, en hann átti frábæran leik í kvöld, gerði 35 stig og tók 16 fráköst.  Chris Caird var loks mættur til leiks með Stólunum en hann var að sjálfsögðu haugryðgaður, eins og von var eftir að hafa ekkert leikið í sex vikur. Honum óx þó ásmegin eftir því sem á leið og verður vonandi búinn að finna sig enn betur á miðvikudaginn.  Keflvíkingar náðu góðri forystu, 43-28, þegar þrjár mínútur voru til leikhlés en þá tók Martin leikhlé og það skilaði sér með tíu stigum Stólanna í röð. Pétur og Hannes settu sinn þristinn hvor og síðan bættu Viðar og Caird við stigum. Staðan í hálfleik 45-38.

Baráttan hélt áfram í þriðja leikhluta og mikið um 3ja stiga skot. Nýting Stólanna var kannski ekki til fyrirmyndar en þeir náðu þó að hanga í heimamönnum og eftir þrjá þrista; tvo frá Pétri og einn frá Hester, var staðan 54-49. Stólarnir náðu upp ágætri vörn í kjölfarið og þristur frá Friðriki Stefáns minnkaði muninn í eitt stig, 58-57, þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Amin Stevens og Hörður Axel réttu kúrsinn hjá Keflavíkurkútternum og þeir leiddu með fjórum stigum, 64-60, þegar fjórði leikhluti hófst.

Heimamenn gerðu fyrstu fimm stigin í síðasta leikhlutanum og náðu níu stiga forystu. Þá gerði Hester fimm stig í röð og aftur var allt í járnum. Næstu mínútur spiluðu bæði lið sterka vörn en Amin Stevens potaði niður tveimur vítum á meðan Pétur hélt Stólunum inni í leiknum. Síðan skiptust liðin á um að skora en þristur frá Gumma Jóns kom Keflvíkingum í 80-74. Caird minnkaði muninn með körfu og víti en Stevens svaraði að bragði. Caird setti þá niður eina þrist sinn í leiknum í átta tilraunum og staðan 82-80 og 40 sekúndur eftir. Þá gerði Hester mistök með því að brjóta strax á Gumma Jóns í stað þess að láta Keflvíkinga hafa fyrir því að sækja körfu. Gummi fór á línuna og jók muninn í fjögur stig og Stólarnir náðu ekki að svara á þeim sekúndum sem eftir lifðu. Lokatölur sem fyrr segir 86-80.

Það vakti talsverða athygli – og reyndar líka gagnrýni – að Israel Martin, þjálfari Tindastóls, notaði alla 12 leikmenn sína í leiknum í kvöld og aðeins tveir leikmenn liðsins, Pétur og Hester, spiluðu meira en 30 mínútur. Á sama tíma spiliðu Keflvíkingar aðeins á átta leikmönnum (nánast sjö) og að mati sérfræðinga Körfuboltakvölds bitnaði þetta á leik Stólanna, bestu menn liðsins fengu ekki tíma til að finna taltinn og fjalirnar sínar. Martin var þó afar sáttur með alla sína menn, var ánægður með baráttuna og spilamennskuna og fannst aðeins vanta herslumuninn.  Hester var stigahæstur með 26 stig og ellefu fráköst. Pétur skilaði 17 stigum, Caird gerði 10 og Friðrik kom sterkur inn með níu stig. Hjá Keflvíkingum sáu þrír leikmenn nánast algjörlega um stigaskorið; Stevens var með 35, Hörður Axel 22 og Gummi Jóns 18. Magnús Már, sem átti stórleik í Síkinu á fimmtudaginn, komst ekki á blað þrátt fyrir að spila í rúma 31 mínútu. Þriggja stiga nýting heimamanna (8/23) var betri en Stólanna (9/36) en nú reyndist vítanýting Stólanna betri þó aðeins munaði einu prósenti.

Það er ljóst eftir þetta tap í kvöld að nú eru Stólarnir komnir í gólfið og spurning hvort þeir ná að spyrna sér upp á miðvikudagskvöldið. Það var umtalað í Körfuboltakvöldi að það væri vonleysi í liði Tindastóls og ljóst að Keflvíkingar ætla að klára dæmið í næsta leik. Nú er spurning hvort Stólarnir reki af sér sliðruorðið og mæti kátir, hressir og banhungraðir til leiks í Síkinu. Stuðningsmenn Stólanna þurfa að gera það líka. Áfram Tindastóll!