Haukarnir voru sýnd veiði en ekki gefin

Urald King og Marques Oliver í baráttunni. Viðar og Brilli á næstu grösum. MYND: HJALTI ÁRNA
Urald King og Marques Oliver í baráttunni. Viðar og Brilli á næstu grösum. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og Haukar mættust í Síkinu í kvöld í 3. umferð Dominos-deildarinnar. Venju samkvæmt mættu Ívar Ásgríms og undirsátar grjótharðir til leiks og gáfu Stólunum leik en frábær vörn Tindastóls í þriðja leikhluta gaf þægilegar körfur og heimamenn komu sér í frábæra stöðu sem gestirnir náðu ekki að vinna á. Lokatölur 79-61.

Reiknað var með öruggum sigri Tindastóls gegn Haukaliði sem var í það minnsta töluvert öflugra á pappírunum í fyrra. Leikirnir vinnast hins vegar ekki á pappírum og það var eins og Stólarnir hefðu hálfpartinn vanmetið Haukana sem sannarlega mættu til leiks með leikplan. Þeir gerðu heimamönnum lífið leitt með fínum varnarleik og hægðu sömuleiðis talsvert á leiknum. Stólarnir fengu færi til að keyra upp hraðann eftir nokkra stolna bolta en boltinn var tregur til að rata í körfuna þannig að fyrsti leikhluti var í járnum. Tvö stig frá Viðari komu liði Tindastóls í 17-14 undir lok fyrsta leikhluta og tvö víti frá Dino komu Stólunum fimm stigum yfir og héldu þá sennilega flestir að nú gætu heimamenn keyrt upp hraðann – en það var öðru nær. Næstu fimm mínútur uppskáru Tindastólsmenn aðeins þrist frá Brilla en pakknóg af pirringi og puði. Haukar komust yfir 24-27 en Stólarnir náðu sex stiga áhlaupi og voru yfir 30-27 þegar þrjár mínútur voru til leikhlés. Þeir skoruðu ekki meira í hálfleiknum og Haukar leiddu í hálfleik 30-33.

Það eina sem stuðningsmenn Tindastóls voru vissir um var að svona illa gæti liðið ekki spilað áfram í síðari hálfleik. Og það stóð heima. Tveir þristar frá Brilla snemma í síðari hálfleik settu tóninn og eftir þrjár mínútur höfðu Stólarnir gert 13 stig en Haukar þrjú. Danero Thomas var síðan settur á bekkinn eftir að hafa nælt í sína fjórðu villu, inn kom Helgi Margeirs og í framhaldinu kviknaði á Pétri  sem hafði ekki skorað stig í fyrri hálfleik. Síðustu mínútur þriðja leikhluta náðist upp frábær barátta með Helgana tvo, Pétur, Viðar og Dino í miklum varnarham og þegar lokafjórðungur hófst var staðan orðin 60-41. Lið Tindastóls vann semsagt leikhlutann 30-8.

Haukar náðu aldrei að ógna forskoti Tindastóls að neinu ráði í fjórða leikhluta og Martin gat leyft sér að hvíla lykilmenn sem voru reyndar nokkrir komnir í villuvandræði. Haukarnir Marques Oliver og Kristján Sverrisson fengu báðir fimm villur þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af leiknum og þá var nú mesti neistinn slökknaður hjá Hafnfirðingum. 

Allir leikmenn Tindastóls komust á blað í kvöld. Atkvæðamestur í liði Tindastóls var venju samkvæmt Urald King með 23 stig og 14 fráköst auk þess sem hann átti fjórar stoðsendingar og ótal varin skot. Brynjar var með 16 stig, Dino 13 og Pétur 9. Marques Oliver var stigahæstur Hauka með 16 stig og 16 fráköst en hann og Urald King háðu á löngum köflum ansi harða baráttu undir körfunni. Kristinn Marinósson var með 11 stig og Haukur Óskars 10.

Hér er slóð á tölfræði leiksins á vef KKÍ >

Lið Tindastóls á annan heimaleik næstkomandi fimmtudag en þá kemur lið Njarðvíkur í heimsókn sem líkt og lið Tindastóls hefur enn ekki tapað leik í haust. Eitthvað verður unddan að láta og má reikna með spennu og hasar. Áfram Tindastóll!