Frábær liðssigur Tindastólsmanna í fjörugum leik gegn Keflavík

Tindastólsmenn fagna góðum sigri í leikslok.  MYND: ÓAB
Tindastólsmenn fagna góðum sigri í leikslok. MYND: ÓAB

Tindastóll og Keflavík mættust í hörkuleik í Síkinu í gærkvöldi. Það var skarð fyrir skildi að í lið Stólanna vantaði Chris Caird, sem á í hnémeiðslum, og óttuðust sumir stuðningsmanna liðsins hið versta, enda spilamennskan ekki verið upp á það besta í janúar. Lið Tindastóls spilaði hins vegar hörku vörn allan leikinn og uppskar á endanum sanngjarnan sigur. Lokatölur 86-77.

Leikurinn fór fjörlega af stað og jafnræði með liðunum. Tindastólsvörnin var þó heldur of aggresív að mati dómaranna og voru Keflvíkingar komnir með skotrétt eftir fjórar mínútur. Hester fékk tvær klaufavillur á sig snemma og það varð lítil gleði í stúkunni þegar hann nældi í sína þriðju villu skömmu fyrir lok fyrsta leikhluta, kannski ekki síst vegna þess að öllum virtist ljóst að villan var dæmd á rangan mann. Staðan 19-24 fyrir Keflavík. Martin virðist hafa náð að rétta kúrsinn í hléinu. Helgi Margeirs kom inn fyrir Hester, sem sat á bekknum í öðrum leikhluta, og Helgi spilaði frábærlega rétt eins og aðrir leikmenn Stólanna. Nú gekk boltinn hratt og mikil hreyfing á leikmönnum. Björgvin kom Stólunum yfir 30-28 með geggjaðri troðslu og leikurinn bæði spennandi og skemmtilegur. Staðan í hálfleik 43-46 fyrir Keflavík eftir laglegan þrist frá Reggie Dupree á lokasekúndunum.

Hester mætti grjótharður til leiks í síðari hálfleik og var einbeittur í því að spila vörnina fast en af skynsemi og koma Stevens í vandræði. Helgi Viggós gerði fyrstu körfu síðari hálfleiks og hann fór heldur betur fyrir sínum mönnum í gærkvöldi og ekki lét hann sitt eftir liggja í að reyna að stöðva Stevens, sem hefur að öðrum ólöstuðum verið besti kaninn í Dominos-deildinni í vetur. Sá þurfti að hafa fyrir hlutunum í Síkinu. Pétur kom Stólunum yfir, 50-46, með sínum sólóþristi. Keflvíkingar jöfnuðu en Viðar setti niður þrist og Björgvin setti niður tvo þrista á næstu mínútum og Stólarnir náðu undirtökunum. Keflvíkingar slepptu þeim þó ekki langt frá sér þannig að þegar þriðja leikhluta lauk var staðan 63-61 en nú voru fjórir leikmenn gestanna komnir í villuvandræði.

Stevens fékk dæmdar á sig tvær villur á upphafsmínútum fjórða leikhluta, þá fimmtu eftir að Helgi Viggós fiskaði á hann ruðning. Án Stevens þá misstu Keflvíkingar svolítið hausinn. Nú mæddi mikið á Herði Axel en hann var orðinn verulega leiður á Viðari sem spilaði rosalega vörn á hann. Þegar Stevens var sendur af velli munaði þremur stigum, 68-65, en 90 sekúndum síðar voru Tindastólsmenn komnir með tíu stiga forystu, 75-65, og loksins komnir með leikinn í sínar hendur. Það sem eftir lifði spiluðu heimamenn skynsamlega og sigldu heim góðum sigri.

Þetta var sigur liðsheildarinnar í gærkvöldi. Allir skiluðu sínu og varnarleikurinn var frábær frá fyrstu mínútu og sóknarleikurinn rúllaði lengstum vel. Viðar (14 stig), Björgvin (17 stig) og Helgi Viggós (11 stig, 9 fráköst og þar af fimm í sókninni) voru gríðarlega öflugir í leiknum og stigu sannarlega upp þegar Caird naut ekki við. Helgi Margeirs hefur oft hitt betur en í gær en hann spilaði engu að síður frábærlega og skilaði 13 stigum. Hester átti flottan síðari hálfleik og endaði með 20 stig og 10 fráköst. Pétur hefur verið að spara góðu skotin sín upp á síðkastið og það varð lítil breyting á því í gær. Engu að síður spilaði hann eins og hershöfðingi og skilaði sjö stigum og níu stoðsendingum.

Í liði gestanna var Magnús Már seigur í stigaskorinu og skilaði 18 stigum en Amin Stevens var þó stigahæstur þeirra með 20 stig. Hörður Axel gerði 14 stig og Dupree 10. Keflvíkingar, sem hafa verið hvað þekktastir fyrir 3ja stiga skotin sín, skutu lítið fyrir utan í gærkvöldi og ástæðan frábær varnarleikur Stólanna sem gáfu þeim lítinn frið og eltu þá oft langt út fyrir teig.

Tölfræði af vef KKÍ >

Næsti leikur Tindastóls er í Stykkishólmi þar sem strákarnir mæta botnliði Snæfells. Ekki má vanmeta Snæfellinga þó þeir sitji stigalausir á botni Dominos-deildarinnar. Áfram Tindastóll!