Silfur og brons á Íslandsmóti í Júdó

Fulltrúar Tindastóls á Íslandsmóti yngri flokka í Júdó 2018. Frá vinstri: Þóranna Ásdís Fjólmundsdót…
Fulltrúar Tindastóls á Íslandsmóti yngri flokka í Júdó 2018. Frá vinstri: Þóranna Ásdís Fjólmundsdóttir, Arnór Freyr Fjólmundsson og Þorgrímur Svavar Runólfsson. Mynd: Einar Örn Hreinsson.

Íslandsmót yngri flokka í Júdó var haldið í Reykjavík í dag. Tindastóll átti þrjá fulltrúa sem komu heim með eitt brons og eitt silfur.

Mótið var haldið í aðstöðu Ármanns í Laugardal og voru 111 keppendur skráðir til leiks frá níu júdófélögum, tveimur af Norðurlandi, þremur af Suðurnesjum, einu af Suðurlandi og þremur af höfuðborgarsvæðinu.

Keppendur Tindastóls á mótinu voru systkinin Arnór Freyr Fjólmundsson og Þóranna Ásdís Fjólmundsdóttir auk Þorgríms Svavars Runólfssonar. Að venju stóðu þau sig eins og hetjur og voru til fyrirmyndar í alla staði. Þóranna Ásdís keppti í fjölmennum riðli stráka, en að hennar sögn líkar henni betur að glíma við stráka en stelpur. Það kom líka í ljós að hún var ekkert tilbúin að gefa svo auðveldlega eftir í sínum glímum og barðist af einbeittum vilja. Það dugði þó ekki til þess að ná á verðlaunapall að þessu sinni. Arnór Freyr krækti í brons eftir jafna keppni í hans riðli. Arnór Freyr á þó heilmikið inni og verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni. Þorgrímur Svavar keppti í tveggja manna þungavigtarriðli þar sem vinna þurfti tvær glímur til að sigra. Vantaði einungis herslu muninn að hann ynni fyrstu glímuna, sem var æsispennandi. Hann varð þó að lokum að játa sig sigraðan og láta sér lynda bronsið en færist þó alltaf nær því að leggja frænda sinn og andstæðing frá Akureyri.

Eftir skemmtilegt mót hittist hópurinn í keilu eins og venja er áður en stefnan var sett á Sturlungaslóðir norðan heiða.