Nóvemberfréttabréf - Sigrar og gleði

Mikið fjör var á Krakkamóti KA í nóvember. Mynd: Jóhann Sigmarsson
Mikið fjör var á Krakkamóti KA í nóvember. Mynd: Jóhann Sigmarsson
Fyrst ber að nefna að flestir af yngstu iðkendum deildarinnar fóru á Krakkamót KA á Akureyri fyrir skömmu og stóðu sig þar með mikilli prýði. Lagt var upp með það að spila í sterkustu styrkleikaflokkum með okkar lið og má segja að okkar krakkar hafi staðið fyllilega undir því. En það er nú kannski ekki endilega það sem var aðalatriðið heldur að krakkarnir skemmtu sér konunglega og var mikil ánægja með mótið.
 
Meistaraflokkur kvenna hélt einnig til Akureyrar fyrir skemmstu og spilaði þar við 3.flokk kvenna hjá Þór. Okkar stúlkur unnu þar 7-1 sigur. Spilamennska liðsins var á köflum mjög góð en þarna var á ferðinni leikur sem spilaður var með það að markmiði að kenna liðinu að stjórna leik og vera sterkari aðilinn. Má segja að gott skref hafi verið tekið í þeim efnum. Þess má geta að árið 2011 tapaði meistaraflokkur kvenna hjá Tindastól stórt fyrir 3.flokki kvenna hjá Þór. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.
 
Loks hélt meistaraflokkur karla í borgina um síðast liðna helgi og lék þar gegn Berserkjum, sem er nokkurskonar B-lið Víkings í Reykjavík. Okkar drengir spiluðu frábæran leik og unnu 5-1. Eins og þjálfari liðsins, Bjarki Már Árnason, komst svo vel að orði þá ,,skein leikgleðin og baráttuandinn úr hverju andliti". Nokkuð sem vert er að byggja á fyrir framtíðina.