Erfið byrjun heldur áfram í 2.deildinni

Strákarnir léku gegn sterkum vindi í fyrri hálfleik og voru eftir hann 0-3 undir. Segja má að Þróttarar hafi verið með nánast fullkomna nýtingu á færum sem er ekki hversdagsbrauð í íslenskum fótbolta. En hugsanlega er það dæmigert fyrir byrjun mótsins hjá okkar drengjum. Í síðari hálfleik sóttu okkar drengir meir en það voru Þróttarar sem bættu við fjórða markinu og þar við sat.

Ef horft er framhjá tölunum, þó þær skipti auðvitað mestu, þá voru mikil batamerki á leik liðsins eins og áður sagði, menn voru að hlaupa og berjast, nokkuð sem ekki var uppi á teningnum í leiknum gegn Aftureldingu fyrir skömmu.

Næst leika strákarnir sinn fyrsta heimaleik í sumar hér á Sauðákróki og eru það nágrannar Þróttara úr Vögum, Víðir úr Garði sem koma í heimsókn. Ekki þarf að fara um það mörgum orðum hversu mikilvægt það er fyrir okkar lið að komast á blað í deildinni og mun góður stuðningur úr stúkunni skipta þar miklu máli. 

Okkar lið er að langmestu leyti skipað heimamönnum, nokkuð sem ákall hefur verið um sl. ár og nú treystum við stuðningsmenn góðir á að fólk fylki sér á bakvið drengina okkar og styðji þá til góðra verka á heimavelli í allt sumar!