Átta Stólastúlkur komnar með samning fyrir næsta sumar

Hjá Knattspyrnudeild Tindastóls er nú unnið að því að semja við leikmenn fyrir næsta keppnistímabil. Nú hafa átta stúlkur skrifað undir samning um að leika áfram með liði Tindastóls næsta sumar en liðið tekur þátt í 1. deild kvenna undir stjórn nýráðins þjálfara, Donna Sigurðssonar. Um er að ræða sex heimastúlkur og tvær bandarískar, sem þarf nú hvað úr hverju að fara að tala um sem heimastúlkur, en það eru Murr og Amber.

Þær heimastúlkur sem hafa skrifað undir samning eru fyrirliði liðsins, Bryndís Rut Haraldsdóttir frá Brautarholti, og Kristrún María Magnúsdóttir sem stóð eins klettur við hlið Bryndísar í vörn Tindastóls í Pepsi Max deildinni í sumar. Sömuleiðis er um að ræða Maríu Dögg Jóhannesdóttur, Hugrúnu Pálsdóttur og Bergljótu Ástu Pétursdóttur sem allar stóðu sig með mikilli prýði í sumar. Einnig hefur yngri systir Hugrúnar, Eyvör Pálsdóttir, skrifað undir samning en hún átti í meiðslum í allt sumar.

Þá er það mikið ánægjuefni að Murielle Tiernan hefur ákveðið að vera fimmta sumarið á Króknum og það þekkja allir stuðningsmenn Tindastóls styrk hennar og mikilvægi í liðinu. Síðast en ekki síst þá hefur Amber Michel ákveðið að spila þriðja sumarið með Stólastúlkum en hún var frábær í markinu í sumar og einn af betri leikmönnum Pepsi Max deildarinnar.

Að sögn Sunnu Bjarkar Atladóttur, formanns knattspyrnudeildar Tindastóls, þá má reikna með að fleiri leikmenn skrifi undir samninga við Stólana á næstu dögum.

Fréttin er fengin af Feykir.is