Svekkjandi tap eftir dramatískar lokamínútur í Síkinu

Tindastóll og Þór Þorlákshöfn mættust í háspennuleik í Síkinu síðastliðið fimmtudagskvöld. Bæði liðin voru með 14 stig fyrir umferðina og leikurinn því mikilvægur fyrir úrslitakeppnina. Stólarnir voru betri í fyrri hálfleik en Þórsarar komu til baka í þeim seinni í lokafjórðungnum skiptust liðin á um að hafa forystuna. Á æsipennandi lokakafla voru það gestirnir, með Vance Hall í óstöðvandi stuði, sem höfðu betur. Lokatölur 78-80.

Þar sem körfuboltapenni Feykis var víðsfjarri þegar leikurinn fór fram er ágætt að gefa Vísi.is orðið: „Leikurinn fór fjörlega af stað og leiddu heimamenn eftir fyrsta leikhluta 21 – 16. Jafnræði var með liðinum í öðrum leikhluta sem að endaði 17 – 16 fyrir heimamenn og því voru hálfleikstölur á Sauðárkróki 38 -32.

Vance Hall, leikmaður Þórs fór mikinn og skoraði 17 stig í hálfleiknum en hjá heimamönnum voru þeir Darrell Flake og Jerome Hill með 10 stig hvor. Stólarnir voru sterkir í teignum í fyrri hálfleik þrátt fyrir nærveru Ragnars Nathanaelssonar og voru að vinna frákastabaráttuna 29 – 12 í hálfleik.“Tindastólsmenn komu steinsofandi til leiks í síðari hálfleik. Liðin gerðu hvort sína körfuna í byrjun en síðan gerðu Þórsarar næstu 14 stig á rétt rúmum tveimur  mínútum. Staðan skyndilega orðin 40-48 fyrir Þór.

„Heimamenn náðu þó að rétta úr kútnum en Þór vann leikhlutann 16 – 23 og leiddu leikinn 54 – 55 þegar að þriðja leikhluta lauk.

Síðasti leikhlutinn var gríðarlega spennandi. Þegar að staðan var 75 – 75 og ein og hálf mínúta eftir skoraði Emil Karel Einarsson þriggja stiga körfu og kom gestunum yfir. Það virtist slá heimamenn út af laginu og gestirnir frá Þorlákshöfn voru sterkari í lokin og unnu leikhlutann 24 – 25 og þar að leiðandi leikinn sjálfann 78 – 80.“ 
Stuðningsmenn Stólanna eru þó enn að velta vöngum yfir skrefadómi á Pétur skömmu fyrir leikslok en þar var boltinn dæmdur af heimamönnum þegar margir vildu fá villu dæmda á Þórsara. Svona geta þessir háspennuleikir í körfunni oft sveiflast á einni dómgæslu í lok leikjanna – svona er sportið.

Í liði Tindastóls endaði Jerome Hill með 19 stig og 11 fráköst, Helgi Rafn átti góðan leik með 18 stig. Darrel Lewis skoraði aðeins 9 stig í leiknum og munar um minna.

Vance Hall, leikmaður Þórs Þorlákshafnar fór gjörsamlega hamförum í þessum leik og endaði leikinn með 34 stig, 5 fráköst og 6 stoðsendingar en Emil Karel Einarsson var með 18 stig.


Tindastólsmenn tóku ríflega 20 fráköstum meira en Þórsarar í leiknum en gestirnir hittu aftur á móti talsvert betur, ekki síst utan 3ja stiga línunnar. Etir leikinn er Tindastóll í 7. sæti deildarinnar með 14 stig en Þór Þorlákshöfn hoppuðu upp í 4. sæti með 16 stig.

Stig Tindastóls: Jerome Hill 19, Helgi Viggós 18, Darrel Flake 14, Darrel Lewis 9, Ingvi Rafn 5, Viðar 5, Svavar 3, Helgi Margeirs 3 og Pétur 2.