Lewis rjúkandi heitur í Röstinni

Tindastóll sótti lið Grindavíkur heim í Röstina í sjónvarpsleik Stöðvar 2 í Dominos-deildinni í kvöld. Úr varð hörkuleikur þar sem Stólarnir voru yfir mest allan leikinn og uppskáru sigur eftir æsispennandi lokamínútur, ekki síst fyrir tilstilli Darren Lewis sem gerði sér lítið fyrir og setti 45 stig í leiknum.

Heimamenn byrjuðu betur og komust í 6-2 en síðan var jafnræði með liðunum út fyrsta leikhluta en að honum loknum var staðan 20-20. Annar leikhluti var sömuleiðis jafn og spennandi, staðan 35-35 þegar þrjár mínútur voru til leikhlés. Þá gerðu Svabbi, Helgi Viggós, Pétur og Lewis hver sína körfuna án þess að Grindvíkingar næðu að svara en í hálfleik munaði sex stigum, 38-44.

Heimamenn komu sterkir til leiks í þriðja leikhluta, ekki síst munaði um að Rodney Alexander fór að nýta sér styrk sinn í sókninni. Þeir minnkuðu muninn í eitt stig, 52-53, en Lewis mallaði stanslaust niður körfum fyrir Stólana og var nýting hans í leiknum nánast fáránleg, hann setti niður 17 af 21 skoti sínum innan 3ja stiga línunnar. Lewis og Helgi Margeirs settu niður tvo þrista í röð og aftur náðu Stólarnir þetta 6-8 stiga forskoti.

Þegar fjórði leikhluti hófst munaði 10 stigum á liðunum, 65-75, og ljóst að Grindvíkingar þurftu að reyna að keyra upp hraðann. Dempsey hóf leik á því að setja niður þrist fyrir Stólana, 65-78, en síðan gekk lítið í sókninni, heimamenn breyttu um vörn og náðu að loka á Lewis um tíma. Þegar tæpar sex mínútur voru eftir höfðu Grindvíkingar jafnað 81-81 en þá kviknaði á Myron Dempsey sem að fór á miklum kostum á lokamínútunum. Aftur náðu Stólarnir yfirhöndinni og voru með 2-5 stiga forskot þangað til tvær og hálf mínúta var eftir en þá voru Grindvíkingar skyndilega komnir yfir, 95-93, og fengu tækifæri til að auka forskotið en Maggi Gunn klikkaði og í staðinn skutlaði Svabbi þristi niður og næstu tvær körfur gerði Dempsey og sú seinni laglegt allei-úpp eftir stoðsendingu Péturs. Staðan orðin 95-100. Grindvíkingar minnkuðu muninn í 97-100 og fengu síðan nokkrar sekúndur til að jafna en skot þeirra geigaði og Dempsey innsiglaði sigur Stólanna af vítalínunni. Lokatölur 97-102.

Lewis var óstöðvandi í leiknum með 45 stig og Dempsey var sömuleiðis frábær með 27 stig og 10 fráköst. Pétur var góður með 11 stig og 12 stoðsendingar og þá var Svabbi seigur með 8 stig og 24 mínútur. Í sjónvarpinu var gaman að fylgjast með stjórn Israel Martin á leiknum en þjálfari Tindastóls var yfirvegaður þegar hann skipulagði leik Stólanna í lokin. Góður sigur staðreynd á erfiðum útivelli og Stólarnir nú með sjö sigurleiki og eitt tap og sitja sem stendur aleinir í öðru sæti Dominos-deildarinnar.

Stig Tindastóls: Lewis 45, Dempsey 27, Pétur 11, Helgi Viggós 8, Svabbi 8 og Helgi Margeirs 3.