Fyrsti sigurinn í 15 tilraunum í Keflavík

Tindastólsmenn komu, sáu og sigruðu í TM-höllinni í Keflavík í gærkvöldi í fínum körfuboltaleik. Það voru 15 ár frá því Stólarnir höfðu síðast sigur á heimavelli Keflvíkinga og lengi vel leit út fyrir að engin breyting yrði á þrautagöngu gestanna. Magnaður fjórði leikhluti Stólanna, þar sem Helgi Margeirs og Ingvi Ingvars fóru á kostum með langdrægum eldflaugum, varð til þess að Stólarnir gátu fagnað vígreifir í leikslok. Lokatölur 93-104.

Leikur liðanna var ansi sveiflukenndur framan af. Stólarnir komust í 0-5 en þá komu Keflvíkingar með 13-1 hrinu og Stólarnir svöruðu. Staðan var 25-22 eftir fyrsta leikhluta og heimamenn voru að spila vel framan af öðrum leikhluta, þeim gekk vel að klára sóknirnar sínar og spiluðu ágæta vörn. Keflvíkingar náðu 12 stiga forystu, 42-30, upp úr miðjum leikhlutanum og voru 11 stigum yfir, 45-34, þegar mínúta var til leikhlés. Stólarnir nýttu síðustu mínútuna vel og minnkuðu muninn fyrir hlé. Staðan 45-40 í leikhlé.

Allt var í járnum í þriðja leikhluta en heimamenn þó yfirleitt með forystuna. Þegar leið á leikhlutann voru bæði Helgi Margeirs og Ingvi mættir á parketið og búnir að finna fjalirnar sínar. Ingvi jafnaði leikinn 63-63 með þristi en það voru heimamenn í Keflavík sem voru þremur stigum yfir eftir að Valur Vals kom þeim í 73-70 með síðustu körfu leikhlutans. Í fjórða leikhluta fóru Stólarnir á miklum kostum. Keflvíkingar spiluðu svæðisvörn sem Tindastólsmönnum gekk vel að spila gegn og ekki síst þar sem skotin rötuðu niður og mörg hver af djúpsævi. Pétur jafnaði leikinn strax í upphafi með þristi og tveir þristar frá Ingva og þrír frá Helga gerðu heimamönnum erfitt fyrir. Stólarnir voru komnir með meira en 10 stiga forskot þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir og þann mun náðu heimamenn aldrei að kroppa í.

Israel Martin notaði átta af tólf leikmönnum í leiknum í gær og aðeins tvær þessara átta voru undir 10 stigum. Myron Dempsey var sterkur í fyrri hálfleik og hann endaði stigahæstur með 23 stig og 7 fráköst. Helgarnir voru báðir með 18 stig og Lewis 15.

Næsti leikur Tindastóls er hér heima gegn Grindvíkingum sem hafa verið að bíta duglega frá sér upp á síðkastið. Stólarnir eru nálægt því að gulltryggja annað sætið í deildinni og færðust í gær nær KR-ingum sem töpuðu fyrir Haukum í Hafnarfirði.

Stig Tindastóls: Myron Dempsey 23, Helgi Viggós 18, Helgi Margeirs 18, Darrel Lewis 15, Ingvi Ingvars 14, Darrel Flake 10, Pétur 5 og Svabbi 1.