Aðalfundur Frjálsíþróttadeildar Tindastóls.

Steinunn Valdís, Kolbrún og Thelma.
Steinunn Valdís, Kolbrún og Thelma.

 

Aðalfundur Frjálsíþróttadeildar Tindastóls var haldinn þriðjudaginn 20. febrúar.  Margrét Björk Arnardóttir, sem kjörin var formaður á síðasta ári, er flutt burt úr Skagafirði, en í hennar stað var kjörin í stjórnina Steinunn Valdís Jónsdóttir.  Thelma Knútsdóttir mun gegna formennsku fyrst um sinn, Steinunn Valdís verður ritari og Kolbrún Þórðardóttir gjaldkeri.

Í Ársskýrslu 2017 kom m.a. fram, að tekist hefði að fá æfingatíma yngstu iðkendanna færða fyrr á daginn, sem gaf starfinu með yngsta hópinn byr undir báða vængi, og fjölgaði mjög í þeim hópi. 

Margir þeirra eldri hafa sýnt gríðarlegar framfarir og á Uppskeruhátíð Frjálsíþróttaráðs UMSS voru Ísak Óli Traustason og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir valin frjálsíþróttakarl og -kona UMSS, og þau Rúnar Ingi Stefánsson, Kristinn Freyr Briem Pálsson og Andrea Maya Chirikadzi hlutu viðurkenningar fyrir árangur sinn.  Ísak Óli var síðan valinn Íþróttamaður Skagafjarðar 2017.

Þjálfurum deildarinnar, Sigurði Arnari Björnssyni yfirþjálfara og Gesti Sigurjónssyni, ásamt aðstoðarþjálfurum, voru þökkuð góð og metnaðarfull störf.  Þá var ómældum fjölda sjálfboðaliða þakkað fyrir þeirra ómetanlega framlag.