Júdó- og bogfimideildir formlega komnar undir Tindastól

Aðalfundur Tindastóls fór fram í Húsi frítímans þann 2. mars sl. Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf auk þess sem viðurkenningar voru veittar. Gerðar voru nokkrar breytingar á lögum félagsins þar sem skerpt var á nokkrum atriðum. Helgi Sigurðsson gaf kost á sér til áframhaldandi formennsku og aðrir í stjórn gerðu það líka, þ.e. Kolbrún Marvía Passaro, Laufey Kristín Skúladóttir, Magnús Helgason og Þórunn Ingvadóttir. 

Þá voru íþróttagreinarnar júdó og bogfimi jafnframt samþykktar sem sérstakar deildir undir Tindastól en samkvæmt upplýsingum frá stjórn félagsins hafa þær hingað til verið undir hatti almenningsíþróttadeildar. „Það hafa komið að máli við aðalstjórn nokkrar konur sem hafa áhuga um að stofna fimleikadeild undir nafni Tindastóls. Aðalstjórn á eftir að skoða það mál, en vonandi getur orðið af því,“ sagði Magnús í samtali við Feyki. 

Þá veitti formaður UMF Tindastóls Skúla Jónssyni starfsbikarinn sem Ómar Bragi Stefánsson gaf félaginu á 100 ára afmæli félagsins. Skúli hefur í mörg ár starfað fyrir félagið á ýmsum vettvangi.  Hann hefur unnið gott og ósérhlífið starf fyrir knattspyrnudeild Tindastóls. 

Það voru veittar viðurkenningar til þeirra sem hlutu tilnefningu sem íþróttamaður Tindastóls 2015, þ.e:

  • Knattspyrnudeild - Bjarki Már Árnason og Sunna Björk Atladóttir
  • Skíðadeild - Birna María Sigurðardóttir
  • Frjálsíþróttadeild - Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir
  • Júdódeild - Þorgrímur Svavar Runólfsson
  • Körfuknattleiksdeild – Ingvi Rafn Ingvarsson og Alexandra Ósk Guðjónsdóttir
  • Sunddeild – Rannveig Sigrún Stefánsdóttir og Hallmundur Ingi Hilmarsson 

Þá voru veittir fjórir styrkir úr minningarjóði um Rúnar Inga Björnsson en þá hlutu:

  • Pétur Rúnar Birgisson vegna þátttöku í landsliðsverkefnum
  • Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir vegna frjálsíþróttaverkefna
  • 3.flokkur karla í knattspyrnu vegna utanlandsferðar
  • Frjálsíþróttadeild vegna kostnaðar þjálfara frjálsíþróttadeildar vegna æfingarferðar til Bandaríkjanna vorið 2016

frétt af feykir.is