Stólarnir skinu skært gegn ljóslausum Stjörnumönnum

Stólarnir fögnuðu vel í leikslok og leikmenn og stúkan sungu afmælislagið fyrir Pétur. Þvílík stemni…
Stólarnir fögnuðu vel í leikslok og leikmenn og stúkan sungu afmælislagið fyrir Pétur. Þvílík stemning! MYND:ÓAB

Stjörnumenn fengu á baukinn í Síkinu í kvöld þegar þeir lentu í klónum á baráttuglöðum Tindastólsmönnum í toppslagnum í Dominos-deildinni. Stólarnir náðu yfirhöndinni þegar leið að hálfleik og áttu síðan geggjaðan þriðja leikhluta sem skóp öruggan sigur. Lokatölur voru 92-69 og lið Tindastóls situr nú í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir KR-ingum.

Stólarnir fóru nokkuð rólega af stað og greinilegt að Hlynur Bærings og félagar ætluðu að selja sig dýrt og reyna að loka á Hester.  Gestirnir komust í 6-13 en Björgvin nýtti sprengikraft sinn til að minnka muninn.  Varnir beggja liða voru sterkar þegar leið á og Pétur minnkaði muninn í 16-20 áður en leikhlutinn var úti. Hester hóf annan leikhluta af krafti og gerði fyrstu fjögur stigin en síðan setti Viðar niður þrist úr horninu og kom Stólunum yfir, 23-20, og stemningin í Síkinu rauk upp. Liðin skiptust á um forystuna næstu mínútur en þristur frá Pétri og síðan stolinn bolti og lay-up gaf tóninn fyrir það sem koma skildi. Nú voru allir leikmenn Tindastóls komnir á bragðið og áður en blásið var til leikhlés voru Stólarnir komnir með átta stiga forystu. Staðan 43-35.

Pétur gerði síðan fimm fyrstu stig síðari hálfleiks en Stjörnumenn komu til baka og náðu að minnka muninn í 50-43. Stólarnir stigu enn upp í vörninni og nú dúkkaði Viðar upp með tvo þrista og það var sama hvað Garðbæingar reyndu, Stólarnir svöruðu að bragði og einhverju til viðbótar.  Helgi Margeirs setti síðan niður djókþrist um leið og leiktíminn rann út í þriðja leikhluta, tók nokkur skref frá 3ja stiga línunni og skaut svo eins og honum er lagið. Kviss o.s.fr. og munurinn orðinn 22 stig, staðan 73-51.

Stjörnumenn komu grimmir til leiks í fjórða leikhluta eftir að hafa tapað þeim þriðja 30-16. Þeir gerðu fyrstu fimm stigin en tveir þristar frá Viðari slökktu endanega þann vonarneista sem enn lifði í Stjörnunni.  Áfram var þó barist um hvern bolta og Stjörnumönnum gekk illa að finna opin skot. Mörg þeirra sem á endanum komu var fagnað með hrópunum „airball“ úr stúkunni. Þremur og hálfri mínútu fyrir leikslok setti Viðar síðan niður sjötta þristinn sinn og setti met því hann gerði þessa sex þrista í sex skottilraunum. Magnað! Yngri leikmenn Stólanna sigldu síðan sigrinum af öryggi í höfn.

Það voru allir hetjur í liði Tindastóls í kvöld. Varnarleikurinn var á köflum ógnvænlegur og ódrepandi barátta í mannskapnum. Það er nánast ósanngjarnt að taka einhvern út úr en Viðar átti geggjaðan leik, gerði 22 stig í 10 skotum. Hester var í endalausri baráttu við Hlyn og hina stóru strákana í Stjörnunni en hann varð ekki stöðvaður, skilaði sömuleiðis 22 stigum og hirti tíu fráköst. Og hvað má þá segja um afmælisdrenginn Pétur Birgis? Hann átti snilldarleik með 20 stig og var meira að segja frákastahæstur með 13 stykki! Að auki var hann með fjórar stoðsendingar, fiskaði níu villur og stal fimm boltum.  Helgi Viggós var eins og klettur í vörninni og þá voru Björgvin og Helgi Margeirs frábærir. Það kom kannski mörgum á óvart að sjá Friðrik Stefáns í byrjunarliðinu en hann stóð sig með mikilli prýði.

Í liði Stjörnunnar voru það helst Anthony Odunsi (22 stig) og Marvin (18 stig) sem geta gengið sæmilega hnarrreistir af velli. Hlynur barðist eins og ljón og tók 14 fráköst en skilaði aðeins átta stigum. Aðrir hittu ekki á góðan dag og Addú, fyrrum leikmaður Tindastóls, virðist hreinlega eiga í erfiðu sambandi við körfurnar í Síkinu því hann tók níu skot í leiknum en hitti ekki úr einu einasta.

Í lið Stjörnunnar vantaði enn Justin Shouse en í lið Tindastóls vantaði þá Chris Caird, Svabba Birgis og Pálma Geir.

Tölfræði af vef KKÍ >

Það er skammt stórra högga á milli í körfunni því nú strax á fimmtudag eiga Stólarnir annan heimaleik. Þá mæta Þórsarar úr Þorlákshöfn í heimsókn en þeir eru í fjórða sæti deildarinnar með 20 stig en Stólarnir eru í öðru sæti með 26 stig.