Körfuboltabúðir Tindastóls

Körfuboltabúðir Tindastóls verða haldnar 11.-16. ágúst 2020 á Sauðárkróki.

Lögð verður áhersla á þjálfun í grunnatriðum leiksins og að veita leikmönnum forskot þegar æfingar hefjast hjá þeirra félögum.
Er þetta í fyrsta sinn sem þessar búðir eru haldnar og hlökkum við mikið til þess að taka á móti áhuasömum ungmennum á Króknum í ágúst.

Við kynnum til leiks búðarstjórann;

Baldur Þór Ragnarsson, er þjálfari meistaraflokks karla hjá Tindastól í körfubolta. Baldur Þór er aðstoðarþjálfari íslenska karla landsliðsins og hefur hann einnig þjálfað yngri landslið Íslands og hefur þar unnið með öllum fremstu þjálfurum landsins seinustu ár. Baldur Þór hefur aflað sér mikillar þekkingar og reynslu við styrktarþálfun og hugarfar leikmanna. Hann þjálfar leikmenn í eflingu hugarfars sem er nokkuð nýtt á Íslandi. Baldur Þór er menntaður einka- og styrktarþjálfari frá ÍAK og hefur auk þess sótt fjölda námskeiða í styrktar- og hugarfarsþjálfun hérlendis sem erlendis.

Þjálfarara búðanna;

Finnur Freyr Stefansson, hefur það einstaka afrek á ferilsskrá sinni að hafa unnið til 5 Íslandsmeistaratitla í röð sem þjálfari meistaraflokks karla með KR. Ásamt því var hann aðstoðarþjálfari hjá íslenska karla landsliðinu sem náði þeim árangri að fara tvisvar sinnum á EuroBasket (evrópumót) í röð. Finnur Freyr er yfirþjálfari yngri landsliða KKÍ og hefur einnig þjálfað yngri landslið KKÍ undanfarin ár. Í vetur þjálfaði Finnur Freyr lið Horsens í Danmörku með góðum árangri. Finnur Freyr er talinn einn besti þjálfari Íslands í dag og er það því mikill heiður að fá hann til okkar í Körfuboltabúðir Tindastóls.

Israel Martin, gerði meistaraflokk karla hjá Tindastól að Bikarmeisturum í fyrsta sinn í sögu félagsins árið 2018. Hann hefur náð góðum árangri hérlendis og erlendis sem þjálfari. Hann hefur þjálfað yngri landslið KKÍ. Israel Martin þjálfaði lið Bakken Bears sem er eitt besta lið norðurlandana. Israel Martin þjálfar nú lið meistaraflokk karla hjá Haukum.
Við bjóðum Israel Martin velkominn í Skagafjörðinn í ágúst.

Árni Eggert Harðarson, er þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Tindastól. Árni hefur mikla reynslu sem þjálfari yngri flokka sem og meistaraflokka. Árni hefur verið aðstoðarþjálfari yngri landsliða KKÍ. Árni var lengi vel aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá ÍR og náði góðum árangri þar. Það er okkur sönn ánægja að hafa Árna í þjálfaraliði okkar í ágúst.

Hildur Björg Kjartansdóttir, er ein besta körfuknattleikskona Íslands hefur boðað komu sína til okkar. Hildur Björg er leikmaður meistaraflokks kvenna í KR og er lykilmaður í íslenska kvennalandsliðinu. Hildur Björg hóf feril sinn með Snæfelli og varð Íslandsmeistari með þeim árið 2014. Hildur hélt svo til Bandaríkjana þar sem að hún fór í nám og spilaði körfubolta með University of Texas Rio Grande Vally með góðum árangri. Eftir háskólanám í Bandaríkjunum hélt Hildur til Spánar sem atvinnumaður fyrst hjá Club Baloncesto Leganés og síðan með Celta de Vigo Baloncesto. Hildur er frábær fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk sem vill ná langt í sinni íþrótt. Hún hefur mikinn metnað og æfir og hugsar mjög vel um sig. Það er því okkur sönn ánægja að fá hana til okkar í búðirnar þar sem hún miðlar sinni reynslu til yngri iðkanda.

Viðar Hafsteinsson, er þjálfari Hattar á Egilsstöðum og einnig fyrrverandi leikmaður. Viðar er íþróttakennari að mennt og hefur þjálfað Hött í mörg ár, bæði meistaraflokk karla og yngri flokka. Viðar hefur einnig þjálfað yngri landslið KKÍ í nokkur ár.

Chris Caird, er þjálfari meistaraflokks og yngri flokka Selfoss. Chris hefur spilað fyrir enska landsliðið, en hann spilaði með FSU áður en hann fór til USA í framhaldsskóla og spilaði með Marshalltown og síðar í háskólanám þar sem hann spilaði með Drake University. Áður en Chris fór til FSu þá spilaði hann með meistarafl. Tindastóls og var yfirþjálfari yngri flokka. 

Helgi Freyr Margeirsson, fyrrverandi leikmaður Tindastóls til margra ára. Helgi Freyr fór til Bandaríkjana ungur að árum í menntaskóla og síðan í Háskóla og spilaði með Birmingham - Southern College. Þeir krakkar sem eru að hugsa um að fara til Bandaríkjana í skóla ættu því að nýta tækifærið og spyrja Helga Frey hvernig það er að vera þar. Helgi Freyr spilaði einnig í þrjú ár með Randers Cimbria í Dönsku úrvarlsdeildinni. Helgi Freyr setti á laggirnar Körfuboltaskóla Norðurlands fyrir nokkrum árum. Markmið skólans er að kynna körfubolta á þeim stöðum sem körfubolti er ekki æfður á Norðurlandi vestra. Skólinn hefur fengið frábærar móttökur. Helgi Freyr var ekki einungis frábær leikmaður heldur var hann mikill og góður liðsmaður.