Grindavíkurstúlkurnar reyndust sterkari á síðustu metrunum

Tess Williams á fullri ferð í leiknum í dag. Fleiri myndir má sjá á síðu Körfuknattleiksdeildar Tind…
Tess Williams á fullri ferð í leiknum í dag. Fleiri myndir má sjá á síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls á Facebook. MYND: HJALTI ÁRNA

Meistaraflokkur kvenna hjá Tindastóli spilaði sinn fyrsta heimaleik í nokkur ár þegar þær tóku á móti liði Grindavíkur í 1. deild kvenna í Síkinu í dag. Leikurinn var lengstum jafn og spennandi en þriðji leikhlutinn reyndist heimastúlkum erfiður eftir að hafa leitt mest allan fyrri hálfleik. Lokamínúturnar voru þó æsispennandi því uppgjöf var aldrei inni í myndinni hjá Stólastúlkum. Þær urðu þó að sætta sig við tap á endanum, lokatölur 78-85 fyrir gestina.

Leikurinn fór vel af stað og liðin skiptust á um að hafa forystuna. Þóranna Ósk var að spila vel og gerði fyrstu körfur Tindastóls en síðan fór Tess Williams að láta ljós sitt skína. Sú bandaríska er ekki há í loftinu en hún er sterk og með flott vald á boltanum og gott skot. Í liði Grindavíkur var Ólöf Rún Óladóttir allt í öllu framan af og skoraði grimmt. Hún lenti hins vegar snemma í villuvandræðum, var komin með fjórar snemma  öðrum leikhluta. Að loknum fyrsta leikhluta var Tindastóll yfir, 24-20, og það læddist að manni sá grunur að gestirnir hefðu kannski vanmetið lið Tindastóls, sem sannarlega hefur ekki mikla reynslu en það átti eftir að koma betur í ljós þegar á leikinn leið. Lið Grindavíkur safnaði villum eins og enginn væri morgundagurinn og Stólastúlkur komust mest níu stigum yfir, 33-24, og aftur um miðjan leikhlutann, 39-30. Þegar leið að hálfleik voru stóru stelpurnar í Tindastólsliðinu, Kristín Halla og Rakel Rós, komnar í villuvandræði og það veikti varnarleik liðsins. Staðan í hálfleik var 46-41.

Það vakti athygli í hálfleik að lið Tindastóls dvaldi lengi inni í klefa og náði ekkert að hita upp áður en þriðji leikhluti hófst. Hvort sem því var um að kenna eða einhverju öðru, þá komu stelpurnar ískaldar til leiks og lið Grindavíkur tók öll völd. Tess fékk högg á andlit snemma og var kippt út af og á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhluta gerði lið Grindavíkur 21 stig en Stólastúlkur aðeins fimm. Staðan skyndilega 51-62. Þarna spilaði Grindavík mjög aggresíva vörn, vann boltann ítrekað og spilaði honum hratt og vel inn undir körfu Tindastóls þar sem fátt var um varnir á þessum kafla. Mestur varð munurinn 13 stig gestunum í vil en stelpurnar voru ekki á því að leggja árar í bát. Reynsluboltinn Dúfa Ásbjörns kom inn í lið Tindastóls og við það virtist leikur liðsins aðeins róast og smá saman náðist aftur taktur í leik Tindastóls. 

Tess minnkaði muninn í 60-70 fyrir lokafjórðunginn og hún gerði fyrstu körfu fjórða leikhluta en fyrstu fimm mínútur munaði jafnan átta til tólf stigum á liðunum. Á þá um 20 sekúndna kafla náðu stelpurnar hins vegar að gera átta stig og minnka muninn í þrjú stig, 73-76, eftir frábæran þrist frá Tess. Lið Grindavíkur tók leikhlé og náði að þétta vörnina á ný. Næstu mínútur var baráttan í algleymingi og mikið um mistök, misheppnuð skot og tapaða bolta. Lið gestanna komst í 73-81 en aftur náðu stelpurnar í skottið á þeim og minnkuðu muninn í 78-81 þegar mínúta var eftir. Lengra komust þær ekki, sóknirnar klikkuð og þær neyddust til að brjóta ítrekað á andstæðingunum sem nýttu vítin sæmilega og tryggðu sér sigur.

Um 150 áhorfendur skelltu sér í Síkið í dag og þó úrslitin hafi vissulega verið vonbrigði eftir spennandi leik, þá var fólk rígmontið með stelpurnar sem sýndu hjarta og þrautsegju. Sem fyrr segir er liðið reynslulítið, Stólarnir hafa ekki verið með meistaraflokk kvenna í þrjú ár, á meðan lið Grindavíkur var í efstu deild á síðasta tímabili og kunna því til verka á parketinu. 

Tölfræði af síðu KKÍ >

Tess var best í dag, fékk fáar villur og gat því spilað nánast allan leikinn. Hún var með 34 stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar en hefði að ósekju oft mátt láta boltann ganga betur en stelpurnar eru að sjálfsögðu enn að læra að spila saman og þær eiga bara eftir að verða betri.  Þóranna Ósk átti fínan leik og var með 16 stig og sex fráköst en er sennilega ekki alveg sátt við vítin sín og skrefin. Aðrir leikmenn fundu sig ekki í stigaskorinu en Rakel Rós spilaði hörkuvörn í síðari hálfleik og þá virtust Grindavíkurstúlkur eiga í meiri vandræðum í sókninni þegar Kristín Halla var inn á, en hún var hins vegar ansi snögg að næla sér í fimm villur og spilaði því ekki nógu mikið. Lið Tindastóls vann þrjá leikhluta af fjórum en sá leikhluti tapaðist stórt, 14-29. Bestar í liði gestanna voru Sigrún Elfa (21 stig),  Hrund (23) og Ólöf Rún (16). 

Næst fá stelpurnar lið ÍR í heimsókn í Síkið og verður sá leikur 27. október. Áfram Tindastóll!