Njarðvíkingar slógu Tindastól út úr Powerade-bikarnum

Tindastólsmenn féllu úr leik í Poweradebikarnum í gærkvöldi þegar strákarnir sóttu Njarðvíkinga heim í Ljónagryfjuna. Leikurinn var æsispennandi en slakur lokakafli Stólanna reyndist dýrkeyptur. Haukur Helgi Pálsson setti niður þrist þegar tvær sekúndur voru eftir og þrátt fyrir ágæta tilraun tókst Stólunum ekki að jafna. Lokatölur 66-63.

Stólarnir fóru vel af stað, komust í 8-17 en Njarðvíkingar náðu að jafna fyrir lok fyrsta leikhluta, 19-19. Annar leikhluti var hnífjafn og í hálfleik var staðan 35-34 fyrir Njarðvík. Ingvi Rafn kom sterkur inn í síðari hálfleik og Stólarnir náðu forystu um hann miðjan sem þeir héldu út leikhlutann. Staðan 47-53 þegar lokakaflinn hófst og Ingvi byrjaði á að negla niður þristi. Þá kom slæmur kafli og Njarðvíkingar jöfnuðu 56-56. Flake setti niður þrist en varnir liðanna voru sterkar og lítið gekk að skora. Á endanum gerðu Stólarnir aðeins fjórar körfur í leikhlutanum og það var hreinlega of lítið.

Leikurinn var engu að síður jafn og tvísýnn og baráttan í öndvegi. Njarðvíkingar voru heldur sterkari í fráköstunum en 3ja stiga nýting Stólanna var slök, 6/33 (18%), og helstu 3ja stiga skyttur liðsins fleyttu kerlingar allan leikinn, það var aðeins Flake sem nýtti þau skot vel. Jerome Hill hefur litlu skilað í fyrstu leikjum sínum með Stólunum sem allir hafa tapast. Í gær var hann með átta fráköst og fimm stig.

Í viðtali við Vísir.is sagðist Kári Marísson nýskipaður þjálfari Tindastóls skiljanlega vera svekktur.
 
„Já ég er frekar svekktur með að tapa þessum leik. Þetta var bikarleikur og við viljum alltaf vinna stóru leikina. En þetta var hörku skemmtilegur leikur og góðar varnir hjá báðum liðum. Það er greinilegt að bæði lið eru á svipuðum stað, þetta var svolítið stirt hjá báðum liðum," sagði Kári.

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni að Pieti Poikola, sem ráðinn var þjálfari Tindastóls í sumar, var sagt upp á dögunum en leikskipulag hans hefur mikið verið rætt. Tindastóll hefur gjörbreytt öllu eftir brotthvarf hans.
„Við breyttum bara öllu, frá A til Ö. Leikskipulagið, leikstílinn og kerfin. Við fórum bara í sama pakka og í fyrra og rúlluðum yfir það seinustu tvo daga og reyndum að fá það sem við gátum út úr því," sagði Kári sem hefur tekið við liðinu tímabundið en ekki hefur verið rætt hversu lengi hann verður við stjórn.  „Það er algjörlega óvíst og ég pæli ekkert í því. Það bara kemur það sem kemur og við mætum bara aftur frískír hingað á fimmtudaginn og reynum að gera betur," sagði Kári að lokum en liðin mætast í Dominos-deildinni á fimmtudag.

Stig Tindastóls: Lewis 14, Flake 13, Ingvi 10, Pétur 6, Helgi Viggós 6, Hill 5, Hannes 4, Helgi Margeirs 3 og Arnþór 3.