Loftfimleikar Dempsey’s gáfu tóninn í góðum sigri Tindastóls

Tindastóll tók á móti liði Hauka í fyrsta leik í undanúrslitarimmu liðanna í Dominos-deildinni í Síkinu í kvöld. Stólarnir náðu undirtökunum upp úr miðjum fyrsta leikhluta og létu forystuna aldrei af hendi þrátt fyrir ágætan kafla gestanna seint í þriðja leikhluta. Fjórði leikhluti var síðan bara völtun og Tindastólsmenn fögnuðu 30 stiga sigri að lokum, 94-64.

Tindastóll sópaði Þór Þorlákshöfn eftirminnilega út úr 8 liða úrslitum í þremur sigurleikjum en Haukar lentu 2-0 undir í sínu einvígi gegn Keflvíkingum en snéru Suðurnesjakappana af sér og unnu einvígið 3-2. Tindastóll, sem endaði í öðru sæti í deildinni, á heimaleikjaréttinn gegn Haukum og því mikilvægt að fara vel af stað í einvígi liðanna en næsti leikur verður í Schenker-höllinni í Hafnarfirði nk. föstudagskvöld og verður sá leikur í beinni á Stöð2 Sport.

Það varð snemma ljóst í kvöld að Stólarnir ætluðu að nota sama vopn og í leik liðanna í Síkinu í mars. Það átti ekki að gefa kana Haukanna, Alex Francis, auðveldar körfur og brjóta frekar á honum. Ástæðan sú að honum gengur lítið að hitta af vítalínunni og var með eitt skot niður í fjórtán vítaskotum síðast. Stuðningsmannalið Stólanna var með sitt á hreinu og hófu talningu þaðan sem frá var horfið í síðasta leik þegar Francis mætti á vítalínuna snemma leiks í kvöld. Niðurstaðan var keimlík, kappinn setti eitt skot niður af tíu og ljóst að róðurinn verður Hafnfirðingum erfiður ef þessi saga endurtekur sig í næstu leikjum.

Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 24-14 en Dempsey og Lewis fóru mikinn undir lok leikhlutans og ein alley-oop troðsla Dempseys var hreint út sagt stórkostleg þannig að Síkið trylltist. Annar leikhluti spilaðist líkt og sá fyrsti og Stólarnir bættu við forskotið síðustu mínúturnar. Enda var staða Stólanna í hálfleik góð, 51-34, og ljóst að Haukarnir áttu erfiða baráttu fyrir höndum.

Gestirnir höfðu þó sýnt í viðureignum sínum gegn Keflvíkingum að þeir eru sprækir í síðari hálfleik og þeir bitu frá sér þegar líða fór á þriðja leikhluta. Munurinn hélst þetta 15-17 stig framan af en síðustu mínútur leikhlutans voru Stólarnir ekki að spila nógu vel í sókninni og Haukarnir gengu á lagið. Kári Jónsson minnkaði muninn í fimm stig, 63-58, en Darrel Flake setti niður rándýran þrist undir lokin eftir eina af þrettán stoðsendingum Péturs Bigga Rafns í leiknum. Staðan 66-58.

Í fjórða leikhluta kom í raun bara annað liðið til leiks því Stólarnir ætluðu sér augljóslega ekki að hleypa Haukunum nær. Þriggja stiga karfa frá Helga Margeirs kom Stólunum í 73-59 og þá datt bensíntankurinn undan Haukaliðinu og Stólarnir rúlluðu leiknum upp með því að klára fjórða leikhluta 28-6!

Frábær sigur því staðreynd og líkt og í öðrum leikjum í úrslitakeppninni var Myron Dempsey í toppklassa með 30 stig og 14 fráköst. Lewis var kominn í sitt gamla góða form eftir erfiða leiki gegn Þór og setti 20 stig. Þá átti Flake fína innkomu en hann gerði 12 stig og þurfti að spila óvenjumikið þar sem Helgi Viggós átti ekki upp á pallborðið hjá ágætum dómurum leiksins sem fannst hann óþarflega fjölþreifinn. Aðrir leikmenn Tindastóls stóðu sig með miklum sóma.

Í liði gestanna voru Emil Barja og Kári Jónsson atkvæðamestir með 15 stig en Francis var alveg úti að aka eftir þessa vítamartröð í Síkinu og gerði sjö stig og tók fimm fráköst.

Stig Tindastóls: Dempsey 30, Lewis 20, Flake 12, Svabbi 7, Viðar 6, Ingvi 5, Pétur 5, Helgi Margeirs 5 og Helgi Viggós 4.