Ljótasti sigur í heimi en sigur þó lykilatriðið

Hann var ekki fallegur leikur Tindastóls og Hattar í Síkinu í kvöld í Dominos-deildinni í körfubolta og sérstaklega voru heimamenn flatir. Ef eitthvað bit hefði verið í Hattarmönnum þá hefðu þeir stolið þessu undir lokin. Það góða við leikinn er að hann er búinn og skilaði tveimur stigum á töfluna til Tindastóls.

Gestirnir komust í 8-15 og Hreinsi Birgis setti niður þrist og breytti stöðunni í 10-18. Hittni Stólanna minnti á byrjun leiksins gegn Haukum á dögunum en Lewis og Helgi sáu þó um að minnka muninn í 17-18 fyrir lok fyrsta leikhluta. Bestu kaflar Tindastóls komu í öðrum leikhluta og eftir þriggja mínútna leik var staðan orðin 29-22. Þegar ein og hálf mínúta var eftir setti Pálmi Geir niður þrist og kom Stólunum í 42-28 og í hálfleik var staðan álitleg, 42-30.

Addú, sem spilaði í kvöld eftir að hafa fengið heilahristing á dögunum, kom Stólunum fjórtán stigum yfir, 47-33. Þá fór Tobin Carberry loksins að láta til sín taka í sókn Hattar en Stólarnir gerðu honum mjög erfitt fyrir í fyrri hálfleik en kappinn gerði þá aðeins tvö stig. Hann er eldsnöggur, með magnaðan stökkkraft, skjótur að skjóta og nú þurftu þreytulegir Tindastólsmenn að fara að eltast við hann. Þegar rúm hálf mínúta var eftir af leikhlutanum minnkaði hann muninn í fjögur stig, 60-56, en annar gullfallegur þristur frá Helga Margeirs gaf Stólunum smá andrými. Staðan 63-56.

Flake, sem átti ágætan leik og dritaði niður nokkrum skotum í leiknum, kom Tindastóli í 65-56 en Carberry dró vagninn fyrir gestina og minnkaði muninn í 69-65 þegar fimm mínútur voru eftir. Tindastólsmenn voru að spila illa í fjórða leikhluta, misstu boltann kæruleysislega í sókninni, náðu hvorki takti í sókn né vörn og leikmenn voru í raun að gera sig seka um að klúðra þægilegum færum allan leikinn. Síðustu fimm mínúturnar voru því óþarflega spennandi fyrir stuðningsmenn Stólanna sem horfðu upp á sína menn erfiða á öllum vígstöðvum. Sem betur fer var 3ja stiga nýting gestanna afar döpur þannig að þegar þeir áttu kost á því að jafna leikinn úr opnum færum fyrir utan þá klikkaði miðið. Loftboltar virtust reyndar tískuskotið hjá báðum liðum. Já, þetta var ekki gott. Síðustu mínútuna dvöldu Tindastólsmenn talsvert á vítalínunni og voru sex síðustu stig liðsins skoruð þaðan. Carberry minnkaði í þrjú stig, 78-75, þegar 20 sekúndur voru eftir en Pétur tryggði sigur Tindastóls með tveimur vítum. Lokatölur 80-75.

Sem fyrr segir voru stigin tvö eiginlega það eina sem Stólarnir gátu glaðst yfir í kvöld. Helgi Viggós og Darrel Flake stóðu fyrir sínu en Lewis var þó að venju stigahæstur. Aðrir náðu sér ekki á strik. Lið Hattar hafði tapað öllum leikjum sínum í deildinni til þessa og það læddist að manni sá grunur að Stólarnir hafi vanmetið þá. Sem betur fer voru það aðeins Carberry, sem gerði 26 stig í síðari hálfleik, og Virijevic sem fundu fjölina sína fyrir utan að Helgi Björn hitti ágætlega í upphafi leiks.

Eftir þrjá tapleiki í röð í deildinni, sem kannski hafa dregið nokkuð úr mönnum, kom þó loks sigur í hús hjá Stólunum en það virðist sem Jou Costa, nýr þjálfari liðsins sem ekki hefur enn tekið við liðinu, hafi talsvert starf fyrir höndum að koma liðinu aftur á sigurbraut.

Stig Tindastóls: Lewis 20, Helgi Viggós 15, Flake 13, Helgi Margeirs 6, Svavar 6, Hill 6, Arnþór 6, Pálmi 3, Pétur 3 og Viðar 2.